Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:15:17 (3243)

2001-12-13 18:15:17# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:15]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit eiginlega ekki hvað þingmanninum gengur til með þessum málflutningi. Hér talaði ég um 18 þús. kr. hámark, þ.e. fyrir almenning og þó það séu ekki börn, aldraðir eða öryrkjar, þá er líka til fátækt fólk í þeim hópi, ég minni á það. Það fólk þarf líka að fara í æðahnútaaðgerðir, það fólk þarf líka að fara í bæklunaraðgerðir. Ég taldi að hætta væri á því að þetta fólk hefði ekki efni á að fara í slíkar aðgerðir þegar búið væri að hækka gjaldið það mikið.

Ég talaði um nokkur hundruð prósenta hækkun. Ef gjald fyrir þessar aðgerðir hækkar úr 6 þús. kr. upp í 28 þús. kr., eins og er með bæklunaraðgerðir á báðum hnjám, eða æðahnútaaðgerð öðrum megin sem hækkar frá 6 þús. kr. og upp í yfir 20 þús. kr. þá er það nokkur hundruð prósent hækkun. Ég er ekki að fara með neitt fleipur í þeim efnum, reiknað hefur verið út fyrir mig í Tryggingastofnun ríkisins nákvæmlega hvað þetta muni kosta. Þetta eru útgjöldin hjá sjúklingnum ef hann hefur ekki verið með afsláttarkort fyrir, en hann fær samt afslátt. Hann nær upp í afsláttarkortið því þetta fer upp í 18 þús. kr. og sá afsláttur er tekinn með inn í gjaldið sem ég er að segja hér frá.

Ég fór nákvæmlega yfir það allt saman hér í ræðum mínum og ástæðulaust að vera eitthvað að vefengja það eða dylgja, því þetta eru opinberar upplýsingar og getur hver sem er nálgast þær hjá Tryggingastofnun ríkisins. En ég er algjörlega á móti því að verið sé að hækka gjöldin fyrir þessa hópa og þess vegna hef ég andmælt því og vakið athygli á hvernig ríkisstjórnin hækkar gjöld fyrir aðgerðir, algengar aðgerðir, sem allir þurfa að fara í. Auðvitað getur ríkt fólk borgað þær aðgerðir en þeir sem eru efnalitlir geta ekki leyft sér þetta, margir hverjir.