Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 12:00:49 (3328)

2001-12-14 12:00:49# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[12:00]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst afar sérkennilegt að hæstv. forsrh. sé að andmæla þeim vísitöluútreikningum sem lagðir voru fram í efh.- og viðskn. Ég sé ekki að nein rök hafi komið fram sem hnekkja því sem Þjóðhagsstofnun setti fram og sem upplýst var þegar þeir útreikningar voru endurskoðaðir með nokkurri lækkun, þá var það endurskoðað í samráði við Hagstofuna.

Okkur hér inni er auðvitað öllum kunnugt um hvaða hug hæstv. forsrh. ber til Þjóðhagsstofnunar. Það er auðvitað mjög sérkennilegt að forsrh. þjóðarinnar skuli vantreysta þeirri ágætu stofnun, Þjóðhagsstofnun, með þeim hætti sem hér hefur ítrekað komið fram, enda eru deilur milli stjórnarflokkanna um það --- og næst ekki samstaða um, sem betur fer --- sem hæstv. forsrh. vill helst sjá, þ.e. að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður. Vona ég að framsóknarmenn standi þar fast í ístaðinu að koma í veg fyrir það að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður.

En þessir útreikningar voru bornir undir Hagstofuna og Hagstofan gerði engar athugasemdir við þá. Og meðan það hefur ekki verið gert standa auðvitað þessir útreikningar. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr hefur það þessi áhrif, 0,35% á vísitöluna, auk annarra hækkana sem ég hef hér nefnt eins og á afnotagjöld RÚV og mjólkurafurðir. Það er auðvitað áhyggjuefni inn í þá stöðu sem er núna.

Auðvitað vona allir, eins og hæstv. ráðherra nefnir, að gengið styrkist verulega en í þeirri stöðu sem gengið er núna og efnahagslífið, er óraunhæft að leggja einhverja ofurtrú á að gengið styrkist svo ekki þurfi ýmislegt annað að koma til, eins og aðhald ríkisstjórnarinnar varðandi gjaldskrárhækkanir.