Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 21:14:07 (3278)

2001-12-13 21:14:07# 127. lþ. 54.11 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv. 154/2001, KF
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[21:14]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að fylgja úr hlaði þessu nál. hv. heilbr.- og trn., en að frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar hefur í raun verið unnið í nefndinni síðan á haustdögum.

Formaður nefndarinnar, hv. þm. Jónína Bjartmarz, hefur rakið nál. Það er allítarlegt og er á einum sjö síðum, enda þótti nefndinni ástæða til að gera skýra grein fyrir ýmsum eða öllum efnisatriðum þess þar sem gætt hafði, eins og fram kom í máli formanns nefndarinnar, talsverðrar tortryggni um sum efnisatriði og nokkuð margar athugasemdir borist við sumar greinar frv. Það er einkum við 1. gr., 6. gr. og 8. gr., en þær eru tíu alls.

[21:15]

Formaður hv. heilbr.- og trn. kynnti brtt. við 1. gr. frv. og hæstv. ráðherra Jón Kristjánsson tók undir orð hennar og styður þær breytingar.

Ég kem fyrst og fremst hér upp til að taka undir það að breytingar þessar styrkja mjög ákveðinn þátt í frv. en það er sá þáttur sem lýtur að ferliverkum innan og utan stofnana, að kappkostað skuli eða tryggt sé, svo rétt sé orðað, að tekið sé tillit til alls þess kostnaðar sem til fellur við slík verk.

Eins og margir vita eru ferliverk unnin á höfuðborgarsvæðinu, fyrst og fremst í Reykjavík en einnig á Akureyri og sjálfstætt starfandi sérfræðingar eru fyrst og fremst hér í borginni. Læknasamtökin höfðu sett sig mjög eindregið upp á móti frv. eins og það kom fram og tortryggðu ýmis atriði þess. Ég tel í fyrsta lagi að með þessu nál. og í öðru lagi þeirri brtt. sem formaður nefndarinnar kynnti og hæstv. ráðherra tók undir, sé ekki ástæða til nokkurrar tortryggni lengur þannig að ég geng út frá því að læknasamtökin muni styðja þetta mál þegar það er orðið að lögum.

Mér finnst það skipta mjög miklu máli vegna þess að frv. snýst að miklu leyti um starfsemi lækna og það vildi svo til að þegar læknasamtökin tjáðu sig eða gáfu umsögn sína um frv. þá gerðu þau það sameiginlega sem mátti nokkrum tíðindum sæta vegna þess að það hefur verið þekkt í læknahópnum að menn væru ekki alveg á einu máli, sérfræðingar og heimilislæknar t.d., spítalalæknar og læknar utan spítala sem dæmi. En öll þau samtök lækna, regnhlífarsamtök lækna, helstu samtök þeirra skiluðu saman áliti til nefndarinnar og hún tók athugasemdir til gaumgæfilegrar skoðunar og ég tel, eins og ég sagði áðan, að síðustu tortryggninni sé eytt með þeirri brtt. sem hér hefur verið kynnt og ég styð heils hugar.

Frv. er auðvitað nokkuð efnismikið. Kannski gæti maður sagt að tímabært væri að endurskoða lögin um heilbrigðisþjónustu frá grunni vegna þess að talsvert hefur verið gert af breytingum gegnum árin. Það sama má segja um lögin um almannatryggingar en það verður oft frekar flókið að lesa sig í gegnum lög um heilbrigðisþjónustu vegna þess að breytingar hafa komið inn flest árin.

Hér hafa verið raktar þær breytingar sem helstar verða á lögunum samkvæmt frv. Það er rakið í nál. og var mælt fyrir því áðan en eitt meginmarkmið frv. er þó að færa á eina hendi samningsumboð ríkisins gagnvart sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum um greiðsluþátttöku almannatrygginga vegna heilbrigðisþjónustu og við fyrirtæki og stofnanir vegna sambærilegrar þjónustu sem þar er veitt.

Það hlýtur að vera yfirvalda að ákveða hvernig þau koma samningamálum sínum fyrir alveg eins og viðsemjendur stjórna því hvernig þeir setja upp samninganefndir sínar. Ég neita því ekki að ég hefði kannski enn þá frekar viljað sjá að hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins hefði eflst en ég get vel sætt mig við þetta fyrirkomulag.

Þá var heilmikil umræða um það í heilbr.- og trn. hvernig heimila ætti aðkomu Tryggingastofnunar ríkisins að upplýsingum úr sjúkraskrám og hefur það verið rakið hér og niðurstaðan farsæl fundin í samræmi við öll lög og það tryggt að einungis læknar Tryggingastofnunar eða tannlæknar stofnunarinnar munu eiga aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrám og þeir einir eftir atvikum hafa heimild til að skoða sjúkraskrár sem reikningsgerð á hendur Tryggingastofnun ríkisins er byggð á.

Herra forseti. Að jafnaði og yfirleitt ríkir fullur trúnaður og traust milli lækna og heilbrigðisyfirvalda, þar með talið Tryggingastofnunar ríkisins og reikningsgerð á hendur stofnuninni, reikningsgerð í sameiginlega sjóði landsmanna er átölulaus og yfirleitt án hnökra. Það heyrir því til undantekninga þegar vandamál koma upp sem hér voru nefnd áðan, þ.e. rökstuddur grunur um að ekki sé allt með felldu með reikningsgerð. Það er til allrar hamingju ekki algengt fyrirbæri.

Ég tel, herra forseti, og vil gera það að lokaorðum mínum að með frv. sé jafnræðis gætt, að ekki sé mismunað milli sjúklinga, ekki sé mismunað milli rekstrarforma og það sé tryggt að vel sé staðið að heilbrigðisþjónustunni út frá þeim sjónarhóli og ekki síst tel ég að tortryggni lækna í garð þessa frv. hafi verið eytt. Ég fagna því eindregið og tel að það sé mjög mikilvægt og sé fram á það að samstarf lækna við heilbrrh. og heilbrrn. muni fá enn betri byr en fyrir hefur verið.