Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:12:16 (3241)

2001-12-13 18:12:16# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:12]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit nú ekki hverju hv. þm. er að mótmæla. Hún er að fara yfir reglurnar nákvæmlega eins og ég gerði þannig að eitthvað ruglast þetta í kollinum á hv. þm. því ég er búin að fara yfir reglurnar nákvæmlega eins og hv. þm. gerði hér áðan, en var samt að mótmæla því og segja að ég hefði farið með rangt mál. Ég var einmitt að hrósa hæstv. heilbrrh. fyrir að hafa ekki hækkað gjöldin á börnin og lífeyrisþegana, þ.e. hækkað þau mun minna. Það var eitthvað á milli 20 og 60% sem þau hækkuðu á lífeyrisþegana eftir aðgerðum. Ég gat þess að hámarkið fyrir börnin væri 6.000 kr. fyrir öll börn í sömu fjölskyldu. Hún er að endurtaka nákvæmlega það sem ég sagði þannig að ég vísa því bara til föðurhúsanna að ég hafi farið hér með rangt mál.

Ég nefndi reyndar ekki reglugerðina um endurgreiðslur fyrir tekjulága vegna heilbrigðisþjónustu. Það hefur nú verið allur gangur á því hvernig fólk hefur fengið endurgreiðslur vegna þessa og ég hef fengið kvartanir vegna þeirrar afgreiðslu þannig að ég ákvað nú að vera ekkert að geta hennar sérstaklega hér, enda hefðum við þá kannski þurft að fara út í frekari umræðu. En allar þær upplýsingar sem ég hef komið með hér úr þessum stóli eru réttar.

Og ástæða þess að ég tók ekki sérstaklega fyrir hækkanirnar á ellilífeyrisþegana og öryrkjana var auðvitað sú að það er mjög lítil hækkun þar og ég gat þess í máli mínu. Aftur á móti var ég alltaf að tala um almenna sjúklinga, okkur sem erum ekki öryrkjar, ellilífeyrisþegar eða börn. Ég gat þess í mínu máli. Hámarkið var hækkað í 18.000 kr. og afsláttarkortið fellur úr gildi um áramót og þá þarf að byrja að safna upp aftur. Þess gat hv. þm. ekki í máli sínu þegar hún fór yfir reglurnar.