Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 11:58:45 (3327)

2001-12-14 11:58:45# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[11:58]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nefna fáein atriði. Flest hafa verið rædd hér í fyrri umræðum um málið og um fjárlögin einnig.

Varðandi þær hækkanir sem hér er um að ræða skiptir auðvitað miklu máli hvenær til þeirra kemur. Það er ekki þannig að menn séu með eitthvert galdraverk í því sambandi. Hækkun innritunargjalda í skóla var ákveðin, eins og menn muna, í tengslum við fjárlagagerðina og framlagningu þeirra þremur mánuðum áður en til þessa samkomulags dró.

Varðandi áfengisgjaldið, sem menn gera ráð fyrir að falli til um mitt ár, vænta menn þess að gengið hafi styrkst verulega þegar að því kemur. Þá eru forsendur til þess að áfengið, sem er auðvitað að mestu leyti innflutt, nánast alfarið, hafi lækkað. Þannig verður tæpast um raunhækkun á því að ræða. Menn verða að hafa það í huga.

Varðandi innritunargjöldin lagði, eins og kunnugt er, Þjóðhagsstofnun fram rangar tölur um það í efh.- og viðskn., sem voru reyndar síðar leiðréttar. En Hagstofan hefur ekki enn þá farið endanlega yfir það mál. Fjmrn. metur áhrifin ekki á 0,14 heldur 0,05. Mér er ekki kunnugt um að Seðlabankinn sé andvígur því mati og Hagstofan telur að ýmsir þættir inni í þessari mælingu núna geti hafa skekkt mat þeirra. Það er afar ólíklegt að gjaldtaka upp á 100 millj. kr. hækkun þýði 0,14 í vísitölu. Við metum hækkunina núna, eins og málin standa, upp á 0,05 og jafnframt er spurning hvenær hún kemur fram. Ég tel því að í sjálfu sér stefni ekkert í þessum aðgerðum samkomulaginu, sem við höfum nýverið staðið að, í voða.