Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 17:00:20 (3229)

2001-12-13 17:00:20# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[17:00]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það háttar nú svo sérkennilega til að við hv. þm., sem stöndum hér og rífum okkur hver sem betur getur út af þessum ráðstöfunum í ríkisfjármálum, erum í rauninni að tala um hluti sem þegar er búið að taka ákvörðun um. Ég vil nota þetta tækifæri sem ég fæ hér í þessari ræðu til að mótmæla þeim vinnubrögðum. Mér finnst pínulítið eins og ég sé að bóna gólfið og þvo það á eftir, ef ég tek dæmi úr störfum mínum sem húsmóðir. Þetta er ekki rétt, þetta stenst ekki. Þar fyrir eru náttúrlega tilefnin fyrir hendi til að taka mikið upp í sig út af því sem hér er verið að gera. En það breytir því ekki að ákvarðanirnar hafa því miður verið teknar.

Hluti af því sem kemur við sögu í ráðstöfunum í ríkisfjármálum snerti hv. menntmn. og nefndin var beðin um að gefa álit til efh.- og viðskn. vegna þess bandorms sem við erum hér að afgreiða. Það fór náttúrlega svo, og var svo sem ekki óvænt, að nefndin klofnaði í afstöðu sinni til álitsins og að minnihlutaáliti sem lagt var fram stóðu hv. þm. Einar Már Sigurðarson, Sigríður Jóhannesdóttir, sem hér stendur, og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sem talaði á undan mér.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom mjög vel inn á þann þátt sem snertir Endurbótasjóð menningarstofnana og þá skerðingu sem þar er verið að gera og ég mun svo sem ekki hafa mörg orð um það. En ég vil þó aðeins segja að samkvæmt lögum átti sá sjóður að innihalda 713 millj. sem áttu að fara til viðhalds og endurbóta á menningarbyggingum sem margar eru í mjög slæmu ásigkomulagi og hefði svo sannarlega ekki veitt af.

Samkvæmt fjárlagafrv. sem lagt var fram á haustdögum var ekki gert ráð fyrir nema 385 millj. kr. sem færu í slíkt viðhald og var náttúrlega strax þar gefinn tónninn að því að bandormur kæmi með skerðingarákvæðum á Endurbótasjóðinn, enda hefur það verið árlegur viðburður frá því að ég kom á þing. En þetta hlutfall átti eftir að versna, því að þarna var þó gert ráð fyrir 385 millj. kr. en þegar ríkisstjórnin hafði hugsað sig aðeins um og leggur fram nýjar brtt. til 3. umr., þá er búið að skera þetta niður í 335 millj., búið að skera upphæðina niður um 50 millj., og þar var nú ekki ráðist á garðinn þar sem hann er hæstur.

Það hefur dregist úr hömlu að koma Þjóðminjasafninu í notkun aftur og voru ekki áætlaðar í það nema 240 millj., en það var síðan í þessum endurskoðuðu tillögum dregið niður í 225 millj.

Í sambandi við verndun gamalla húsa, sem hafði verið áætlað að yrði óbreytt, er vísitalan og það allt ekki látið koma á af fullum þunga þegar þarf að vinna að byggingarframkvæmdum við eldri hús. Það verður ódýrara með hverju árinu sem líður, því að þarna gátu þeir fundið matarholu til að draga þetta niður um 15 millj. kr., þetta sem var þó aldrei nema 65 milljónir og sama upphæð og á sl. ári. (Gripið fram í: Þeir sleppa þakinu.) Já, það er nú náttúrlega alveg sértækt lag sem hefur verið haft hér af hálfu hins opinbera á byggingarframkvæmdum á síðasta ári. Gólfum var sleppt og raflögnum var sleppt og því um líku, sem frægt er orðið, og það er kannski tekið mið af því við þessar ákvarðanir.

