Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 20:57:41 (3273)

2001-12-13 20:57:41# 127. lþ. 54.11 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv. 154/2001, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[20:57]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hv. framsögumaður hefur farið rækilega yfir nál. sem hér er til umræðu og öll nefndin stendur að. Ég vil geta þess að þetta er mjög þarft mál að mínu mati, að gera hæstv. heilbrrh. betur kleift að marka stefnu um forgangsröðun verkefna í heilbrigðisþjónustu og framfylgja henni. Sömuleiðis mun þetta auðvelda Tryggingastofnun ríkisins að nálgast nauðsynlegar upplýsingar til þess að geta sinnt aðhaldshlutverki sínu og eftirlitshlutverki vegna reikninga og annarra þeirra útgjalda sem stofnun greiðir. Án þess að ég ætli að rekja ítarlega efni þessa frv. þá vil ég einnig geta þess að ég tel það mjög mikilvægt að sömu reglur og sömu útreikningar gildi um útreikninga á RAI-mati --- eða raunverulegum aðbúnaði íbúa eins og RAI hefur verið kallað á íslensku. Kom fram hjá gestum nefndarinnar frá þeim stofnunum sem njóta daggjalda að það er ekki svo í dag að stuðst sé við sömu útreikninga hjá öllum stofnunum. Ég teldi mjög mikilvægt að því yrði komið sem fyrst á og sambærilegar reiknireglur notaðar hjá öllum daggjaldastofnunum.

Herra forseti. Eins og sést á þingskjalinu hef ég skrifað undir þetta þingmál með fyrirvara þó að ég styðji það í einu og öllu og standi sömuleiðis að öllum brtt. nefndarinnar. Ég tel sams konar ástæðu til að geta þess í sambandi við fyrirvara minn að það verður að vera algerlega ljóst að það er ekki verið að heimila neinar frekari gjaldtökur í heilbrigðisþjónustunni með þessu frv. Ég held að það sé skilningur okkar allra. Það er minn skilningur. Sömuleiðis er ekki verið að heimila neina mismunun gagnvart heilbrigðisþjónustunni, þ.e. milli fólks eftir efnahag eða að öðru leyti. Ég vil taka það sérstaklega fram.

Einnig tel ég mjög mikilvægt, sem ég tel reyndar búið að tryggja í brtt. frá nefndinni að lög um réttindi sjúklinga og lög um persónuvernd og önnur lög sem standa vörð um trúnað gagnvart heilsufarsupplýsingum verði haldnar varðandi það sem sem snýr að aðgangi að sjúkraskránum.

Þetta er það helsta sem ég geri athugasemd við og geri hér með grein fyrir þeim fyrirvara mínum við þetta mál.