Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 22:34:29 (3295)

2001-12-13 22:34:29# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. 2. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[22:34]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. síðasta ræðumanni að leigubílstjórar og leigubifreiðar eru mikilvægur hlekkur í almenningssamgöngukerfi landsins og því mjög mikilvægt að þessum hlutum sé vel fyrir komið. Vegna umræðna sem hér fóru fram áðan í andsvörum t.d. þá held ég hins vegar að nauðsynlegt sé að taka það fram strax í upphafi að ekkert í þessu frv. sem slíku fjallar um öryggi leigubifreiðarstjóra eða öryggi farþega eða neitt sem lýtur að því þannig að þetta frv. hefur í sjálfu sér ekkert með þann þátt málsins að gera.

Virðulegi forseti. Um leið og við viðurkennum að leigubílstjórar eru mikilvægur hlekkur í almenningssamgöngukerfi landsmanna verðum við líka að velta því fyrir okkur hvernig við viljum skipuleggja þessa hluti, hvernig þessum hlutum verður best fyrir komið, hvað sé best fyrir leigubifreiðastjórana, hvað best fyrir fólkið í landinu hvað best fyrir neytendur o.s.frv. Það er einmitt hlutverk okkar sem hér erum að fjalla um þessa hluti, takast á um þá, setja fram sjónarmið og reyna að komast að einhverri niðurstöðu sem hentar öllum í þessum efnum. Ég mun nú greina frá niðurstöðu 2. minni hluta samgn. um frv. um leigubifreiðar og mun gera grein fyrir því. Síðan mun ég kannski aðeins fjalla um sögu þess kerfis sem við búum við og ýmis álit sem voru send nefndinni við meðferð málsins.

Virðulegi forseti. Þar sem við hæstv. samgrh. erum ekki alveg samstiga í þessu máli þá hefði ég viljað að hæstv. ráðherra væri í salnum á meðan ég flyt mál mitt. (Gripið fram í.) (Samgrh.: Ég þekki skoðanir þingmannsins allt of vel ...) Ég fagna því að hæstv. ráðherra vil hlýða á mál mitt og hefur af því sérstaka ánægju eins og hann segir sjálfur.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar er lagt til að stjórnsýsla vegna málefna leigubifreiða færist frá samgönguráðuneytinu, umsjónarnefndum og bifreiðastjórafélögunum yfir til Vegagerðarinnar.

Með frumvarpinu er gerð tillaga um ný heildarlög um leigubifreiðar til fólksflutninga hér á landi og eiga þau að leysa af hólmi lög nr. 61/1995, með síðari breytingum. Ekki er gert ráð fyrir neinum gjaldtökum í núgildandi lögum nema hvað ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð gjaldtöku fyrir veittar undanþágur. Í þessu frumvarpi er lagt til að innheimtar verði u.þ.b. 10 millj. kr. í gjaldtöku af leigubifreiðastjórum vegna atvinnuleyfisins á ári, 100 millj. kr. á tíu árum miðað við óbreytta gjaldtöku, sem rökstutt hefur verið á þann hátt að um sé að ræða kostnað sem hlýst af stjórnsýslu Vegagerðarinnar vegna málaflokksins. En í athugasemdum frumvarpsins segir m.a. að tilgangur þess sé að færa lög um leigubifreiðar að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Ekki er vikið nánar að því í hverju þessar breyttu aðstæður felast.

Um þetta segir m.a. í áliti Samkeppnisstofnunar: ,,Hluti af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu er aukin áhersla, m.a. Alþingis, á gildi virkrar samkeppni í viðskiptum. Þetta kristallast í 1. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, með síðari breytingum, þar sem segir að markmið þeirra sé að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Í sömu lagagrein segir einnig að þessu markmiði skuli ná með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri. Enn fremur segir að markmiði laganna skuli ná með því að auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum. Í frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar er gengið þvert gegn markmiði samkeppnislaga. Aðgangur að markaðnum fyrir leigubifreiðarekstur verður jafntakmarkaður samkvæmt frumvarpinu og verið hefur í gildandi lögum.``

Af þessari umsögn er m.a. ljóst að frumvarpið fer þvert gegn markmiðum samkeppnislaga. Þetta er reynt að réttlæta með því að um sé að ræða skiptingu takmarkaðra gæða. Af þessum orðum mætti ráða að náttúrlegar takmarkanir, eða aðrar óviðráðanlegar orsakir, leiði til þessarar niðurstöðu. Svo er þó ekki. Í dag eru u.þ.b. 700 atvinnuleyfi gild í landinu vegna leigubifreiðaaksturs, þar af 570 á höfuðborgarsvæðinu. Eins og fyrirkomulagið er nú, en ekki er ætlunin að breyta því, er ráðherra heimilt að takmarka fjölda leigubifreiða á tilteknum svæðum. Þetta hefur verið gert á fjórum stöðum, höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, í Árnessýslu og á Suðurnesjum. Öðrum en þeim sem hafa atvinnuleyfi á þessum svæðum er því óheimilt að aka fólki gegn gjaldi. Hin takmörkuðu gæði eru því fjöldi útgefinna leyfa sem stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að veita en ekki neinar náttúrlegar aðstæður. Auk ákvarðana um fjölda atvinnuleyfa er stjórnsýslunni ætlað að hafa afskipti af nýtingu atvinnuleyfisins --- en leigubifreiðastjóra er ætlað að hafa starfið að aðalatvinnu --- heimiluðu og teknu orlofi, útgerð bílsins vegna veikinda o.s.frv. Með öðrum orðum mun kostnaður við þetta útgerðarkerfi leigubifreiðastjóra því hlaupa á tugum milljóna kr. næstu árin. Hér er því verið að byggja upp enn eitt báknið í ríkiskerfinu, sem án efa á eftir að vinda frekar upp á sig. Sem dæmi um þessa stjórnsýslu má nefna að til þess að fá atvinnuleyfi þurfa leigubifreiðastjórar fyrst að ganga í gegnum meirapróf vegna leigubifreiðaaksturs hjá Umferðarráði sem kostar u.þ.b. 100 þús. kr. Auk þess þurfa þeir sem leysa af atvinnuleyfishafana, þeir sem eru að vinna sér inn tíma, að fara á afleysinganámskeið hjá bifreiðastjórafélögunum sem kostar 5.000 kr. og að lokum þurfa þeir að fara á leyfishafanámskeið, áður en atvinnuleyfi er útgefið hjá ökuskóla, sem kostar u.þ.b. 40 þús. kr.

Aðeins námskeiðahaldið eitt í undirbúningi þess að fá atvinnuleyfi kostar rétt tæplega 150 þús. kr.

Það er því mat 2. minni hluta að hugmyndafræðin að baki frumvarpinu sé í andstöðu við þá þjóðfélagsþróun sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Hér er verið að búa til dýra stjórnsýslu utan um atvinnustarfsemi leigubifreiðastjóra. Annar minni hluti leggur þó ríka áherslu á að leigubílar og leigubílaakstur séu mikilvægur þáttur í almannasamgöngum. Tryggja þarf góða og örugga þjónustu og um leið eðlileg starfskjör leigubifreiðastjóra. Mikilvægt er að bæði lögin og framkvæmd þeirra taki mið af því. Um leið þarf einnig að tryggja hag neytenda en hagsmunum þeirra er ekki mikill gaumur gefinn í frumvarpinu. Það hefur komið fram að þessi aukna gjaldtaka og viðamikla stjórnsýsla mun leiða af sér a.m.k., samkvæmt fullyrðingum þeirra sem komið hafa fyrir samgn., 3% hækkun á taxta leigubifreiðastjóra, eins og fram kom á fundum samgöngunefndar.

Enn fremur er það tekið fram í frumvarpinu að bifreiðastöðvar skuli í samráði við félög leigubifreiðastjóra skipuleggja starfsemina. Við ríkjandi aðstæður og opinberar takmarkanir er svo komið að fákeppni ríkir í rekstri bifreiðastöðva. T.d. eru tvær stöðvar ráðandi á höfuðborgarsvæðinu. Í frumvarpinu er lagt til að allar leigubifreiðar skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð. Þessi skipan mála býður heim hættu á verðsamráði og markaðsskiptingu og öðrum alvarlegum samkeppnishindrunum, þar sem hættan er sú að hagsmunir neytenda yrðu fyrir borð bornir. Til þess að geirnegla þessa hluti er svo lagt til engum skuli veitt fleiri en eitt leyfi svo ljóst má vera að fleiri bifreiðastöðvar munu vart líta dagsins ljós, verði frumvarpið að lögum.

