Heilbrigðisþjónusta

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 10:36:19 (3305)

2001-12-14 10:36:19# 127. lþ. 55.15 fundur 229. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (Heyrnar- og talmeinastöð) frv. 143/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[10:36]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir fyrirvara stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Hann lýtur fyrst og fremst að kostnaðarþátttöku sjúklinga í tengslum við breytingu á þessum lögum. Þeir sem sent hafa inn umsagnir um frv. mæla langflestir með þessum breytingum og telja þær til bóta. Ég styð að Heyrnar- og talmeinastöðin sé sett undir lög um heilbrigðisþjónustu en gjaldtökuákvæði laganna munu að mínu mati leiða til aukinna útgjalda fyrir sjúklinga. Við í stjórnarandstöðunni gerum fyrirvara við það. Hins vegar fer það allt eftir fjárveitingavaldinu að lokum, þ.e. hversu miklu fjármagni verður varið til þessa málaflokks, hversu þátttaka sjúklinganna í kostnaði heyrnartækja verður mikil. Það kemur ekki fram í lögunum heldur er það á ábyrgð hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórnar að sjá til að álögur á sjúklinga verði ekki auknar þrátt fyrir þessa breytingu.

Annað sem ég vil minnast á er þjónusta Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar við Vesturhlíðaskóla. Vesturhlíðaskóli er skóli heyrnarlausra. Þjónusta við skólann hefur verið með miklum ágætum og stöðin hefur sinnt heyrnarmælingum og ýmiss konar ráðgjafarþjónustu án þess að greiðsla hafi verið tekin fyrir. Það er tekið fram í nál. að við lítum svo á að þjónustan við skólann verði óbreytt. Ég treysti því að svo verði enda er mikilvægt að treysta samskiptin á milli Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar og skólans.

Þetta eru þeir fyrirvarar sem ég vil helst gera fyrir utan þann sem eftir stendur. Ég hefði viljað að málið fengi lengri tíma í vinnslu þannig að fara hefði mátt yfir fleiri atriði sem fram komu á fundi heilbr.- og trn., okkur sem í nefndinni störfum til glöggvunar og fyrir úrvinnsluna áður en við afgreiddum málið. Í heildina styðjum við málið með þeim breytingum sem lagðar hafa verið til.