En þó vil ég sérstaklega tiltaka að áætlaðar voru 30 millj. kr. í endurbætur á Þjóðleikhúsinu sem er nú bókstaflega að hrynja, bæði yfir gesti og starfsfólk. En þar komust þeir þó í feitt því að þar gátu þeir náð í 20 millj. og dregið niður í 10 millj. sem áttu að fara á næsta ári í endurbætur á Þjóðleikhúsinu. Og ég veit bara ekki hvað er hægt að gera, það er kannski hægt að laga svona eins og einar tröppur, ég segi það ekki, sem þarfnast mikilla viðgerða, en það verður ekki gerður stór hlutur í Þjóðleikhúsinu fyrir 10 millj. kr. Ég veit eiginlega ekki hvað er verið að meina með svona löguðu, ég segi það satt. Það hlýtur að hafa mátt finna einhverjar leiðir til að fá auknar tekjur í ríkissjóð, aðrar en þessar.

Í 2. gr. þessa makalausa bandorms eru lagðar til breytingar á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, sem varða hækkun á innritunar- og efnisgjöldum. Í meðferð nefndarinnar kom m.a. fram að þau gjöld sem hér er gerð tillaga um að hækki eru aðeins hluti þeirra gjalda sem nemendur í framhaldsskólunum þurfa að greiða. Mig langar að tiltaka nokkur gjöld sem forsjármenn framhaldsskólanna hafa af hugviti sínu fundið upp til að reyna að reka stofnanirnar þrátt fyrir framlög ríkisins. Þar eru börnin látin greiða innritunargjöld eins og við erum hér að afgreiða, svo eru þau látin greiða endurinnritunargjöld eins og við þekkjum. Síðan eru þau látin borga sérstaklega fyrir prentun og ljósritun, þau eru látin borga prófagjöld ýmiss konar, þau eru látin borga efnisgjöld, sem er nú verið að hækka um 100%, síðan eru þau látin borga námskeiðsgjöld og skápaleigu. Þau eru látin borga heimavistargjald þar sem það er hægt að heimfæra, og þau eru auðvitað látin borga fyrir mötuneyti og þvottagjald. Þetta eru bara dæmi.

Ungur nemandi í framhaldsskóla, mér nákominn, bað í gærmorgun um 1.000 kr. Mér lék nú hugur á að vita til hvers ætti að nota þessar 1.000 kr. og það átti þá að kaupa stærðfræðiprófið frá því í fyrra. Það kostar 1.000 kr. Og ég verð að segja að mig rak í rogastans. Allan þann tíma sem ég var við kennslu þá ljósritaði maður og útvegaði nemendum sínum próf frá liðnum árum sem þau gætu æft sig á eða áttað sig á hvernig þyngd prófsins yrði kannski o.s.frv., og ég man aldrei nokkurn tíma til að tekin væri króna fyrir það. En það kostar sem sagt 1.000 kr., eitt slíkt próf. Ef maður ætlar t.d. að fá prófin frá þremur undanförnum árum, þá kosta þau 3.000 kr. Þetta finnst mér nú vera svolítið langt seilst. (LB: Getur ekki verið að próf í dag séu skilgreind sem hugverk?) Já, þetta er náttúrlega hugverk að vísu, það er alveg rétt, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þetta er hugverk.

Vegna þröngrar fjárhagsstöðu framhaldsskólanna hafa skólarnir leitað margra leiða til að auka tekjur sínar og hafa nemendur skólanna fengið að kynnast ýmsum tegundum gjalda af þeim sökum. Lítið samræmi virðist vera milli skólanna í þessum gjaldtökum og er erfitt að fá heildaryfirlit yfir gjaldtökuna. Sú spurning hlýtur að vakna hvort gætt sé jafnræðis milli nemenda í framhaldsskólum hvað þessar gjaldtökur varðar. Sú gjaldtaka sem hér er gerð tillaga um kemur því til viðbótar ýmsum öðrum gjöldum og þeim almennu hækkunum sem m.a. hafa átt sér stað að undanförnu á námsbókum. Þá ert ljóst að 100% hækkun efnisgjalda fer ekki saman við fögur orð um eflingu verknáms heldur mun miklu frekar gera nemendum erfiðar að stunda það nám sem hugur þeirra stendur til. Með tillögunum er því gengið gegn markmiðinu um jafnrétti til náms.