Félag ökukennara vekur athygli á því að frumvarp þetta virðist ganga þvert á þá stefnu stjórnvalda að einkavæða starfsemi frekar en að færa hana í ríkari mæli undir opinbera stjórnsýslu.

Þá vöktu leigubifreiðastjórar athygli á því að þeir þyrftu að greiða gjald af atvinnuleyfinu á hverju ári og höfðu uppi efasemdir um að aðrar stéttir þyrftu að gera það sama. Þessum gjöldum er m.a. ætlað að fjármagna gagnagrunn um leyfishafa sem koma á upp hjá Vegagerðinni. Það hefur reyndar komið fram að kostnaður við uppsetningu gagnagrunnsins, sem m.a. er ætlað að geyma upplýsingar um leyfishafa og afleysingabílstjóra, mun hlaupa á nokkrum milljónum kr. Það er því ljóst að kostnaður leyfishafa er margfaldur miðað við kostnaðinn af hinni opinberu stjórnsýslu. Þessu má m.a. finna stoð í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 en þar kemur fram að aðalskrifstofa samgönguráðuneytisins gerir ekki ráð fyrir neinum sparnaði við flutning málaflokksins yfir til Vegagerðarinnar.

[22:45]

Annar minni hluti dregur í efa nauðsyn þess að starfræktur verði gagnagrunnur með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Sérstaklega er gerð athugasemd við síðari málslið 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að Vegagerðin geti heimilað sérstakar útstöðvar frá gagnagrunninum á bifreiðastöðvum eða hjá bifreiðastjórafélögum til þess að afgreiða undanþágur skv. 9. gr. frumvarpsins. Í umsögn Persónuverndar sem verður vikið betur að síðar í þessari ræðu er vakin sérstök eftirtekt á þessu.

Í samgöngunefnd var lítið sem ekkert fjallað um þá gagnrýni sem sett var fram árið 1953 þegar núverandi fyrirkomulagi í leigubifreiðaakstri var fyrst komið á með samþykkt Alþingis á lögum um leigubifreiðar í kaupstöðum. Í umræðu um þau lög var því haldið fram að það að heimila stjórnvöldum að takmarka fjölda leigubifeiða með stjórnvaldsákvörðunum væri aðför að persónu- og atvinnufrelsi manna. Á þetta hefur ekki reynt fyrir dómstólum og því má draga þá ályktun að enginn hafi haft eða viljað láta reyna á þann leynda draum sinn að verða leigubifreiðastjóri. Það breytir ekki hinu að þessi skerðing á atvinnufrelsi er ekki rökstudd á annan hátt en þann að tiltekin tilraun í frelsisátt hafi ekki gefist vel í Svíþjóð. Að auki liggur sú röksemd í loftinu að öryggi farþega í fólksbifreiðum sem notaðar eru til leigubifreiðaaksturs og taka átta farþega eða færri sé betur borgið innan þessa kerfis en ella. Hér skal ekkert um þessar röksemdir fullyrt en vert er að minna á að í 75. gr. stjórnarskrárinnar segir að ekki megi leggja bönd á atvinnufrelsi manna nema almannahagsmunir krefjist.

Þrátt fyrir að breytingartillögur meiri hlutans séu að mestu leyti til bóta treystir 2. minni hluti sér ekki til að styðja frumvarpið, enda felur það í sér mikla opinbera umsýslu auk þess sem það fer algerlega gegn ákvæðum og markmiðum samkeppnislaga.

Undir þetta álit skrifar ásamt mér Kristján L. Möller.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir það almenna álit sem við viljum setja frá okkur vegna þessa frv. en ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að fara, eins og hægt er í ræðu, yfir einstakar greinar frv. eftir því sem ástæða þykir til.

Í fyrsta lagi er hér ekki á ferðinni nein veigamikil breyting á þeirri skipan mála sem verið hefur. Eina veigamikla breytingin sem um er að ræða kemur fram í 2. gr. frv., þ.e. stjórnsýslan er flutt frá ráðuneytinu yfir til Vegagerðarinnar. Það er í raun og veru eina verulega breytingin sem finna má í þessu frá núverandi fyrirkomulagi.

Enn fremur kemur fram í 2. gr. að Vegagerðin skuli sjá um starfrækslu sérstaks gagnagrunns sem m.a. geymir upplýsingar um atvinnuleyfi, heimildir til undanþágu o.s.frv. frá akstri eigin bifreiðar. Það hlýtur að vera verðugt umhugsunarefni, virðulegi forseti, að setja þurfi upp sérstakan gagnagrunn um þennan hóp manna, 700 manns, að nauðsynlegt skuli vera að setja um hann sérstakan gagnagrunn. Ekki er tæmandi talning á því hvað skuli vera í þeim gagnagrunni og þess vegna getur vel verið að menn geti sett í hann hvað sem er, enda hefur Persónuvernd gert verulegar athugasemdir við þær hugmyndir sem hér koma fram og hefur gert kröfu til þess að slíkur gagnagrunnur verði skýrður miklum mun betur. Í frv. er ekki gerð önnur tilraun til að upplýsa það en að það séu ,,upplýsingar sem liggja verða til grundvallar útgáfu atvinnu- og/eða starfsleyfis.`` Hins vegar kemur fram í greinargerð að þar skuli vera upplýsingar um forfallabílstjórann sem hugsanlega leysir atvinnuleyfishafann af. Þar skuli vera upplýsingar um læknisvottorð, heilsufar og sitt lítið af hverju og ég held, virðulegi forseti, að slíkur grunnur sé ekki til um nokkra einustu aðra atvinnustétt sem til er.

Ég held að vert sé, virðulegi forseti, einmitt í þessu að velta því upp hvers konar kerfi er í raun og veru hér á ferðinni. Gefin eru út 700 atvinnuleyfi eins og nú er, þar af 570 á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er ætlunin að gefa út fleiri atvinnuleyfi. Til að komast inn í þessa stétt þurfa menn fyrst að komast í það að fá að keyra hjá einhverjum sem hefur atvinnuleyfi og vinna sér þannig inn tíma sem einhvers konar forfallabílstjóri. En til þess að geta orðið forfallabílstjóri þarf að taka meirapróf, sem er í sjálfu sér eðlilegt, en síðan þarf að taka sérstök forfallabílanámskeið hjá bifreiðastjórafélögunum sem eru reyndar nokkur og hafa séð um þessi mál hingað til sjálf en nú er ætlunin að færa það fyrirkomulag yfir til Vegagerðarinnar. Til þess að geta orðið forfallabílstjóri þarf að fara á námskeið sem kostar 5 þús. kr. Síðan þurfa menn að vinna sér inn tíma og koma sér framar í röðinni og bíða eftir því að einhver missi atvinnuleyfið til þess að geta komist inn í röðina. Og það var dálítið sérstakt þegar við ræddum þetta í samgn. að þar kom fram gagnrýni hjá fulltrúum samgrn. að eitt það veigamesta og erfiðasta í þessu kerfi er að bifreiðastjórafélögin, sem er sjálfum ætlað að halda utan um þessa forfallatíma og það hvernig menn færast framar í röðinni til að eiga hugsanlega möguleika á því að komast að og fá atvinnuleyfi, væru misgóð í að halda utan um þetta kerfi. Og eins og það var orðað, að sum félögin væru jafnvel bara með rassvasabókhald. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að þegar fyrirkomulagið er slíkt kemur manni náttúrlega ekkert á óvart í þeim efnum. En hér er ætlunin að færa slíkt bókhald í þennan gagnagrunn þar sem ekki liggur fyrir hvað verður nákvæmlega fært inn, og það kæmi svo sem ekkert á óvart þó að göngulag yrði sett þarna inn. Svo er hægt að skrá það hvort menn séu ekki örugglega þrifalegir, hvernig þeir klæðast, hvort þeir séu kurteisir við farþegana o.s.frv. En reyndar kom fram í umræðunni í samgn. að slíkir gagnagrunnar væru til hjá stærsta bifreiðastjórafélaginu, Bifreiðastjórafélaginu Frama, og hefði jafnvel verið opnað á það að sá gagnagrunnur yrði seldur beint inn í stjórnsýsluna. Reyndar var fullyrt í samgn. að sá gagnagrunnur yrði ekki keyptur þannig að ástæðulaust er að halda þeirri umræðu eitthvað sérstaklega til haga því að fulltrúar ráðuneytisins gerðu skýra grein fyrir því á fundum nefndarinnar. Það liggur hins vegar fyrir að eina leiðin til þess að halda utan um þetta flókna kerfi virðist vera sú að koma upp sérstökum eftirlitsgagnagrunni utan um 700 manna stétt atvinnubílstjóra.

