Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 12:14:59 (3336)

2001-12-14 12:14:59# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[12:14]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst engu líkara en það sé keppikefli sjálfstæðismanna að leggja á aukin skólagjöld. Mér finnst ekkert benda til annars þegar t.d. hefur verið sýnt hér fram á aðrar leiðir sem gefa ríkissjóði sömu tekjur með því að hækka tóbaksgjaldið með minni verðlagsáhrifum en hæstv. ríkisstjórn vill ekki hlusta á það, þá er ekki skrýtið þó manni detti í hug að það sé keppikefli að leggja hér sem mest á námsmenn. En tilgangurinn með því, ég veit ekki hver hann er, herra forseti, hann er a.m.k. mjög sérstakur. Vegna þess að ég hélt að allir flokkar hefðu það að markmiði að styðja að jafnrétti til náms. En stjórnarflokkarnir hafa með gjörðum sínum sýnt fram á að það er ekki markmið þeirra að allir hafi jafnrétti til náms óháð efnahag eða búsetu.

Varðandi t.d. skrásetningargjöldin, þá kom fram hjá stúdentaráði að ef þau ættu að vera í einhverjum efnislegum tengslum við innritun nemenda og rekstur nemendaskrár, þá ætti gjaldið að vera 16.000 kr. en ekki 32.500. Það er því auðséð af þessu að slík gjaldtaka á nemendur er farin að standa undir að hluta til almennum rekstri á skólanum og það finnst mér óeðlilegt. Ég vil að nemendur og fjölskyldur sem hafa lítið milli handanna geti með sama hætti og aðrir sem meira hafa boðið börnum sínum upp á að geta stundað nám hér með eðlilegum hætti. En með stefnu stjórnarflokkanna og einkum stefnu Sjálfstfl., af því ég hef þá trú að framsóknarmenn hafi verið píndir inn í þessa gjaldtöku, er verið að hverfa frá því sem sátt hefur verið um í þjóðfélaginu að hér eigi að ríkja jafnrétti til náms.