Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 11:22:59 (3323)

2001-12-14 11:22:59# 127. lþ. 55.11 fundur 282. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (gjald fyrir rekstrarleyfi) frv. 153/2001, JB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[11:22]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Skattheimta og skattagleði ríkisstjórnarinnar á sér engin takmörk að því er virðist og víða er leitað fanga. Það frv. sem hér er og tekist hefur verið á um í samgn. er um hvernig skattleggja skuli rútubíla, hvernig skuli skattleggja flutningabíla og hvernig skuli skattleggja aðra sem eru með slíkan atvinnurekstur.

Engu að síður hafa orðið breytingar á frv. í meðförum nefndarinnar sem eru til bóta. Ég tel þannig jákvætt að það skyldu koma inn ákvæði sem tækju afdráttarlaust á lagastöðu skólabifreiða. Ég tel það líka mjög gott að gjaldheimtan var skorin niður í meðferð nefndarinnar á starfsleyfum almennt, en engu að síður er andi frv. aukin skattheimta, skattheimta sem þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. bitnar líka harðast á einyrkjum í greininni og mun áfram bitna harðast á þeim. Þess vegna, herra forseti, þó svo nokkrar breytingar hafi verið gerðar til batnaðar á frv. sem ber að fagna, þá munu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sitja hjá við afgreiðslu frv.