Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 19:05:06 (3265)

2001-12-13 19:05:06# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[19:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og hv. þm. Þuríður Backman sýndi mjög vel fram á í ræðu í dag er sú starfsemi sem fer fram á sjúkrahótelunum eins og nú er háttað málum þess eðlis að óviturlegt og óráðlegt er að gera þá breytingu sem hér er lögð til. Fyrir utan þá gjaldtöku sem þarna á að leggja á sjúklinga upp á 10 millj. kr., þá sem dvelja á sjúkrahótelum, og yfirvöld neyddust til að falla frá undir haustið af því að það kom í ljós að um ólögmæta eða a.m.k. mjög hæpna gjaldtöku hafði verið að ræða framan af ári þá er þetta frá skipulagslegum sjónarhóli séð innan heilbrigðisþjónustunnar ósköp einfaldlega ekki breyting sem eru rök til að gera. Í ljósi þess hversu veikt fólk dvelur unnvörpum á þessum sjúkrahótelum og þarf á mikilli þjónustu að halda er miklu nær að líta á þetta sem hluta heilbrigðisþjónustunnar en gististað eða eitthvað sem er óviðkomandi heilbrigðisþjónustunni. Út frá báðum sjónarmiðunum fellur þetta mál, bæði vegna gjaldtökunnar og vegna kerfisbreytingarinnar. Því leggjumst við gegn þessu.