Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 17:44:58 (3236)

2001-12-13 17:44:58# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[17:44]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alkunna að hæstv. forsrh. er einkar minnugur. Sumir nota það orð um hann að hann hafi límheila og muni allt sem einhvern tíma er sagt eða gert. Ég heyri það á honum að hann hefur engu gleymt. Ég taldi því enga ástæðu til að fara orðum um slíkt smotterí sem féll af vörum einhverra þingmanna fyrr í dag.

Jafnaðarmenn í ríkisstjórn með Davíð Oddssyni voru langt í frá viljalaus verkfæri. Ég gæti farið hér yfir það í löngu máli. Það er eftirtektarvert hvenær menn byrjuðu að gefa hér, við skulum segja, ríkisstofnanir á brunaútsölum, sem var sett stopp við.

Af því að hæstv. forsrh. man svo vel þá man hann líka að það ár sem ég sat á stóli heilbrrh. voru kostnaðargjöld ekki hækkuð. Þá voru ekki tekin upp ný kostnaðargjöld í heilbrigðisþjónustu. Ég vænti þess, af því að hann gerir nú þetta sérstaklega að umtalsefni, að hann geti staðfest það sökum minnis síns.

Varðandi þessi mál almennt þá veit ég líka að hæstv. forsrh. man mætavel að á þeim tímum er hann kom að Stjórnarráðinu árið 1991 og allt til 1995 þá börðust menn hér við kreppu og mikla erfiðleika í atvinnulífi. Viðvarandi atvinnuleysi hafði tekið sér bólfestu og því var úr vöndu að ráða. Það kreppti að, ekki eingöngu hjá ríkissjóði heldur fólkinu í landinu. Ég held að okkur hafi tekist bærilega, miðað við hinar erfiðu aðstæður á þeim tíma að búa þannig um hnútana í heilbrigðiskerfinu, við jafnaðarmenn, að verja þá sem minnst máttu sín og tryggja að þeir sykkju ekki eins og djúpt og efnahagsástandið gerði ráð fyrir.

Ég held að þessi snöggsoðna lýsing á kringumstæðum áranna 1991--1995 sé hæstv. forsrh. jafnminnisstæð og mér og hann geti staðfest þessa lýsingu að flestu eða öllu leyti.