Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 12:12:38 (3335)

2001-12-14 12:12:38# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[12:12]

Stefanía Óskarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur kom fram sú skoðun hennar eða grunsemdir að Sjálfstæðisflokknum væri það sérstakt keppikefli að leggja skólagjöld á stúdenta og seilast þannig í vasa þeirra. Ég vil endurtaka það sem hér hefur þegar komið fram í umræðunni að hækkun innritunargjalda í ríkisháskóla er þáttur í því að koma til móts við þann kostnað sem hlýst af að innrita stúdenta. En þar að auki er það til mikils hagræðis fyrir allt skólastarf að innritunargjald sé með þeim hætti að nemendur hugsi sig tvisvar um, þ.e. við vitum öll að það eru nemendur eða fólk sem innritar sig til náms en hefur ekki í huga að stunda það. Með því að hafa innritunargjaldið það hátt eða lágt að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það innritar sig, af því hlýst mikið hagræði. Við verðum að taka tillit til þess að þegar skólastarf er skipulagt verður að taka til stofur þar sem nemendur sitja og læra. Það þarf að skipuleggja dæmahópa, umræðuhópa o.s.frv.

Á síðustu árum hefur fjöldi þeirra sem þreytt hafa próf í Háskóla Íslands aukist mjög verulega. Og þar má bæta við að framlög til Háskóla Íslands og háskóla í landinu á síðustu árum hafa einnig aukist verulega.

Reyndar er það svo að við erum öll á því að jafnrétti til náms þarf að vera til staðar og það verður m.a. tryggt með því að hér sé til staðar öflugur lánasjóður og fjölbreytt námsúrval, og vilji stjórnvalda til þess að standa rausnarlega og vel að háskóla- og rannsóknastarfsemi. Það hefur núverandi ríkisstjórn gert.