Hins vegar liggur ekkert fyrir um það af neinni nákvæmni hvað það er sem á að fara inn í þann gagnagrunn, enda kemur það fram í áliti Persónuverndar sem ég hef fyrir framan mig að þeir gera verulegar athugasemdir við þetta og segja m.a., með leyfi forseta:

,,Því leyfir Persónuvernd sér að ítreka að ekki verður séð að þörf sé á setningu sérstaks lagaákvæðis fyrir starfrækslu gagnagrunns með persónuupplýsingum um leigubílstjóra, ef tilgangurinn með slíkri vinnslu upplýsinganna er eingöngu að undirbúa ,,útgáfu atvinnu- og/eða starfsleyfis`` eins og segir í frumvarpinu. Sérstakt ákvæði um gagnagrunn af þessu tagi, sem inniheldur ýmiss konar persónuupplýsingar um leigubifreiðastjóra, getur að ósekju gefið tilefni til að ætla að notkun upplýsinganna sé ekki bundin við undirbúning á útgáfu leyfa til bifreiðastjóra.``

Það sem hér er verið að segja er að svo virðist mega ráða af þessu að það sé svo mikið af persónuupplýsingum sem þarna fara inn að það hafi ekkert með útgáfu atvinnu- eða starfsleyfis að gera. Persónuvernd gerði verulegar athugasemdir við þetta en ekki er tekið tillit til þessa í frv.

Í öðru lagi gerði Persónuvernd athugasemdir við það að heimila sérstakar útstöðvar frá gagnagrunninum á bifreiðastöðvum eða hjá bifreiðastjórafélögum til þess að afgreiða undanþágur samkvæmt 9. gr. frv. Með leyfi forseta, segir:

,,Bent var á að með ákvæðinu gæti Vegagerðin því veitt einstökum bifreiðastöðvum og bifreiðastjórafélögum tengingu við umrædda málaskrá sína um tölvunet. Umræddu ákvæði hefur í engu verið breytt í hinu nýja frumvarpi.`` --- Þetta frv. var lagt fram í fyrra og er því lagt fram á nýjan leik nú og þær athugasemdir sem gerðar voru í fyrra eiga því enn við. Persónuvernd segir, með leyfi forseta: --- ,,Því verður að ítreka þá afstöðu Persónuverndar að rök skorti fyrir slíkri samtengingu og er þeirri spurningu enn ósvarað hvers vegna ekki sé hægt að veita viðkomandi bifreiðastöðvum upplýsingar um atvinnuleyfishafa á viðkomandi stöð með einfaldari og viðurhlutaminni hætti. Enn fremur er óljóst hvers vegna gert er ráð fyrir heimild til að tengja bifreiðastjórafélög við umrædda málaskrá, enda útgáfa leyfa samkvæmt lögunum eingöngu í höndum Vegagerðarinnar og einstakra bifreiðastöðva, auk þeirra sveitarstjórna sem samgönguráðherra felur framkvæmd mála ...`` --- Það ákvæði hefur reyndar aðeins breyst í meðförum samgn.

,,Í þriðja lagi var í umsögn Persónuverndar fjallað um skyldu atvinnuleyfishafa skv. 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins til að veita Vegagerðinni upplýsingar sem varðar atvinnuleyfi þeirra og nýtingu þess. Gerði Persónuvernd athugasemd við að í frumvarpinu var hvergi að finna tæmandi talningu á því hvaða upplýsingar verði skráðar í umræddan gagnagrunn.`` --- Eins og ég kom að áðan. --- ,,Þess í stað var að finna samsvarandi upptalningu bæði í almennum athugasemdum með frumvarpinu og í athugasemdum með 2. gr. þess, þar sem segir að skráðar verði upplýsingar um nafn bifreiðastjóra, kennitölur þeirra, heimilisföng, bifreiðastöð, kallnúmer, ,,nýtingu atvinnuleyfis, heimilað og tekið orlof, útgerðarheimildir vegna veikinda o.fl.`` Í hinu nýja frumvarpi hefur orðalagið ,,o.fl.`` verið fellt úr ... Verður því að ítreka þá athugasemd Persónuverndar að þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir heimild til víðtækra tenginga við gagnagrunninn ... væri æskilegt að kveðið væri skýrt á um hversu víðtæk vinnsla persónuupplýsinga væri heimiluð á þessu sviði.``

Í fjórða lagi gerir Persónuvernd athugasemd við það að ekki skuli kveðið skýrt á um hverjum skuli heimill aðgangur að umræddum gagnagrunni. Þá gerir Persónuvernd athugasemdir við það að hvorki skuli færð rök fyrir því í frv. né athugasemdum hvaða þörf er á að lögregla hafi aðgang að öllum þeim upplýsingum sem gert er ráð fyrir að verði skráðar í umræddan gagnagrunn í stað þess að hafa einungis aðgang að lista yfir atvinnuleyfishafa og handhafa leyfa fyrir forfallabílstjóra.

Því er það einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að utan um þessa atvinnustétt manna þarf að byggja stóran, mikinn og dýran gagnagrunn sem lögreglan hefur beinan aðgang að. Ég hlýt að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra: Af hverju þarf lögreglan að hafa beinan aðgang að upplýsingum á, ef marka má það sem fram kemur í frv., nafni bifreiðastjóra, kennitölu þeirra, heimilisfangi, bifreiðastöð, kallnúmeri, nýtingu atvinnuleyfis, heimiluðu og teknu orlofi, útgerðarheimildum vegna veikinda o.s.frv.? (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Við hefðum viljað fá meiri tíma til þess að fara yfir þetta í nefndinni en það gafst ekki meiri tími, en ég hlýt að spyrja hæstv. samgrh. sem að sjálfsögðu hefur forræði þessa máls og frumkvæði að því að leggja það fyrir hið háa Alþingi: Hvernig stendur á því að lögreglan þarf að hafa aðgang að gagnagrunni með slíkum upplýsingum? Ég vænti þess að hæstv. ráðherra útskýri þetta vandlega í ræðu sinni á eftir hvernig á því standi að lögreglan þurfi að hafa sérstök afskipti af þessu.

[23:00]

Það hefur líka komið fram, virðulegi forseti, að kostnaður við þennan gagnagrunn er áætlaður --- við fengum um það upplýsingar --- 7,5 millj., ef ég man þá tölu rétt, og afskrifist þá á einhverjum árum. Og atvinnuleyfisgjöldunum er m.a. ætlað að standa undir þessu. Hér stendur víst einfaldlega til að menn komi þessum gagnagrunni af stað í upphafi og þeirri gjörð fylgi tiltekinn kostnaður, og því hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra: Hví þarf að innheimta þessi gjöld á hverju einasta ári? Hví þarf að innheimta 10 millj. á hverju einasta ári til þess eins að sjá um 700 manna starfsstétt?

Ef menn telja algerlega nauðsynlegt að skipulagið sé með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, það sé svona opinbert miðstýrt skipulag þar sem nákvæmlega er kveðið á um hversu margir bílar megi aka, hversu mörg atvinnuleyfi eru í gangi hverju sinni o.s.frv. --- í raun og veru er þetta opinbert kerfi --- þá hlýt ég að spyrja: Af hverju stendur ríkið ekki bara straum af þessum kostnaði? Hvers vegna stendur ríkið þá ekki að þessu á allan hátt ef menn líta svo á að hér sé um kerfi að ræða sem þarf að vera niðurnjörvað með þessum hætti? (Gripið fram í: Ríkisstöð.) Sú umræða kom einmitt aðeins upp í nefndinni og nú spyr ég bara úr því að menn eru komnir í þennan fasa: Af hverju er ekki rekin bara ein ríkisstöð, Bifreiðastöð hæstv. samgrh. Sturlu Böðvarssonar? (Samgrh.: ... Samfylkingin geri það.) Opna bara fyrir eina ríkisstöð. (GHall: Þýðir það ... Samfylkingarinnar?) Við erum ekki að ræða hugmyndir Samfylkingarinnar. Við erum að ræða frv. ríkisstjórnarinnar sem vill þannig til að Sjálfstfl. og Framsfl. standa að þannig að við skulum halda umræðunni í réttum farvegi. Ég spyr hæstv. samgrh.: Kom það ekkert upp þegar verið var að semja þetta frv. að hafa bara eina ríkisstöð? Það hefði mér fundist mjög eðlilegt.