Mig langar af þessu tilefni að vitna í umsögn sem Iðnnemasamband Íslands sendi til hv. efh.- og viðskn. en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Gríðarlegur kostnaður er fylgjandi því að ungt fólk flytjist landshluta á milli og ber þar að nefna leigu á frjálsum markaði sem má segja að sé að lágmarki 25.000 kr. fyrir eitt herbergi með aðgangi að klósetti og eldhúsi. Síðan má bæta ofan á það ferðakostnaði, matarkostnaði, fatakostnaði og skólakostnaði.``

Þarna er verið að ræða um hverjar séu ástæðurnar fyrir því að mjög hefur dregið úr aðsókn ungs fólks utan af landi í iðnnám.

,,Skólakostnaður hefur verið mikill og oft hafa nemar hrökklast úr námi vegna þess að launin eru undir lágmarkslaunum í landinu`` --- þ.e. iðnnemalaunin eru 42.000 til 89.000 kr. á mánuði --- ,,og með þessum bágu kjörum þurfa nemar að kaupa`` --- og það er alveg fyrir utan efnisgjöld --- ,,verkfæri, vinnuföt og annað slíkt sem getur hlaupið á tugum þúsunda. T.d. má nefna hárgreiðslu, byrjunarpakkinn þar er um 65.000 kr. og í matreiðslu er hann um 40.000--50.000 kr.``

Og þetta kemur ekki inn í efnisgjöld skólans.

,,Það er í öllum iðngreinum að nemendur þurfa að kaupa verkfæri eða önnur námstengd efni. Bókakostnaður við hverja önn er í kringum 30.000--50.000 kr.

Að mati INSÍ er engin réttlætanleg skýring á þeim gríðarlegu hækkunum sem nemar horfast í augu við og ljóst að hér er verið að stuðla að því að færri nemar skili sér í framhaldsskólana en nú þegar gera.``

Síðan er haldið áfram hérna nokkru seinna, ef ég gríp niður í þetta álit sambandsins:

,,Framhaldsskólar í dag rukka fullt efnisgjald hvort sem nemendur eru að fullu að nýta það eður ei. Það er því ljóst að skólarnir munu gera það áfram og þar af leiðandi leggst gjaldið á þá mörgu sem ekki eru að nýta það. Enda er 100% hækkun á efnisgjöldum á engan hátt réttlætanleg.``

Ég vil taka undir það og við í minni hluta menntmn., 100% hækkun á efnisgjöldum við þessi skilyrði er engan veginn réttlætanleg að okkar áliti. Við teljum að með þessari hækkun sé gengið gegn markmiðinu um jafnrétti til náms.

[17:15]

Í 3.--5. gr. eru lagðar til breytingar á lögum um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997, um Háskólann á Akureyri, nr. 40/1999, og um Háskóla Íslands, nr. 41/1999. Allar breytingarnar varða hækkun á innritunargjöldum úr 25.000 kr. í 32.500 kr. samkvæmt síðustu gerð fjárlagafrv. sem búið er að samþykkja en í frumgerð fjárlagafrv., sem lagt var fram við 1. umr., var gert ráð fyrir að gjaldið væri 35 þús. kr. og var það um 40% hækkun frá því sem áður hafði verið. Var þessi hækkun rökstudd með tilliti til verðlagshækkana frá 1991 sem ekki stenst nein rök. Árið 1995 komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að upphæð gjaldsins, eins og það var ákvarðað með lögum, hafi ekki verið byggð á lögmætum sjónarmiðum þar sem upphæðin var byggð á sjónarmiðum um öflun tekna til greiðslu almenns rekstrarkostnaðar skólanna en ekki á útreikningum á þeim kostnaði sem gjaldið átti að standa undir. Til að mæta áliti umboðsmanns var lögum breytt 1996 og gjaldið þá hækkað í 24 þús. kr. Sú upphæð var þó ekki grundvölluð á nákvæmri úttekt á kostnaði heldur með því að framreikna upphæðina frá l992--1993. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 er sagt að gjaldið eigi að standa undir 5,5% af kennsluútgjöldum samkvæmt kennslulíkani. Þá er nú komið ansi langt frá markmiði laganna. Mjög margir hafa orðið til að mótmæla þessari túlkun, einkum þar sem ný lög um háskóla á Íslandi voru sett á árunum l997--1999 og þar er að finna heimild fyrir innritunargjöldum sem aðeins eiga að standa undir kostnaði við innritun og á ljósrituðu efni. Engin rök eru fyrir því að raunhækkun á þeim kostnaði hafi numið 40% á þessu tímabili og má raunar færa rök fyrir því að slíkur kostnaður hafi jafnvel lækkað með aukinni notkun fjarskiptatækni þar sem nemendum er vísað á slíkt efni á heimasíðum sem þeir síðan prenta eða ljósrita á eigin kostnað.

