Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 21:02:03 (3276)

2001-12-13 21:02:03# 127. lþ. 54.11 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv. 154/2001, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[21:02]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Erindi mitt í þessa umræðu núna er einkum að þakka hv. heilbr.- og trn. fyrir þá miklu vinnu sem nefndin hefur lagt í þetta mál og lýsa stuðningi mínum við þær breytingar sem hafa verið gerðar og þann anda sem kemur fram í greinargerðinni sem ég tel að sé frekari árétting á þeim anda sem frv. var samið í.

Nefndin hefur einkum tekið tvö atriði sérstaklega fyrir, þ.e. jafnræði varðandi samninga við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn og stofnanir og síðan persónuverndarákvæði frv.

Ég tel rétt og það er rétt sem kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar, Jónínu Bjartmarz, að það þykir rétt að taka inn í lagatextann sjálfan ákvæði sem undirstrikar anda greinargerðarinnar varðandi samninga við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn og stofnanir um jafnræði. Ég tel nauðsynlegt að kostnaðargreiningar fari fram á stofnunum. Reyndar hefur verið unnið að þeim málum og ég veit að áform eru um að vinna að slíku af fullum krafti en það auðveldar allan slíkan samanburð.

Ég þakka líka fyrir þá miklu vinnu sem hefur verið lögð í að fara yfir persónuverndarákvæði frv. sem eru viðkvæm eins og komið hefur fram í umræðunni. Ég tel að allar þessar breytingar sem hafa verið gerðar á frv. séu til mikilla bóta.

Ég vil taka fram varðandi þá fyrirvara sem hv. 15. þm. Reykv. gerði að lögð hefur verið mikil vinna núna undanfarið í RAI-matið. Það er nauðsynlegt að það sé gott mælitæki og grundvöllur fyrir daggjöldum á öldrunarstofnunum. Þeirri vinnu verður haldið áfram. Af sjálfum lagatextanum leiðir að þetta frv. er ekki frv. um gjaldtökur heldur er þetta frv. um skipulag samninga við heilbrigðisstarfsmenn og á að vera auðveldara að hafa yfirsýn og forgangsraða í heilbrigðisþjónustu þegar þessi löggjöf hefur tekið gildi.

Ég endurtek þakkir mínar til nefndarinnar og vona að þessar breytingar eyði þeirri tortryggni sem hefur vissulega verið uppi varðandi þetta frv. Ég þykist vita að þessar breytingar séu lóð á þá vogarskál og hef nokkra vissu fyrir því að þær öldur hafi nú þegar lægt nokkuð.