Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:24:23 (3247)

2001-12-13 18:24:23# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:24]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fagna því að ekki var hægt að skilja orð hæstv. forsrh. öðruvísi en svo að honum þætti þetta a.m.k. ekki óskynsamleg tillaga. En hæstv. forsrh. bar fyrir sig einhverjum tæknilegum atriðum um að búið væri að afgreiða fjárlög og því væri erfitt á síðustu stundu að gera þær breytingar sem ég hef verið að leggja til.

Ég held, herra forseti, að miðað við þær viðtökur sem mér finnst þetta mál fá hjá hæstv. forsrh. að við ættum nú að reyna að setjast yfir það milli 2. og 3. umr. Þó að fjárlögin séu eins og hæstv. forsrh. nefndi, þá held ég að um tæknilegt atriði sé bara að ræða. Ég veit að hæstv. forsrh. er mjög mikið í mun, eins og öllum hér inni, að halda niðri verðlagsáhrifum af þeim gjaldtökum sem ríkisstjórnin er að fara í og haga þeim með þeim hætti að þau hafi sem minnst verðlagsáhrif. Ég hef sýnt fram á að lítilleg hækkun á tóbaksgjaldi hafi miklu minni verðlagsahrif en hækkun á gjöldum á námsmenn.

Því tel ég, herra forseti, líka miðað við það að hækkun tóbaksgjalds hefur verulegt forvarnagildi --- það er löngu sannað að það er fyrst og fremst verð á tóbaki og hækkun á tóbaki sem getur frekar komið í veg fyrir reykingar en annað --- að ástæða sé til að skoða það eftir 2. umr. og óska eftir því að það verði gert, hvort hægt sé þá við 3. umr. málsins að reyna að ná samstöðu um það mál og vona ég að það geti orðið.