Hæstv. forseti. Þetta á ekki aðeins við um þá sem stunda fjarám heldur t.d. alla nemendur sem eru í námi í Kennaraháskóla Íslands. Þeir eru hættir að fá ljósrituð blöð frá kennurum sínum. Þeim er vísað á heimasíður til að sækja þangað glósur og annað sem þeir þurfa á að halda og eiga að fá frá kennurunum. Hvað það snertir ætti nú að vera búið að lækka þetta gjald því þessar kostnaðaráætlanir standast ekki.

Háskóli Íslands fór í miklar leikfimiæfingar í haust til að reyna að skjóta stoðum undir þessi gjöld. Mér hefur áskotnast eitt eintak af því sem út úr þeirri vinnu kom. Þar segir að nemendaskrá á skrifstofu kosti 3.500 kr. á nemanda, nemendaskrárkerfi, tölva og kerfisfræðingur, 2.000 kr. á nemanda. 20% af kostnaði deildarskrifstofa vegna nemendaskráningar eru 4.000 kr. á nemanda. Stúdentaskírteini kosta 500 kr. á nemanda, póstsendingar vegna námsferilsyfirlits 280 kr. á nemanda, auglýsingar vegna skráningar --- stúdentarnir eiga að standa undir auglýsingakostnaði stofnunarinnar --- 500 kr. á nemanda, kennsluskrá 1.000 kr. á nemanda, upplýsingabæklingur 500 kr. á nemanda og námsráðgjöf og námskynning 3.500 kr. á nemanda.

Þarna eru þeir komnir upp í kostnað við nemendaskráningu alls 15.780 kr. Svo fer að æsast leikurinn því að þeir fara að tala um prófgæslu 1.500 kr. á nemanda, prófdómara 450 kr. á nemanda, prófgögn 400 kr. á nemanda. Og þá geta þeir bætt þarna við vegna prófa 2.350 kr. á nemanda.

Svo koma tölvurnar. Aðgangur nemanda að tölubúnaði og tölvunetum HÍ kostar 5.000 kr. á nemanda, aðgangur að interneti 2.200 kr. á nemanda, aðgangur stúdenta að tölvuprenturum 1.000 kr. á nemanda. Þarna fá þeir út 8.200 kr.

Með því að tína allt til, ljósrituð námsgögn, alþjóðaskrifstofu og vegna þjónustu stúdentaráðs við stúdenta fá þeir kostnaðinn upp í 33.750 kr. En ég verð að segja um þetta dæmi sem sent var til hv. fjárln. til að renna stoðum undir þennan reikning sem ríkið var að senda, að mér finnst ansi langt seilst og heilmikið tiltekið sem ég lít ekki á sem kostnað við skráningu. Það er öðru nær.

Í fjárlögum fyrir árið 2002 sem nú hafa verið afgreidd og í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem hér er fjallað um er gert ráð fyrir að innritunargjöld í háskóla hækki í 32.500 kr. Minni hlutinn mótmælir að til þessara ráðstafana sé gripið ,,til að mæta sparnaðaráformum ríkisstjórnarinnar`` eins og það er orðað í frumvarpi til fjárlaga.

Minni hlutinn ítrekar að með því að auka álögur á stúdenta á sama tíma og námsmöguleikum þeirra er ógnað með verulegum verðhækkunum, t.d. á námsbókum, húsaleigu og matvælum, er ógnað þeirri þjóðarsátt sem hingað til hefur verið um að standa vörð um jafnrétti til náms. Ákveðnir hópar stúdenta standa verr að vígi en aðrir í slíkum hamförum. Þar má nefna barnafólk og fólk af landsbyggðinni, en við höfum dæmi um að þegar lagðar hafa verið svo miklar álögur á námsfólk, hefur einmitt þetta fólk verið viðkvæmast fyrir og horfið frá námi. Við viljum ekki, minni hluti menntmn., að slíkt endurtaki sig.