Það er mjög erfitt að komast í það að verða leigubifreiðastjóri, það er langur prósess og menn þurfa að fara í gegnum mörg námskeið, menn þurfa að vinna sér inn bíltíma líkt og flugtíma og það getur tekið langan tíma og mörg ár að ná sér í þessi réttindi. Í því ljósi er atvinnufrelsi manna skert og í stjórnarskránni er sérstaklega kveðið á um það að atvinnufrelsi manna megi ekki skerða nema almannahagsmunir krefji. Því finnst mér sjálfum það vera rík kvöð á hæstv. samgrh. að útskýra fyrir okkur, sem ekki áttum okkur nákvæmlega á því, hvað veldur því að nauðsynlegt er að hafa kerfið með þessum hætti þar sem atvinnufrelsi manna er skert --- hvaða miklu almannahagsmunir krefjast þess að menn fari þessa leið?

Það er rík skylda á stjórnvöldum og þeim sem bera frv. fram að skýra þetta út. En það er lítil sem engin tilraun gerð til þess nema að í nál. kemur fram að Svíar hafi reynt að opna fyrir þetta og að sögn meiri hlutans fór það víst allt saman í vaskinn. Það er í raun og veru eina röksemdin sem er sett fram fyrir því að atvinnufrelsi manna skuli skert með þeim hætti sem raun ber vitni.

Ég held að ekki sé úr vegi, virðulegi forseti, af því að við erum byrjuð að ræða um atvinnufrelsi manna að fara aðeins í sögu þessara mála. Ég held að það sé rétt að menn reyni að átta sig á því hvernig á því stóð á sínum tíma að það kerfi varð til sem við búum núna við, það kerfi sem ekki er ætlunin að breyta og hefur að mestu leyti verið við lýði frá 1953. Ég held að það sé ágætt að rifja upp og halda til haga hvernig á því stendur að þetta kerfi varð til. Það vill þannig til að ég hef í fórum mínum bréf sem er ritað á árinu 1952. (Gripið fram í: Var það ekki áður en þú fæddist?) Það var áður en ég fæddist jú, enda hugmyndafræðin í samræmi við það. Ég sé að íhaldssemin hefur lítið breyst á þessari hálfu öld sem liðin er frá ritun bréfsins. Ég skal ekkert fullyrða um hver staðan var þá. En þá var ritað eftirfarandi bréf, virðulegi forseti, af formanni Hreyfils og reyndar líka formanni Vörubifreiðastöðvarinnar Þróttar sem færði þau rök fyrir því að það væri nauðsynlegt að negla þetta kerfi niður þannig að ekki væru of margir bifreiðastjórar í landinu. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp þetta bréf, með leyfi forseta, en það hljóðar svo:

,,Við undirritaðir höfum athugað, hvort nauðsyn bæri til þess að skipuleggja akstur leigubifreiða hér í bæ og annars staðar að því er snertir leigubifreiðar til fólksflutninga sem taka allt að 8 farþega, svo og vörubifreiðar sem leigðar eru almenningi og hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, aðallega með það fyrir augum hvort nauðsynlegt væri að setja löggjöf um takmörkun þeirra.

Við athugun höfum við sannfærst um það að atvinnumöguleikar fyrir leigubifreiðar eru mjög takmarkaðir eins og nú er miðað við þann fjölda bifreiða sem notaðar eru í þessu efni nú.

Leigubifreiðar til fólksflutninga sem taka allt að 8 farþega eru nú um 450 í Reykjavík og um 250 vörubifreiðar og virðist það vera mun fleiri bifreiðar en nokkur þörf er fyrir. Er því fyrirsjáanlegt að brýn nauðsyn er til þess að takmarka fjölda leigubifreiða eigi að vera nokkur möguleiki til þess að þeir menn sem stunda akstur leigubifreiða sem aðalatvinnu geti haft það sér og sínum til lífsframfæris enda mun nú svo komið að í flestum menningarlöndum er tala slíkra flutningatækja takmörkuð með löggjöf.

Í þessu sambandi má einnig benda á það að með því að binda við þessi störf fleiri menn en nauðsyn krefur á hverjum tíma fer geysilega mikið vinnuafl til ónýtis, auk þess sem við þessa flutninga eru bundnar miklu fleiri bifreiðar en þörf er á en það leiðir að sjálfsögðu af sér aukinn innflutning á alls konar rekstrarvörum til bifreiða.

Loks má benda á það að fjöldi manna hefur lagt mikið fé í það að kaupa sér dýrar bifreiðar í þeirri von að akstur vöru- og fólksflutningabifreiða sé mjög arðvænleg atvinnugrein en margir þessara manna hafa síðan komist í miklar fjárkröggur vegna þessa en af því hefur oft og einatt leitt alls konar spillingu sem hægt væri að komast hjá með því að takmarka tölu bifreiðanna ...``

Ég ætla að lesa þessa klausu aftur, virðulegi forseti, með leyfi forseta.

(Forseti (HBl): Það veitir ekki af.)

Forseti tekur undir það, heyri ég.

,,Loks má benda á það að fjöldi manna hefur lagt mikið fé í það að kaupa sér dýrar bifreiðar í þeirri von að akstur vöru- og fólksflutningabifreiða sé mjög arðvænleg atvinnugrein en margir þessara manna hafa síðan komist í miklar fjárkröggur vegna þessa en af því hefur oft og einatt leitt alls konar spillingu sem hægt væri að komast hjá með því að takmarka tölu bifreiðanna við flutningaþörfina og tryggja þannig að fullu hagnýtingu vinnuafls og tækja í þessum starfsgreinum.

Í sambandi við setningu löggjafar um þessi mál teljum við brýna nauðsyn bera til þess að fyrrgreindar bifreiðar til almenningsnota hafi fasta afgreiðslu á bifreiðastöð enda mundi allt eftirlit með slíkri löggjöf verða mjög erfitt`` --- sem síðan hefur reyndar komið á daginn, enda er ætlunin núna að setja um þetta gagnagrunn --- ,,ef bifreiðarnar hefðu ekki skyldu til þess að vera í fastri afgreiðslu á bifreiðastöð.

Með tilvísun til framanritaðs erum við undirritaðir því sammála um að nauðsyn beri til þess að sett verði löggjöf um heimild til takmörkunar á fjölda leigubifreiða til vöru- og mannflutninga í kaupstöðum landsins og það gæti orðið á Alþingi því sem nú situr.``

Undir þetta rita Bergsteinn Guðjónsson, þáv. formaður Hreyfils, og Friðleifur I. Friðriksson, þáv. formaður Vörubifreiðastöðvarinnar Þróttar.

Þá má spyrja: Af hverju er ég að lesa upp þetta bréf? Svarið er einfalt. Þetta er greinargerðin sem fylgdi upphaflega frv. um leigubifreiðar í kaupstöðum. Þetta er í raun og veru grunnurinn að því kerfi sem nú, 50 árum síðar, á enn að herða reglurnar utan um. Það er þá ekki úr vegi, virðulegi forseti, að velta upp og skoða í þessu samhengi hvernig landsfundur Sjálfstfl. fjallaði um þessar hugmyndir nú á nýafstöðnu landsþingi sem margir telja að hafi tekist alveg sérlega vel, og bera saman við þær hugmyndir sem hér voru kynntar til leiks og eru í raun og veru grunnurinn, forsendan, fyrir því kerfi sem við búum nú við. Hér var upphaflega verið að setja reglur og takmarkanir í því skyni að tryggja fjárfestingar manna í leigubifreiðum, tryggja að ekki væru of margir inni í þessu kerfi og það verður að segja alveg eins og er að á þessum árum þótti þetta bara ofur eðlilegt. Þetta er á sjötta áratugnum, fljótlega eftir stríð, og þá var almennt haftakerfi í flestu. Því voru þessar reglur alveg í samræmi við þá hugmyndafræði sem ríkti almennt í landinu. Það voru nánast höft á öllu og það fer ekki að losna um þau fyrr en á 7. áratugnum með viðreisnarstjórninni. Þess vegna er dálítið sérstakt að nú, 50 árum síðar, skuli menn ekki vera komnir upp með eina einustu nýja hugmynd um það hvernig þessum málum má koma fyrir. Í greinargerð frá bifreiðastjórafélaginu Frey í Keflavík og Ökuleiðum SF í Keflavík er m.a. vitnað til stefnu Sjálfstfl. í málinu. Hæstv. forseti sem nú situr er fyrrv. samgrh. og þar af leiðandi öllum hnútum kunnugur í þessum efnum, en með leyfi forseta segir í greinargerðinni:

,,Við viljum aðeins benda á að frumvarp þetta er í algjörri andstöðu við yfirlýsta stefnu flokks þess ráðherra er leggur það fram, en á landsfundi flokks hans er haldinn var á sama tíma og verið var að leggja þetta frumvarp fram var lagt til að endurskoðuð verði lög um leigubifreiðar og rekstur bifreiðastöðva til að draga úr miðstýringu, opinberum afskiptum, minnka opinberar álögur á reksturinn og einfalda lagaumhverfið.``

[23:15]

Þannig var ályktun Sjálfstfl., a.m.k. þau yfirlýst markmið flokksins. Ég held að það sé mikilvægt að halda þessu til haga og bera þessar landsfundarsamþykktir saman við frv. sem við ræðum hér. Það er ekki nóg að básúna um það á tyllidögum og í skálaræðum að menn séu talsmenn frelsis, einkaframtaks o.s.frv. Hér eru verkin og hér birtast hugmyndirnar í framkvæmd.

