Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 22:30:03 (3293)

2001-12-13 22:30:03# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[22:30]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sannfærður um það og ég veit að engin önnur starfsstétt á Íslandi þarf að vera í beinu sambandi, nánast dags daglega, við ráðuneyti vegna starfa sinna. Ég þykist vita að við báðir, ég og hv. þm. Jón Bjarnason, þegar við sóttum atvinnuskírteini okkar sem slíkir, þá gerðum við það til lögreglustjóra. Við fórum ekki niður í eitthvert ákveðið tiltekið ráðuneyti til þess. Þetta þekkist ekki. Þetta er bara barn síns tíma og eðlilegt að þetta fari í Vegagerðina.

Í annan stað vildi ég vitna beint til nál. hv. þm. Jóns Bjarnasonar, þ.e. 1. minni hluta samgn., þar sem hann segir orðrétt:

,,Þá gerir 1. minni hluti athugasemd við síðari málslið 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að Vegagerðin geti heimilað sérstakar útstöðvar frá gagnagrunninum á bifreiðastöðvum eða hjá bifreiðastjórafélögum til þess að afgreiða undanþágur ...``

Undanþágurnar eru oft 200--300 um helgar og það eru afleysingamenn sem koma þarna inn. Það er eðlilegt að haldið sé utan um þetta og haft kerfi í því máli. Ef það á ekki að vera, ef ekki á að vera neitt kerfi í þessu, þá missum við málið úr höndunum á okkur og það viljum við ekki. Við viljum ekki að bílstjórarnir, sem sjálfir eru bestir og félögin til þess að halda utan um málið, missi tök á þessu mikla ábyrgðarhlutverki sem þeir gegna í þjóðfélaginu, eins og hv. þm. kom inn á, í þessu mikla samgönguneti og kerfi sem þeir bjóða borgurum eða landsmönnum. Það þarf að vera tryggt og öruggt að þú sért að ferðast með manni sem hafi tilskilin réttindi og sé ekki einhver sem setji allt aðra taxta og láti menn borga miklu meira en þeir eiga að gera. Þess vegna er eftirlitsins vegna eðlilegt að þetta fari úr ráðuneytinu yfir til Vegagerðarinnar.