Húsnæðismál

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 21:27:38 (3281)

2001-12-13 21:27:38# 127. lþ. 54.13 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[21:27]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér er frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál. Eins og hv. þm. Magnús Stefánsson hefur mælt hér fyrir lætur þessi breyting ekki svo mikið yfir sér en hún verður þó samt að teljast viss tímamótabreyting því að samkvæmt lögum um Íbúðalánasjóð hefur honum ekki verið heimilt að afskrifa eða færa niður lán. Þess vegna hefur í þeirri umræðu sem við höfum nú verið í, t.d. um stöðu félagslega íbúðakerfisins, einmitt strandað á því að því er talið hefur verið, að færa niður skuldir t.d. sveitarfélaganna vegna félagslega íbúðakerfisins vegna þess að til þess væri ekki lagaheimild. Þess vegna höfum við verið að fara alls konar leiðir til að jafna það út.

Við þekkjum öll rækilega málefnin á Vestfjörðum þar sem mörg sveitarfélög þar voru komin í mikinn vanda vegna skulda við félagslega íbúðakerfið. Félagslega íbúðakerfið var á sínum tíma liður í opinberri húsnæðisstefnu. Þetta var húsnæðisstefna sem var samþykkt að vilja aðila vinnumarkaðarins, bæði atvinnurekenda og launþega. Lífeyrissjóðirnir komu að þessari húsnæðisstefnu og það var Alþingi sem síðan setti lögin og með lögunum var ákveðið að bakábyrgðin vegna þessa húsnæðiskerfis skyldi leggjast á sveitarfélögin og einmitt vegna félagslega eignaríbúðakerfisins hvíldi á þeim innlausnarskylda.

[21:30]

Húsnæðiskerfið var sett í gang á sínum tíma af mikilli bjartsýni. Þá var gert ráð fyrir því að byggðastefnan mundi ná fram að ganga, að byggð vítt og breitt um land mundi blómgast. Svo var og um tíma þannig að það var mikill hugur í mönnum víða um land og íbúðir byggðar, enda er sveitarfélögum skylt samkvæmt lögum að sjá til þess að til séu nægar íbúðir fyrir íbúana. Þeim er gert að gera reglulegar húsnæðiskannanir og sjá til þess að nóg framboð sé á íbúðum.

Eins og við þekkjum hafa sveitarfélögin hvert af öðru lent í miklum greiðsluvandræðum og erfiðleikum með að standa undir þessum skuldbindingum sínum. Þau hafa orðið að standa við sitt og neyðst til þess meðan lögin kváðu svo á um. Það hefur víða sett fjárhag þeirra í afar erfiða stöðu. Sum hafa meira að segja lent í því sem nánast mætti kalla fjárhagslegt greiðsluþrot.

Ég vil aðeins, herra forseti, vitna til erindis sem Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði flutti á fundi í haust um félagslega íbúðakerfið. Halldór Halldórsson bæjarstjóri hefur einmitt verið annar fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga í nefnd sem félmrh. skipaði um lausnir í félagslega húsnæðiskerfinu. Hann rekur þar bæði sögu húsnæðis og húsnæðiskerfis og það hvernig fór með varasjóðinn, varasjóð sem ákveðið fjármagn átti að renna í, varasjóð húsnæðislána sem átti að fjármagna mismuninn í húsnæðiskerfinu vegna munar á kostnaðarverði og innlausnarverði íbúða, þ.e. seldist íbúð á hærra verði en því sem talist gat kostnaðarverð þá átti söluhagnaðurinn að renna inn í sjóðinn svo hægt væri að grípa til hans í þeim tilvikum er ekki var hægt að selja íbúðirnar aftur á sama verði og þær voru leystar inn á.

Hann rekur hvernig varasjóðurinn, bæði á þessu og síðasta ári virkaði ekki hvað þetta varðar vegna þess að sveitarfélögin réðu einfaldlega ekki við að leysa inn íbúðirnar og gátu þess vegna ekki nýtt sér þau framlög sem í sjóðnum voru. Þessi litli varnagli sem þó hafði verið settur í kerfið varðandi félagslegu eignaríbúðirnar var þannig í raun orðinn óvirkur því að málið var orðið miklu stærra en svo að það gæti leyst af sjálfu sér.

