Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 12:17:03 (3337)

2001-12-14 12:17:03# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[12:17]

Stefanía Óskarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist ljóst að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ber ekki mikið skynbragð á skólastarf yfir höfuð og áttar sig kannski ekki á því að við skipulagningu skólastarfs þarf að leggja margt af mörkum. Þar er innifalinn launakostnaður við það að skipuleggja skólastarf o.s.frv.

En ég ætla ekki að gera þetta að miklu umræðuefni þar sem ég hef lítinn tíma. Mig langar aðeins að benda á að í Kína þar sem kommúnistar hafa verið við völd frá 1948 þykir ekkert annað eðlilegt en að hafa skólagjöld. Og ég vil benda þeim vinstri mönnum á það hér sem halda því fram að hófleg innritunargjöld, 32.500 kr. sem lagt er til hér, koma ekki til með að torvelda nemendum að innrita sig til háskólanáms, síður en svo.

Ég bendi aftur á að fjöldi þreyttra eininga í Háskóla Íslands hefur aukist verulega á síðustu árum. Nemendum hefur þar fjölgað og framlög til háskólakennslu og rannsókna hafa einnig aukist á síðustu árum. Og ég þakka það góðri stjórn þessarar ríkisstjórnar og hæstv. menntmrh., Björns Bjarnasonar.