Margir gerðu athugasemdir við þetta frv. og fleiri sem vitnuðu nánast orðrétt til þessara ályktana. Líklega hef ég skilið þær merku ályktanir einhvers staðar eftir þannig að ég get ekki vitnað til þeirra beint. Þar gengur hugmyndafræðin út á að reyna að draga úr miðstýringu og opinberri álagningu á þessa grein og leita annarra leiða.

Það er dálítið merkilegt, virðulegi forseti, ef menn vilja hugsa til þess, að nú vilja menn gera eins og fyrstu bifreiðastöðvarnar gerðu, eins og Bifreiðastöð Steindórs. Hvernig fyrirkomulag var þar? Þar var það þannig að stöðin átti bílana. Ef menn t.d. vildu opna bifreiðastöð núna þar sem einungis yrði keyrt á umhverfisvænum bílum, fátt er nú meira í tísku þessa daga en allt sem umhverfisvænt er, þá væri ekki möguleiki að opna slíka stöð. Enginn má aka nema hann hafi atvinnuleyfi og það sé skráð á tiltekinn bíl.

Ég á reyndar eftir að koma síðar að því merka ákvæði að enginn megi aka nema hann hafi leigubifreiðaakstur að aðalatvinnu. (Gripið fram í.) Svo á ég líka eftir að koma að þeim stórmerku reglum --- ég sé að hæstv. samgrh. er upptekinn í mikilvægum viðræðum við hv. þm. Kristján L. Möller --- sérstökum reglum sem hæstv. ráðherra setti sjálfur. Þar kemur t.d. fyrir ný skilgreining á áfengissýki sem þekkist sennilega hvergi annars staðar. Ég veit ekki hvort menn vita af því að eftir að hafa farið einu sinni í áfengismeðferð þá telst áfengissýki leigubifreiðastjóra ekki lengur sjúkdómur í skilningi reglna um orlofsrétt leigubifreiðastjóra. Það vill þannig til, virðulegi forseti, að ég er með þessar reglur. Ég sé ekki betur en hæstv. samgrh. Sturla Böðvarsson hafi undirritað þetta og einhver annar sem ég átta mig ekki á hver er. Ég veit ekki hvort þessi nýja skilgreining á áfengissýki hafi verið borin sérstaklega undir landlæknisembættið.

Auðvitað, virðulegi forseti, enda menn einhvers staðar úti í skurði þegar menn eru með kerfi af þessum toga. Auðvitað koma svona reglur upp. Reglurnar um tímabundnar undanþágur frá akstri eigin leigubifreiða eru náttúrlega stórkostlegar. Ég mun fara vandlega yfir þær einhvern tíma síðar í nótt þegar að því kemur en ég er reyndar ekki kominn nema að 3. gr. frv. Það er því mikið efni eftir. Ég held að það sé nauðsynlegt í umræðu að menn þekki söguna, tilurð þess kerfis sem við nú búum við. Það varð fyrst og fremst til til að tryggja fjárfestingu tiltekinna manna og var í samræmi við þá almennu hugmyndafræði sem ríkti í samfélaginu á þeim tíma. (Samgrh.: Er sá tími liðinn?) En núna kemur hæstv. samgrh. alla leið frá Stykkishólmi og ber á borð hugmyndafræði sem gengur í raun mun lengra en á sjötta áratugnum. Ég held að menn hafi ekki einu sinni látið sér til hugar koma, virðulegi forseti, að setja utan um þessa starfsstétt sérstakan gagnagrunn sem fjallaði um heilsufar þeirra sem hafa atvinnuleyfi, um göngulag og sitt lítið af hverju og er ekki allt upp talið eins og ég ræddi um áðan.

Í 3. gr. frv., virðulegi forseti, kemur fram að allar leigubifreiðastöðvar á takmörkunarsvæði skv. 8. gr. ... --- Mér þætti vænt um, virðulegi forseti, ef hæstv. samgrh. gæti setið hér í salnum á meðan ég flyt þessa ræðu vegna þess að mig langar að bera mýmargar spurningar undir hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra er í húsinu eða hvað?

(Forseti (HBl): Hæstv. samgrh. virðist vera í húsinu.)

Ég verð að beina því til forseta að ég óska eftir því að hæstv. ráðherra verði í salnum á meðan ég flyt mál mitt.

(Forseti (HBl): Ég skal óska eftir því við þingvörð að hann láti ráðherra vita.)

Hæstv. ráðherra er kominn. Eins og fram hefur komið, þegar menn setja fram hugmyndir af þessum toga, er að sjálfsögðu heimild til að setja á menn tiltekin vistarbönd, að menn megi ekki aka nema á tilteknum svæðum. Þau rök sem helst hafa verið færð fram fyrir því eru að ef svo væri ekki þá mundu allir keyra til Reykjavíkur. Menn eru því skikkaðir til að vinna á tilteknum svæðum. Ég verð að segja alveg eins og er að ég á bágt með að trúa því að allir þeir sem nú hafa atvinnuleyfi mundu aka eins og skot til Reykjavíkur þó að þeim væri það heimilt. Þar með væri ljóst að lítill grunnur væri fyrir því að gera út leigubíla á öðrum stöðum. Ég held að það sé algerlega rangt enda væru menn ekkert í því að gera út leigubíla ef menn hefðu ekki eitthvað út úr því. Ég held að það sé eitthvað sem menn eigi að skoða.

Virðulegi forseti. Í 3. gr. frv. er kveðið á um að allar leigubifreiðar á takmörkunarsvæði skv. 8. gr. skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð sem fengið hafi viðurkenningu Vegagerðarinnar. Það er þessi nýja stjórnsýsla. Vegagerðin á að halda utan um þetta allt saman. Vegagerðinni er ætlað það hlutverk að gefa út starfsleyfi til bifreiðastöðva. Svo segir, með leyfi forseta:

,,Bifreiðastöðvar fyrir leigubifreiðar skulu í samráði við félög leigubifreiðastjóra skipuleggja starfsemi sína með þeim hætti að almenningi verði veitt góð og örugg þjónusta.`` --- Ekkert er sagt nánar um það í hverju þessi góða og örugga þjónusta felist. Ekki er kveðið á um það í þessu frv. hvernig eigi að framfylgja þessu. Hvernig á t.d. að tryggja öryggi leigubifreiðastjóra? Hvernig á að tryggja öryggi farþega? Hvaða trygging er fyrir því að þeir sem nú hafa atvinnuleyfi séu betri en aðrir til að stunda leigubifreiðaakstur? Hvaða trygging er yfir höfuð fyrir því að það kerfi sem hér á að setja upp sé besta kerfið sem hægt er að hugsa sér í þessum málum? Ekki nokkur einasta.

,,Hver bifreiðastöð skal fylgjast með því að ökumenn, sem þar hafa afgreiðslu, fari eftir fyrirmælum laga og reglugerða um leigubifreiðar.`` --- Þannig er bifreiðastöðinni ætlað það hlutverk að fylgjast sérstaklega með þessum mönnum sem eru þó bókfærðir og skráðir í gagnagrunn Vegagerðarinnar þar sem nákvæmt yfirlit er til um þá sem hafa náð þeim áfanga að fá atvinnuleyfi til að aka leigubílum.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Bifreiðastöð getur séð um afgreiðslu undanþágna frá akstri eigin bifreiða skv. 9. gr. Telji bifreiðastöð að þeir sem hafa afgreiðslu á stöðinni hafi brotið gegn ákvæðum þessum skal hún stöðva afgreiðslu þeirra og tilkynna það til Vegagerðarinnar.`` --- Sem er þá beinlínutengd við lögregluna væntanlega, eða hvað, hæstv. samgrh.?

