Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 17:35:33 (3231)

2001-12-13 17:35:33# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[17:35]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykn. beindi til mín spurningu varðandi gjaldtökuna á sjúkrahótelunum, hvernig yrði með endurgreiðslu á því gjaldi, ef ég hef skilið hann rétt, sem var tekið fyrr á þessu ári. Ég vil láta koma fram að ég tók ákvörðun um að hætta innheimtu þessa gjalds í haust og innheimta það ekki án þess að styrkja lagagrundvöllinn undir því. Hins vegar er ekki þar með sagt að skapast hafi neinn bótaréttur. Það hefur engin kvörtun borist yfir þessu gjaldi, mér er kunnugt um það, til landlæknisembættisins eða okkar. Hins vegar var ljóst að styrkja þurfti lagagrundvöllinn fyrir þessu gjaldi. Það er gert hér með. Hins vegar var engin umræða um þetta gjald í samfélaginu og mér er kunnugt um að engar kærur eða kvartanir hafa borist vegna þess. Eigi að síður tók ég þessa ákvörðun í haust.

Varðandi sjúkrahótelin hefur framtíð þeirra í heilbrigðiskerfinu blandast mjög í þessa umræðu. Ég er sammála því að þetta sé úrræði sem eigi að efla í heilbrigðiskerfinu. Það er ljóst að þangað fer fólk útskrifað af spítala. Það er alveg ljóst að þangað fer ekki nema sá sem er útskrifaður af sjúkrahúsi. Þangað fer fólk í framhaldshvíld og til að jafna sig eftir spítalavist og ég held að svo verði áfram.