Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:40:17 (3249)

2001-12-13 18:40:17# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:40]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til þess að taka undir það með hæstv. forsrh. að það samkomulag sem náðist milli aðila vinnumarkaðarins á þessum degi er afar mikilvægt. Það er afar mikilvægt til þess að hægt sé að styrkja gengið og lækka verðbólguna. Þetta er raunverulega það sem við í Samfylkingunni hvöttum til fyrir nokkrum vikum síðan, að tekið yrði upp slíkt þríhliða samráð sem nú hefur leitt til þessarar niðurstöðu.

Það er alveg ljóst að launafólk fórnar auðvitað miklu. En það er allt gert í trausti þess að hægt verði að ná hér niður verðólgunni. Heimilin í landinu eru mjög skuldsett og hver hækkun í prósentu í verðbólgu þýðir að skuldir heimilanna aukast um 5--6 milljarða. Öll hljótum við því að taka undir það að afar brýnt er að ná þeim markmiðum sem sett eru með því samkomulagi að ná verðbólgunni niður í 3%, sem hefur nú á síðustu 12 mánuðum verið um 8,6%.

Ég verð að segja það, herra forseti, að hlutur verkalýðshreyfingarinnar er auðvitað langmestur í þessu samkomulagi. En hlutur ríkisstjórnarinnar er mjög lítill vegna þess að þrátt fyrir það samkomulag sem hefur náðst er ríkisstjórnin á þessum degi að leggja til að samþykkt verði frv. sem felur í sér 0,35% verðlagsáhrif, aukningu á verðbólgunni. Það er ekki gott innlegg frá ríkisstjórninni á þessum degi. Eina innlegg ríkisstjórnarinnar er að lækka tryggingagjaldið um einn þriðja ef verðlagsmarkmiðin nást. Ekki er hægt að skilja það öðruvísi en svo að ef verðlagsmarkmiðin nást ekki þá muni ríkisstjórnin falla frá því að lækka tryggingagjaldið um þriðjung. Það er mjög sérkennilegt af því tryggingagjaldið hefur í för með sér hækkun á verðbólgu um 0,3--0,4%. Innlegg ríkisstjórnarinnar á þessum degi er því mjög sérstakt.