Það verður að segja það eins og er, virðulegi forseti, að manni virðist ekki ríkja mikil trú á þessari starfsstétt þegar hún þarf að vera undir sérstöku eftirliti lögreglunnar, Vegagerðarinnar, bifreiðastöðvanna --- menn geta haldið áfram þessari upptalningu.

Í 3. gr. er kveðið á um að þeir sem fengið hafa atvinnuleyfið til þess að stunda leigubifreiðastjóraakstur sé ekki heimilt að nýta atvinnuleyfi sitt nema þeir hafi sérstaka aðstöðu á bifreiðastöð. Menn geta ekki einu sinni nýtt sér atvinnuleyfi sitt nema sérstök bifreiðastöð haldi utan um það. Jafnvel þó að einhverjir vildu stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi, sem þessir leigubifreiðastjórar að sjálfsögðu stunda, og vildu kannski sjálfir hafa sinn eigin síma á gulu síðunum í símaskránni þá er það ekki einu sinni heimilt. Ég er bara ekki viss um að þessi skerðing standist ef á hana yrði látið reyna.

[23:30]

Í 5. gr. er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleyfi. Þar eru í sjálfu sér að mörgu leyti engin óeðlileg skilyrði nema eitt, í 3. tölul.: ,,Stunda leiguakstur að aðalatvinnu.`` Það er af þeim sökum, virðulegi forseti, að setja þarf sérstakar reglur um tímabundna undanþágu frá akstri eigin leigubifreiðar, þ.e. ef menn ætla að fá einhvern annan til þess að aka fyrir sig, þá gilda um það reglur upp á 18 greinar á fjórum A-4 síðum. Það er ekki eins og þetta hafi verið skrifað, virðulegi forseti, árið 1930, 1940 eða á 6. áratugnum þar sem sú hugmyndafræði var ríkjandi um margt, stjórnsemi og stjórnlyndi. Við erum ekki að tala um þann tíma. Nei, virðulegi forseti. Þetta er dagsett í samgrn. 8. nóvember árið 1999, rétt rúmlega tveggja ára gamalt. Þetta eru 18 greinar sem fjalla um það að ef svo skyldi fara að þeir sem hafa atvinnuleyfi þyrftu nú að yfirgefa tímabundið sínar eigin bifreiðar vegna veikinda eða annars, þá eru fjórar heilar síður sem fjalla um það hvernig í veröldinni þeim eigi að takast það.

Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að fara vandlega yfir þetta, sérstaklega þar sem í þessu nýja frv. er einmitt kveðið á um að skilyrði fyrir atvinnuleyfi sé að einstaklingur stundi leiguakstur sem aðalatvinnu. Hér er ekki ætlunin að breyta neinu, ég geri því fastlega ráð fyrir að þessar merku reglur verði áfram í gildi. Það verður náttúrlega að tryggja það, virðulegur forseti, að þessir menn séu ekki að taka sér frí. Þeir hafi ekki sína eigin hentisemi með það hvenær þeir aka og hvenær ekki, það væri nú laglegt. Það væri nú laglegt, virðulegi forseti, ef þeir hefðu bara sína eigin hentisemi með það hvenær þeir mundu aka og hvenær ekki.

Kannski er þetta það sem koma skal, virðulegi forseti. Kannski er það næsta sem við fáum að sjoppueigendur --- þá yrði fjallað væntanlega um takmörkuð gæði, því ekki er alveg öruggt að allir kaupi karamellur í tíma og ótíma --- að við fáum þá næst reglur um hvenær sjoppueigendur megi taka sér frí. Og kannski fáum við aðrar 18 greinar um það. Ég held að ágætt væri að það væri þá í samgrn. (Samgrh.: En hjá R-listanum?)

Nei, við erum ekki að fjalla um R-listann hér, virðulegi forseti. Við erum að fjalla um hæstv. samgrh., reglur frá honum. (Samgrh.: Ekki um sjoppurnar.) Nei, en það var það sem ég velti fyrir mér, hvort væri þá ekki rétt að slíkir atvinnurekendur, eins og leigubifreiðastjórar, einstaklingar sem eru í litlum atvinnurekstri, fengju miklar reglur um það hvenær þeir megi taka sér frí frá vinnu sinni eins og hér er.

Ég held að það væri rétt, virðulegi forseti, fyrir umræðuna að þetta fari bara inn í þingtíðindi og ég lesi þessar reglur. Ég held að væri rétt að fara hér vandlega yfir það, því þar er m.a. að finna þessa merku reglu um áfengissýkina. Það telst ekki áfengissýki samkvæmt þessum reglum ef menn þurfa að fara tvisvar í afvötnun. Í fyrsta skiptið er um að ræða sjúkdóm, í annað skiptið er það eitthvað annað.

Kannski hæstv. samgrh. geti útskýrt það fyrir okkur sem eigum dálítið erfitt með að skilja þetta regluverk allt saman. Og smám saman fer náttúrlega að renna upp fyrir manni ljós, að allt þetta regluverk verður náttúrlega að komast í einhvern gagnagrunn. Það er náttúrlega ekki fyrir nokkurn mann einan að eiga að fylgjast með því hvaða reglur gilda og hvernig eftir þeim er farið.

En ég held, virðulegi forseti, að rétt sé fyrir málefnið og málstaðinn að mönnum séu þessar reglur almennt kunnar en ekki aðeins þessum 700 leigubifreiðastjórum sem þurfa þó að vinna eftir þeim. Hér eru reglur um tímabundnar undanþágur frá akstri eigin leigubifreiðar, sem fara væntanlega inn í gagnagrunninn. En þær hljóma svo, með leyfi forseta, og þetta eru einhverjar merkustu reglur sem ég hef komist í:

,,Bifreiðastjórafélögunum Andvara, Átaki og Frama er falið að sjá um framkvæmd og eftirlit með undanþágum leyfishafa frá akstri eigin bifreiðar á höfuðborgarsvæðinu. Höfuðborgarsvæðið telst Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Bessastaðahreppur.`` (ÍGP: Og ertu ekki sammála því?) Ég geri ekki ágreining um þetta. ,,Bifreiðastjórafélögin skulu leggja fram félagaskrár sínar til umsjónarnefnda fólksbifreiða`` --- að sjálfsögðu til umsjónarnefnda fólksbifreiða sem síðan fjalla um þetta allt saman --- ,,á viðkomandi svæði og skulu að lágmarki tíu bifreiðastjórar`` --- hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason --- ,,vera meðlimir í viðkomandi bifreiðastjórafélagi á höfuðborgarsvæðinu.``

Það er því alveg lágmark að tíu bifreiðastjórar skuli vera í félaginu, annars er væntanlega ekki hægt að stofna félagið.

,,Bifreiðastjórafélögunum Fylki og Frey er falið að sjá um framkvæmd og eftirlit með undanþágum leyfishafa frá akstri eigin bifreiðar í Reykjanesbæ, Höfnum, Miðnes-, Gerða- og Vatnsleysustrandarhreppi.

Bifreiðastjórafélaginu Faxa er falið að sjá um framkvæmd og eftirlit með undanþágum leyfishafa frá akstri eigin bifreiðar í Árborg.

Bifreiðastjórafélagi Akureyrar er falið að sjá um framkvæmd og eftirlit með undanþágum leyfishafa frá akstri eigin bifreiðar á Akureyri.``

Þetta er mikið framsal á valdi til bifreiðastjórafélaganna, en það verða að vera tíu í hverju bifreiðastjórafélagi annars telst það ekki alvörufélag og þá verða þessi leyfi væntanlega afturkölluð.

