Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:53:20 (3255)

2001-12-13 18:53:20# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, JóhS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:53]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er að grípa til með því frv. sem hér er greitt atkvæði um eru mjög handahófskenndar. Þær koma fram í auknum sjúklingasköttum og sköttum á námsmenn og bitna harkalega á jafnrétti til náms. Ríkisstjórnin er líka að taka ófrjálsri hendi félagsgjöld sem henni var trúað til að innheimta fyrir kirkjuna með sérstökum lögum.

Verðlagsáhrifin af frv. og þessum aðgerðum eru mjög neikvæð fyrir þá sátt sem í dag hefur verið gerð milli aðila vinnumarkaðarins eins og hér hefur komið fram. Þingmenn Samfylkingarinnar munu þess vegna greiða atkvæði gegn öllum greinum frv. nema 6. gr. um veiðieftirlitsgjald.