2001-12-14 00:31:30# 127. lþ. 54.16 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv. 140/2001, 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv. 138/2001, Frsm. MS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[24:31]

Frsm. (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. umhvn. um frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið fékk nefndin á sinn fund fulltrúa frá umhvrn., Náttúruvernd ríkisins og Náttúruverndarráði, auk þess sem nefndinni bárust umsagnir um málið frá ýmsum aðilum.

Með frumvarpinu er lagt til að Náttúruverndarráð verði lagt niður og að gerðar verði breytingar á ákvæðum laganna til samræmis við það. Jafnframt er lagt til að í stað náttúruverndarþings boði umhverfisráðherra reglulega til umhverfisþings sem hafi mun víðtækara hlutverk en það fyrrnefnda. Náttúruverndarþing var síðast haldið í lok janúar 2000. Samkvæmt því ætti að boða til næsta náttúruverndarþings í lok janúar 2002. Nefndin telur æskilegt að umhverfisþing verði haldið á yfirstandandi kjörtímabili.

Frá því að núverandi Náttúruverndarráð hóf störf árið 1997 hafa orðið miklar breytingar á umfjöllun og þátttöku almennings í ákvarðanatöku um umhverfismál. Starfsemi Náttúruverndar ríkisins hefur eflst á þessum tíma og hefur hún að mörgu leyti sinnt því ráðgjafarhlutverki sem Náttúruverndarráði var ætlað með lögunum. Hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands hefur einnig aukist verulega undanfarið og skarast hlutverk hennar einnig nokkuð við ráðgjafarhlutverk Náttúruverndarráðs. Þá ber þess að geta að frjáls félagasamtök hafa í vaxandi mæli tekið þátt í umfjöllun um umhverfismál og það er almenn skoðun og samrýmist hugmyndum nefndarinnar að frjáls félagasamtök um umhverfismál hafi það hlutverk að halda uppi gagnrýnni umræðu sem nýtist stjórnvöldum í stefnumótun og ákvarðanatöku um umhverfismál.

Með frumvarpi þessu er því gert ráð fyrir að ekki verði lengur starfrækt sérstakt ráðgefandi ráð um náttúruverndarmál en í stað þess verði samskipti stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka styrkt og þeim fundinn skýr farvegur. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er þetta í raun mjög í samræmi við þróun annars staðar og nægir í því sambandi að nefna samning um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum sem skrifað var undir í Árósum 1998.

Umhverfisnefnd óskaði nýverið eftir upplýsingum frá umhverfisráðuneyti um stöðu mála varðandi fullgildingu Árósasamningsins sem lagður var fyrir Alþingi til fullgildingar á 126. löggjafarþingi í formi þingsályktunartillögu. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er málið nú í athugun hjá umhverfis-, utanríkis- og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Umhverfisráðuneytið leggur áherslu á að þessari vinnu verði lokið sem fyrst og stefnt er að því að leggja samninginn og þær lagabreytingar sem nauðsynlegar reynast fyrir Alþingi á vorþingi 2002.

Undanfarin ár hefur Náttúruverndarráði verið tryggð fjárveiting á fjárlögum til rekstrar ráðsins. Umhverfisnefnd leggur áherslu á að sá hluti þeirra fjármuna, ásamt öðrum fjármunum sem ætlaðir eru til úthlutunar til félagasamtaka fari í safnliði í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Nefndin mun á yfirstandandi þingi gera tillögur um hvernig ákvörðun um fjárframlög til frjálsra félagasamtaka verði háttað í framtíðinni. Í þeim tillögum yrði m.a. höfð hliðsjón af eðli starfsemi viðkomandi félaga og umfangi þeirra og jafnræðis gætt við úthlutun.

Það er mat nefndarinnar að breyting sú sem lögð er til í 6. gr. frumvarpsins á 2. málsl. 2. mgr. 47. gr. laganna lúti eingöngu að orðalagi þótt ummæli í athugasemdum og greinargerð með frumvarpinu bendi til annars.

Umhverfisnefnd komst að þeirri niðurstöðu að gera þyrfti ýmsar breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi sem og á lögunum sjálfum.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Vísa ég í það skjal.

Undir nál. skrifa, frsm. Katrín Fjeldsted, Drífa Hjartardóttir og Hjálmar Árnason og með fyrirvara þau Jóhann Ársælsson og Kolbrún Halldórsdóttir.

Ég mæli einnig fyrir nál. umhvn. um frv. til laga um breytingu á lögum ráðstafnir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989.

Eftir umfjöllun um málið mælir nefndin með samþykkt frv., en með frv. er lagt til að 4. mgr. 3. gr. laganna falli brott. Samkvæmt því ákvæði ber Endurvinnslunni hf. að greiða 5% af árlegum tekjuafgangi sínum til Náttúruverndarráðs. Þar sem ekki er gert ráð fyrir að Náttúruverndarráð verði starfrækt áfram er lagt til að ákvæðið falli brott.

Undir nál. skrifa Magnús Stefánsson frsm., Katrín Fjeldsted, Jóhann Ársælsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Drífa Hjartardóttir og Hjálmar Árnason.