Í þessu ágæta erindi rekur hann stöðu þessara mála. Hann nefnir stöðuna í byrjun ársins 2001. Hann hefur á fyrirvara um nákvæmnina en þar segir hann að á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum eru 1.198 íbúðir og reiknað innlausnarverð þeirra er 8,5 milljarðar kr. og eignarhluti sveitarfélaganna þar 1,9 milljarðar. En í öðrum landshlutum, utan höfuðborgarsvæðisins, er fjöldi íbúða 1.490, innlausnarverð um 10,9 milljarðar kr. og eignarhluti sveitarfélaganna 2,9 milljarðar.

Í þeim tillögum sem þarna eru reifaðar er talið að til að þau sveitarfélög sem þarna er um að ræða ráði við skuldbindingar sínar og komi hugsanlega íbúðunum aftur í umferð, ef svo má segja, þurfi að lækka þessi lán um 2,8 milljarða kr. Þetta eru þær upphæðir sem þarna er um að ræða og er talið, í þessum drögum, nauðsynlegt að afskrifa þessar upphæðir til þess að þær komist í rekstrarhæft ástand.

Það er líka vert að gera sér grein fyrir því að einmitt þessir 2,8 milljarðar kr. skiptast ekki jafnt á sveitarfélögin heldur eru ákveðin sveitarfélög þarna í miklu meiri vandræðum en önnur og hafa lent í alvarlegum greiðsluerfiðleikum. Þess vegna hefðu menn farið að eins og á Vestfjörðum, að létta á skuldum m.a. vegna félagslega íbúðakerfisins með því að taka af Vestfirðingum Orkubúið. Sumir segja það hafa verið keypt á yfirverði en aðrir segja svo ekki vera. En það var ætlað til að jafna út þessar skuldir sem eru að sliga sveitarfélagið. Aðrar aðferðir eru síðan notaðar annars staðar á landinu.

Unnið hefur verið að lausn á vandamálum eins og eins sveitarfélags en engin heildarlausn verið í gangi. Þess vegna er það einmitt fagnaðarefni, herra forseti, að hér skuli þó koma fram frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál þar sem Íbúðalánasjóði verði heimilt að semja við sveitarfélögin um afskrift á hluta skulda þeirra við sjóðinn gegn greiðslu á eftirstöðvum vanskila og hluta skulda. Alla vega er þar komin lagaheimild til að semja um framhald þessara mála og heimild til að afskrifa. Það er lofsvert að gefinn skuli kostur á slíku og óskandi að þetta skref sé til góðs og unnið verði að þessum málum varðandi félagslega íbúðakerfið um land allt og fjárhagsvanda í beinu framhaldi, þ.e. leysa hann með þeim hætti að sveitarfélögin standi jafnburðug eftir og helst betur með íbúðir sínar þannig að íbúðareign þeirra verði frekar styrkur fyrir þau í framtíðinni og til að styrkja búsetu á þessum svæðum, í stað þess að vera þeim sá klafi sem hún hefur verið á seinni árum. Hún er alveg ótæk sú stefna sem hefur verið keyrð, að leysa skuldavanda sveitarfélaganna með því að ná af þeim mikilsverðum þjónustueignum upp í þessar opinberu skuldir, skuldir sem m.a. eru tilkomnar vegna lagasetningar frá Alþingi sem ákvað einhliða hvar ábyrgðin á þessum skuldum skyldi liggja og taldi sig síðan meira eða minna geta verið stikkfrítt með þeirri niðurstöðu.

Herra forseti. Ég vildi láta koma fram að ég tel þetta vera jákvætt skref. En vitanlega veldur hver á heldur í framhaldinu og það er afar brýnt að þessi mál fái bæði skjóta, ákveðna afgreiðslu og farsælan endi.