,,Bifreiðastjórafélögin skulu annast framkvæmd og eftirlit undanþágna fyrir sína félagsmenn. Bifreiðastjóra sem kýs að standa utan félaga er þrátt fyrir það skylt að leita til eins af starfandi félögum bifreiðastjóra á hans svæði varðandi undanþágur frá akstri eigin bifreiðar.`` --- Með öðrum orðum, ef menn eru ekki í neinu félagi, vilja nýta sitt félagafrelsi, þá skulu þeir nú samt sækja til bifreiðastjórafélags ef þá langar að taka sér frí og fá þá leyfi til þess að taka sér frí og geta þá væntanlega valið um bifreiðastjórafélag, sem í eru a.m.k. tíu menn, því annars getur bifreiðastjórafélagið ekki veitt slíkar undanþágur. --- ,,Hefur hann frjálst val um hvaða ofangreinds félags hann snýr sér til. Ber honum að tilkynna hlutaðeigandi umsjónarnefnd með sannanlegum hætti um val sitt.`` --- Hann verður sem sagt að tilkynna umsjónarnefndinni um hvaða bifreiðastjórafélag hann velur til þess að taka ákvörðun um hvort hann geti tekið sér frí frá akstri eigin leigubifreiðar.

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki nema von að mönnum stökkvi bros. Ég spyr, virðulegi forseti: Er til vandmeðfarnari starfsgrein í landinu en að vera leigubifreiðastjóri sem ætlar að taka sér frí?

,,Ef bifreiðastjóri sem er utan félaga ákveður að beina umsóknum sínum um undanþágur til annars félags ber honum að tilkynna það viðkomandi umsjónarnefnd með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.`` --- Þannig að ef hann verður veikur, þá þarf hann að tilkynna það með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara til viðkomandi umsjónarnefndar.

,,Sætti bifreiðastjóri sig ekki við ákvörðun bifreiðastjórafélaganna er honum heimilt að áfrýja til umsjónarnefndar fólksbifreiða á viðkomandi svæði og er úrskurður hennar endanlegur á sviði stjórnsýslunnar.``

Ég segi nú bara ekki annað, virðulegi forseti, að það er meira en lítið mál að taka sér frí þegar maður er leigubílstjóri. Þetta er bara 1. greinin en þær eru 18, virðulegi forseti, sem fjallar um það hvernig menn eða hvert menn eigi að snúa sér þegar þeir ætla að taka sér frí eða fá tímabundnar undanþágur frá akstri eigin leigubifreiðar. En markmiðið er þá að annar geti tekið við akstrinum á meðan hann hefur þetta tímabundna leyfi. Fái hann ekki þetta tímabundna leyfi, þá verður bíllinn bara að standa. Þannig fara menn að.

En svo segir í 2. gr., með leyfi forseta:

,,Bifreiðastjórafélögin skulu fara eftir lögum og reglum um leigubifreiðar og reglum þessum og þar sem vafamál koma upp skal hafa hliðsjón af reglum sem gilda á vinnumarkaði og skulu bifreiðastjórafélögin afgreiða þau af sanngirni þannig að jafnræðis sé gætt á milli bifreiðastjóra.``

Það er sem sagt kveðið hér á um að gætt sé jafnræðis og sanngirni í þessum reglum.

,,Á svæðum þar sem fleiri en eitt félag bifreiðastjóra annast útgáfu undanþágna skal hlutaðeigandi umsjónarnefnd, að höfðu samráði við hlutaðeigandi bifreiðastjórafélög, setja reglur um útgáfu á akstursheimildum, svo að eftirlit bifreiðastjórafélaga, málsmeðferð, form, útlit og efni akstursheimilda verði samræmt eins og kostur er.``

Og erum við nú ekki enn komin að því, virðulegi forseti, að sækja um frí. Við erum enn þá í málsmeðferðarreglum, því leigubílstjórar taka sér náttúrlega ekki frí bara si svona.

Síðan heldur áfram hér, með leyfi forseta. --- Virðulegi forseti. Af því að nú eru orðin tvö ár síðan hæstv. samgrh. ritaði undir þessar reglur, er ég ekki viss um að hann sé með þær á takteinum og mér þætti því vænt um ef hæstv. samgrh. gæti setið hér rétt á meðan ég fer yfir þetta, því ég þarf að beina til hæstv. ráðherra ýmsum spurningum úr þeim reglum. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég skil þær kannski ekki alveg allar og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra ...

(Forseti (HBl): Ég skal verða við beiðni þingmanns um að óska eftir því að samgrh. verði látinn vita að nærveru hans sé óskað í salnum.)

Ég þakka skjót viðbrögð, virðulegi forseti.

Í 3. gr. er að sjálfsögðu tekið fram að bifreiðastjórafélögunum sé aðeins heimilt að veita þeim undanþágu sem hafa atvinnuleyfi til þess að aka leigubifreiðum því aðrir geta náttúrlega ekki fengið undanþágu og það er tekið skýrt fram í reglunum að sjálfsögðu. Þetta er því mjög vandmeðfarið.

En nú er ég kannski kominn, virðulegi forseti, að þeim kafla reglnanna þar sem ég vildi fá að beina sérstökum fyrirspurnum til hæstv. samgrh., því þar er fjallað um orlof og undanþágu vegna veikinda. Það er náttúrlega það versta sem fyrir leigubílstjóra kann að koma ef þeir þurfa að fara í orlof eða verða veikir og það er ekkert lítið mál. Það get ég sagt, virðulegi forseti. Ég ætla því að leyfa mér þann munað að að hægja aðeins á þessu rétt á meðan við bíðum eftir að hæstv. samgrh. gangi í salinn.

Það er eins og við manninn mælt, hæstv. samgrh. kemur að bragði.

Ég var þar kominn, virðulegi forseti, og hæstv. samgrh. í 4. gr. þessara reglna ... (Samgrh.: Ég þarf varla að hlusta á þær, ég þekki þær.) Nei, ég þarf að beina til hæstv. samgrh. fyrirspurnum og þess vegna er mikilvægt að hæstv. ráðherra sé í salnum rétt á meðan ég fer yfir þær reglur, vegna þess að það er svo margt í þeim sem ég ekki skil. (Samgrh.: Þær eru ekki partur af löggjöfinni.) Reglurnar eru að sjálfsögðu --- við getum farið yfir það, virðulegi forseti, að efst í píramídanum er stjórnarskráin og síðan koma lögin og svo koma reglurnar, þannig að þetta er vissulega partur af því hvernig reglunum og lögunum er framfylgt.

En hér kemur, virðulegi forseti:

,,Leyfishafa er heimilt að gera út bifreið sína`` --- sem hann hefur þá væntanlega leyfi fyrir --- ,,í 5 vikur í orlofi.`` Í fimm vikur í orlofi. Sem sagt, leigubifreiðastjórar mega gera út bifreið sína fimm vikur í orlofi. ,,Við hver 5 ár frá leyfisveitingu í samfelldu starfi bætist ein vika við útgerðarheimildina.`` Þannig að eftir að hafa verið leigubifreiðastjóri í fimm ár, þá mega þeir gera út --- þegar menn tala um að gera út bifreiðina, þá mega þeir fá forfallabílstjóra til þess að aka þann tíma. Og eftir fimm ár mega þeir gera út bifreiðina sína í sex vikur. ,,Þó má orlofsútgerð aldrei vara lengur en 9 vikur á ári.`` Þannig að þeir sem hafa verið í 25 ár, sem nokkrir hafa verið, vinna ekki frekari réttindi eftir að hafa verið 25 ár, þar með hafa þeir unnið inn eins mikil réttindi og hægt er. ,,Útgerð í orlofi er bundin við heilar vikur og er lágmarksútgerðartími ein vika.``

Virðulegi forseti. Verði leigubifreiðastjórar veikir í tvo daga geta þeir ekki tekið sér orlof samkvæmt þessum reglum. Bíllinn verður því að standa í þessa tvo daga. Og þeir geta ekki nýtt sér orlofsrétt sinn, því þeir verða að taka eina viku í einu.

Og nú ætla ég að beina fyrirspurn til hæstv. samgrh.: Hvað gerir það að verkum að menn geti ekki tekið sér einn til tvo eða þrjá daga í orlof, hvaða almannahagsmunir krefjast þess að menn geta ekki tekið einn, tvo eða þrjá daga í einu í orlof og til þess að gera út sinn bíl?

En svo kemur reyndar fram, virðulegi forseti:

,,Orlofstímabil hefst 1. maí ár hvert og stendur til 30. apríl árið eftir.`` Og síðan, af því að hér er um að ræða sjálfstæða atvinnurekendur og þá má náttúrlega ekki vera að bruðla með orlofið og þá kemur hér skýrt fram: ,,Ekki er hægt að færa orlof á milli tímabila.``

[23:45]

Þannig geta þessir sjálfstæðu atvinnurekendur sem hafa þetta atvinnuleyfi og eru í ýmsum bifreiðastjórafélögum, Fylki eða Frey, ekki fært orlofið sitt á milli ára heldur verða að taka eina viku. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra: Hvað gerir það að verkum að menn geta aðeins tekið orlofið sitt þannig að þeir séu skyldugir til að taka það í eina viku í einu?

