Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:18:27 (3245)

2001-12-13 18:18:27# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:18]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Um það var rætt í samkomulagi milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar að þessar umræður mundu ekki standa mikið lengur en þær hafa nú gert. Þó vissulega sé það svo, herra forseti, að frv. kalli raunverulega á miklu ítarlegri og lengri umræður en hér hafa farið fram þá gefst aftur tækifæri til þess við 3. umr. að fara frekar ofan í þetta mál.

Ég skal því vera stuttorð en ég vildi gjarnan, nú í lok umræðunnar, beina einni fyrirspurn til hæstv. forsrh. Ég kom inn á það í máli mínu hér í dag að ég teldi miklu skynsamlegra og eðlilegra á allan hátt að fara þá leið að hækka frekar gjald af tóbaki en að hækka gjöld á námsmenn, skólagjöld, sem koma sér kannski sérstaklega illa fyrir barnafjölskyldur í námi og námsmenn utan af landsbyggðinni eins og hér hefur ítarlega verið farið yfir. Ég sagði að ég útilokaði ekki að ég mundi skoða slíka tillögu, ekki síst vegna þess að verðlagsáhrifin af slíkri tillögu virðast miklu minni en verðlagsáhrifin af því að auka gjöld á námsmenn.

Ég hef því meðfram því að hlusta á umræðuna í dag látið skoða þetta mál nánar og það hefur staðfest mig í þeirri trú að miklu skynsamlegra sé og réttara að fara þá leið að hækka frekar tóbaksgjaldið.

Ég hef verið að láta skoða hve hátt þyrfti að fara með tóbaksgjaldið miðað við að fallið yrði frá aukinni gjaldtöku á námsmenn og líka þeirri gjaldtöku sem er greinilega mjög umdeild, þ.e. á sjúkrahótelum.

Til þess að fá 110 millj. í auknar tekjur, sem það kallar á að falla frá gjaldtöku á námsmenn og gjaldtöku á sjúkrahótelin, þá þyrfti að hækka tóbaksgjaldið um 5 kr. Verðlagsáhrifin af því eru ekki nema rúmlega 0,03%, meðan Hagstofan, eða Þjóðhagsstofnun í samráði við Hagstofu, hefur uppýst og það er hér til í gögnum, að verðlagsáhrifin af því að hækka gjöld á námsmenn eru 0,14%. Það segir sig sjálft, herra forseti, í því viðkvæma ástandi sem við erum í, ekki síst vegna samkomulags sem gert var á þessum degi milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um að ná tökum á verðbólgunni, að mikilvægt er að fara varlega í alla liði og allar hækkanir sem hreyfa mikið við verðbólgunni eða verðlagsáhrifum.

Nú er það svo, herra forseti, að sú brtt. sem ég og flokkur minn hefðum gjarnan viljað flytja er ekki tilbúin þegar við göngum hér til atkvæðagreiðslu við 2. umr. þessa máls.

Því vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort hann teldi að til greina kæmi að skoða það milli 2. og 3. umr. að fara frekar þá leið sem ég hef nefnt, að hækka tóbaksgjaldið um 5 kr., sem gefur 110 millj. kr. með verðlagsáhrifum upp á 0,03% á móti því að falla frá þá gjöldunum á námsmenn og gjaldtökuna á sjúkrahótelin. Það gæfi ríkissjóði hið sama og fæli í sér miklu minni verðlagsáhrif en sú leið sem ríkisstjórnin er að fara varðandi þá tvo þætti sem eru í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Þar sem ég get ekki flutt þessa brtt. nú og verð að bíða með hana til 3. umr. þá fýsir mig að heyra afstöðu hæstv. forsrh. til þess hvort hugsanlegt væri að ná samkomulagi um þessa leið sem ég hef hér nefnt.