Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 17:41:42 (3234)

2001-12-13 17:41:42# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér á óvart að það teljist ekki liggja fyrir hér með óyggjandi hætti. Ég hafði skilið það þannig af frumvarpstextanum og af nál., bæði minni og meiri hluta, að menn væru að breyta lögum vegna þess að fyrri gjaldtaka hafi ekki staðist lög. Nú er upplýst að mikil óvissa sé á ferðinni um það mál. Það eru alveg nýjar upplýsingar fyrir mig.

Á ég að trúa því að lögfræðingar ráðuneytisins og Stjórnarráðsins þá hafi ekki gengið úr skugga um það fullkomlega? Á ég þá jafnframt að trúa því að menn hafi ekki gætt að rétti þeirra einstaklinga, tuga eða hundruða, sem hafi ofgreitt í þessu sambandi? Hver er bótaréttur þeirra? Ég óska eindregið eftir því að það verði gert hið allra fyrsta og í síðasta lagi fyrir 3. umr. þessa máls þannig að menn hafi það hér klárt og kvitt hvernig þau mál standa.

Varðandi stöðu sjúkrahótela eftir þá breytingu sem hér er verið að leggja til, verði hún að lögum, þá er ekki erfitt að skynja andann og tóninn í þessari gjörð. Í fyrsta lagi er verið að búa þannig um hnúta að hægt sé að rukka. Að því leyti er þessi beina heilbrigðisþjónusta sem við erum hér að ræða um ekki lengur inni á sjúkrahótelunum, það liggur alveg í augum uppi. Maður spyr sig þá tveggja spurninga. Í fyrsta lagi: Hvenær verður þetta hækkað? Í öðru lagi: Hvaða stofnun verður næst kippt til hliðar og út fyrir sviga þannig að hægt sé að fara að rukka?