Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 19:01:58 (3262)

2001-12-13 19:01:58# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[19:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni aldeilis dæmalaus ráðstöfun hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta hennar, að ætla að fara ránshendi um tekjur kirkjunnar og trúfélaga í landinu. Ríkið innheimtir þetta fé fyrir kirkjuna og trúfélög og ætlar nú að taka hluta af því til sín. Í reynd er hér um vörslufé sem er tímabundið í höndum ríkisins að ræða. Það getur hver sett sig í þau spor að eiga sitt undir innheimtumanni af þessu tagi, að hann taki sér bara sjálfdæmi um það hversu miklu hann stelur af vörslufénu. Það er alveg sérstakt að hæstv. fjmrh. skuli leggja blessun sína yfir þetta því þar er ekki miskunninni að mæta ef þeir sem hafa með höndum vörslufé og eiga að standa skil á því til fjmrh. skila því ekki.

Að síðustu er það svo að þessi ráðstöfun bitnar harðast á trúfélögum utan þjóðkirkjunnar. Ákvörðunin er því í reynd fjandsamleg trúfrelsi í landinu. Hvernig sem á málið er litið, herra forseti, er þetta hneykslanlegt.