Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 15:51:01 (3217)

2001-12-13 15:51:01# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir það að verið sé að vega að trúfrelsinu með þeim ráðstöfunum sem verið er að gera núna. Það er verið að horfa sérstaklega á niðurskurð á fjármagni eða öllu heldur frystingu á fjármagni til kirkjunnar, á upphæðinni til kirkjunnar á næsta ári. Því er ekki hægt að túlka það svo að verið sé að vega að trúfrelsinu.

Hins vegar er alveg ljóst að trúfélög gegna veigamiklu hlutverki í þjóðfélaginu. Söfnuðirnir, kirkjan, hvort sem hún er þjóðkirkja eða önnur kirkja, er mjög mikilvægt stuðningskerfi við samfélagið í dag. Afskaplega mikilvæg starfsemi fer fram í trúfélögunum sem við megum ekki vanmeta.

Ég segi aftur að ég hef ákveðnar áhyggjur af því ójafnvægi sem er þarna á milli. Ég hef kannski ekki neinar aðrar lausnir en ég hef bent á hingað til hvernig hægt er að minnka þetta ójafnræði. En þetta er nokkuð sem þarf að ræða í framtíðinni og finna lausnir á. Kristilegt umburðarlyndi mitt nær nefnilega það langt að ég hef umburðarlyndi gagnvart öðrum trúfélögum og tel að það þurfi að styðja við þau líka.