Þá kemur að því, virðulegi forseti, að menn eru skyldugir til að gera út sinn eigin bíl. Menn hafa þetta að aðalatvinnu og það er ekkert sjálfgefið að þessir menn fari í orlof eins og hér kemur fram. Hvað þá að þeir verði veikir.

Í III. kafla þessara reglna er fjallað um undanþágur vegna veikinda:

,,Leyfishafa er heimilt að gera út bifreið sína í veikindum í allt að eitt ár, sanni hann það með læknisvottorði að hann sé óvinnufær. Þó skal útgerð háð eftirfarandi takmörkunum:

a. Viðkomandi skal ekki stunda aðra atvinnu eða nám á því tímabili sem útgerðin stendur.`` --- Viðkomandi má þannig hvorki fara í skóla né vinna neitt, jafnvel þó hann hafi fengið vottorð um það að hann sé veikur og geti hugsanlega ekki ekið þá má hann ekki stunda neina aðra vinnu.

,,b. Viðkomandi skal ekki dvelja erlendis á því tímabili sem útgerðin stendur, nema til að leita sér lækninga samkvæmt úrskurði trúnaðarlæknis bifreiðastjórafélaganna.``

Virðulegi forseti. Meðan á þessum veikindum stendur skal viðkomandi gjöra svo vel að halda sig á Íslandi. Ef hann er með bíl sinn í útgerð, þ.e. ef einhver forfallabílstjóri er að keyra bílinn, skal hann gjöra svo vel að vera á Íslandi.

Virðulegi forseti. Ætli þetta standist? Ætli sé hægt að kyrrsetja mann í veikindum af því hann er með atvinnuleyfi sem leigubílstjóri? Ég fór alveg rétt með, virðulegi forseti, þetta eru ekki reglur frá þarsíðustu öld. Þetta eru reglur frá samgönguráðuneytinu 8. nóvember 1999. Verði leigubifreiðastjóri með atvinnuleyfi veikur þá er honum óheimilt að dvelja erlendis. Ég vildi beina því til hæstv. samgrh. og fá skýringar á hvernig á því stendur að honum er óheimilt að dvelja erlendis.

Svo kemur c-liður 6. gr. sem ég hef minnst á áður, þ.e. ný skilgreining á áfengissýki. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Áfengismeðferð telst til veikinda í fyrsta skipti en ekki ef um ítrekaða meðferð er að ræða.``

Ég vil spyrja hæstv. samgrh.: Hver er skilgreining samgrn. á því þegar einstaklingur með atvinnuleyfi, leigubifreiðastjóri í bifreiðastjórafélagi á bifreiðastöð, þyrfti hugsanlega að fara í annað sinn í áfengismeðferð? Hver er skilgreining samgrn. á því? Hvers konar veikindi er þá um að ræða? Áfengismeðferð telst til veikinda í fyrsta skipti en ekki ef um ítrekaða meðferð er að ræða, segir hér í reglunum um tímabundnar undanþágur frá akstri eigin leigubifreiðar í kaflanum um undanþágur vegna veikinda.

Hér eru síðan, virðulegi forseti, margvíslegar reglur um hvernig bifreiðastjórar eigi að aka um helgar og hvernig þeir eigi að hegða sér um álagstíma, eins og í 11. og 12. gr. Í 13. gr. er fjallað um það ef bíllinn sem menn eru með í akstri skyldi nú bila, um viðgerðir og endurnýjun á bifreið. Hæstv. samgrh. sést ekki yfir nokkurn skapaðan hlut. Honum sést ekki yfir neitt í þessum efnum. Í 13. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Leyfishöfum er heimilt að fá afnot bifreiðar annars leyfishafa`` --- annars leyfishafa, menn mega ekki koma með bifreið sem ekki er sérstaklega bókuð inn nema atvinnuleyfi sé á þeirri bifreið --- ,,vegna endurnýjunar eða viðgerðar á bifreið sinni í allt að sex mánuði.``

Þá þýðir það væntanlega að annar leyfishafi gerir ekki út sína bifreið á þeim tíma sem leyfishafinn sem átti bilaða bílinn gerir út þessa bifreið. Ég sé á svip hæstv. forseta að hann er alveg jafnhugsi yfir þessu og ég. Ég held að hvorugur okkar skilji nokkurn skapaðan hlut í þessu en þó vil ég kannski ekki gera hæstv. forseta upp skoðun í þeim efnum. En ef marka má svip hans þá erum við alveg samstiga í þessu.

Að sjálfsögðu, virðulegi forseti, ef það skyldi nú gerast að bíllinn bilaði, verður að tilkynna það viðkomandi félagi. Það væri nú annað hvort ef bifreiðastjórafélagið sem atvinnuleyfishafanum er skylt að vera í vissi nú ekki af því að það væri farin sía í bílnum.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta sjálfum vera svo dýrðlegar reglur að engu tali tekur. Af því ég á a.m.k. tvær ræður eftir í þessu máli ætla ég að geyma mér eitthvað af þessum gullkornum sem hér eru til síðari tíma. Þar er margt mjög fróðlegt. Þar er t.d. fjallað áframhaldandi um undanþágur vegna veikinda, álagstíma, viðgerðir og endurnýjun á bifreið, ég er reyndar búinn að fara yfir það og ástæðulaust að gera það aftur, ökuheimildir o.s.frv. Svo má alls ekki sleppa því að fara yfir það að náttúrlega er eftirlit með þessu og ef þeir brjóta af sér þá eru að sjálfsögðu refsingar. En ekki hvað? Ef þeir skyldu nú ekki tilkynna Bifreiðastjórafélaginu Frey eða Bifreiðastjórafélaginu Fylki að þeir ætluðu að taka sér frí þá er sko hægt að ná í skottið á þeim.

Ég mun fara betur yfir þetta í síðari ræðum mínum, virðulegi forseti. Þá munum við kannski sameiginlega fá einhvern botn í þessar reglur.

Ég held, virðulegi forseti, að vart sé hægt að sleppa í þessari fyrstu ræðu minni um málið --- sem kannski er komið að seinni hluta á en það eru a.m.k. tvær ræður eftir --- umfjöllun um 12. gr. Þar er kveðið á um árlegt gjald fyrir atvinnuleyfi. Þar erum við komin að því að þar á að innheimta 10 millj. kr. í einhvers konar leigubílaskatt. (Samgrh.: Hvort er það frv. eða reglurnar?) Nú er ég kominn aftur í frv., virðulegi forseti. Ég gerði skilmerkilega grein fyrir því að gullkorn reglnanna ætlaði ég að geyma þar til kemur að síðari ræðu minni. Þar er að finna mjög margt eins og þessa merku skilgreiningu á áfengissýki þar sem fram kemur að veikindin fari eftir skilningi samgrn. á þeim en ekki landlæknis. Í skilningi samgrn. er áfengismeðferð aðeins veikindi í fyrsta sinn en eftir það væntanlega eitthvað annað. Í 12. gr. frv. er fjallað um að menn ætli að ná í 10 millj. á ári í svokallaðan leigubílaskatt því auðvitað þarf að reka þessi ósköp öll. Það ekki nokkur leið að hafa allar þessar reglur og allar þessar kvaðir nema hafa fé til að framfylgja þeim og á að ná í 10 millj. í því skyni, í sérstakan leigubílaskatt.

Þessi gjaldtaka er reyndar ekki í núgildandi lögum. Segja má sem svo að einu verulegu marktæku breytingarnar séu að samgrn. er að koma þessum málaflokki af sér yfir til Vegagerðarinnar og ætlar að láta fylgja með í pakkanum 10 millj. í leigubílaskatt. Þetta eru öll afrekin sem á að vinna, að taka upp hugmyndafræði frá 1953 og fara jafnvel lengra aftur í tímann. Reglurnar eru þrengdar til mikilla muna. Þetta eru nú öll afrek hæstv. samgrh. sem ætlar að reyna að skipuleggja þessi mál til lengri tíma.

Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa kynnt ágætlega álitið sem við stöndum að, ég og hv. þm. Kristján L. Möller, í fyrstu yfirferð minni. Að sjálfsögðu mun ég fjalla nánar um ýmsa þætti þessa máls í síðari ræðum mínum. Ég mun þá sérstaklega gera grein fyrir síðari helmingi reglnanna, um tímabundnar undanþágur frá eigin akstri.