Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 21:55:20 (3285)

2001-12-13 21:55:20# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[21:55]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson spyr tveggja spurninga. Í fyrsta lagi: Hvað misfórst hjá Svíum? Það vill svo til að ég reyndi þetta sjálfur og það var tvennt sem vakti athygli mína. Ég upplifði í fyrsta lagi að koma með ferju frá Finnlandi til Stokkhólms og ætlaði þar í næsta leigubíl. Svíar kölluðu á mig og vöruðu mig við að fara í þennan bíl því hann væri ekki merktur leigubílastöð. Ég var búinn að spyrja um verðið, hvað mundi kosta að keyra mig upp á hótelið. Það var sagt 300 kr. sænskar. En þegar við fórum að þeim bíl sem var merktur leigubílastöð og var undir eftirliti aðila, þá kostaði bíllinn ekki nema 80 kr. Fólk hafði lent í mjög mörgum misindismönnum sem voru að keyra leigubíla, og umræðan var því þessi.

Í annan stað var fólk hætt að þora að senda barnapíurnar sínar heim að nóttu til með slíkum leigubílum. Það voru mörg dæmi um að ofbeldisverk hefðu komið upp gagnvart því fólki. Og í umræðunni vöruðu þeir við þessu og sögðu: Við tókum líklega víxlspor með því að gefa frjálsræðið svona mikið.

Í annan stað hvað áhrærir kostnað vegna þessa máls, þá höfum við farið í gegnum það í nefndinni. Við vitum að það kostar að koma upp þessu ákveðna kerfi sem ég tel að sé mjög gott. Að halda utan um alla leigubíla á Íslandi innan þessa kerfis er mjög jákvætt. Það er líka mjög jákvætt sem hér hefur gerst í gegnum árin að nýir aðilar, sem koma að leigubílunum í afleysingum í einhvern ákveðinn tíma, öðlast þekkingu og reynslu og koma kannski um leið fram með trúverðugheit sín gagnvart þessu máli þannig að hvað svo sem snýr að ráðuneytinu þó ekki sjáist merki á að breytingar verði þar, þá sé ég þó fram á að innan tveggja, þriggja ára muni þetta tölvukerfi vera búið að borga sig upp og væntanlega mun þetta gjald sem við erum að tala um lækka.