Eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 20:28:42 (3270)

2001-12-13 20:28:42# 127. lþ. 54.9 fundur 146. mál: #A eignarréttur og afnotaréttur fasteigna# (lögheimili) frv. 136/2001, Frsm. JBjart
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[20:28]

Frsm. allshn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. hv. allshn. um 146. mál, frv. til laga um breyting á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966.

Nefndin fékk vegna þessa máls á sinn fund fulltrúa frá dómsmrn. og eins bárust umsagnir frá ýmsum aðilum.

Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að fallið verði frá áskilnaði 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna um að útlendingur þurfi að hafa átt lögheimili hér á landi í fimm ár til að geta eignast fasteign. Dómsmálaráðherra, sem hefur heimild til að veita undanþágu frá þessu skilyrði skv. 2. mgr. 1. gr., hefur aldrei hafnað undanþágu frá þessu skilyrði á undanförnum áratugum en fjölmargar beiðnir um slíkt berast á ári hverju. Er tilgangur frumvarpsins að bæta réttarstöðu þeirra útlendinga sem eiga lögheimili hér á landi og vilja fjárfesta í fasteign.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Að þessu nál. standa eftirtaldir nefndarmenn í allshn.: Sú sem hér stendur framsögumaður, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, formaður, Ásta Möller, Kjartan Ólafsson, Guðjón A. Kristjánsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Katrín Fjeldsted og Lúðvík Bergvinsson ritar undir álitið með fyrirvara.