Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 12:19:30 (3339)

2001-12-14 12:19:30# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[12:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Síðan við vorum að ræða þetta mál hér í gær hefur það til tíðinda borið að nú liggur fyrir og er opinbert gjört samkomulag aðila vinnumarkaðarins, og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar því tengdar. Það er eðlilegt við þessa lokaumfjöllun um mál sem lúta að efnahagsmálum og ríkisfjármálum að koma aðeins inn á þetta atriði enda hafa efnisatriði frv. sem slíks verið nokkuð ítarlega rædd hér við 2. og 3. umr. og ég get að mestu leyti vísað til þess. Ég kem kannski lítillega í lokin að því sem hér hefur síðast orðið tilefni skoðanaskipta, skólagjöldum, og þeirri sérkennilegu röksemdafærslu talsmanna Sjálfstfl. að skólagjöld, há innritunargjöld og mikill efniskostnaður sem nemendur greiða í skólum, séu sérstaklega til þess fallin að efla námið.

Þá er náttúrlega eðlilegt að spyrja þessa hv. talsmenn Sjálfstfl.: Er ekki betra að hækka þetta enn þá meira? Verður þá ekki námið enn þá öflugra? Væri það ekki enn þá betra fyrir nemendur? Já, það er nefnilega það. Mér kemur ekki á óvart að sjálfstæðismenn kinki kolli í salnum. Þeir eru komnir með alveg skothelda formúlu í þessum efnum: Þeim mun hærri skólagjöld, þeim mun betra fyrir námið og þeim mun betra fyrir nemendur. Þetta er fína teorían. Ég óska sjálfstæðismönnum alveg sérstaklega til hamingju með þessa niðurstöðu sína. Það verður gaman að sjá framan í andlitið á vökustaurunum í Háskóla Íslands þegar þeir fara að bjóða fram með þessa stefnu Sjálfstfl. í veganesti.

Herra forseti. Að öðru leyti ætlaði ég að beina máli mínu sérstaklega að samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Það ber svo vel í veiði að hæstv. forsrh. er hér viðstaddur, og gjarnan mætti hæstv. fjmrh. vera það einnig enda á hann nokkurn hlut að máli.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að þegar ég fór að athuga þetta og lesa betur en ég hafði tíma til eða tækifæri til að gera síðdegis í gær eða gærkvöldi, en gerði í morgun, varð ég þeim mun langleitari sem leið á lesturinn. Út af fyrir sig er það ákaflega ánægjulegt, og aðilar vinnumarkaðarins, almenna verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins, eiga heiður skilinn fyrir að reyna með þessum hætti að ná tökum á ástandinu, ná tökum á verðlagsþróun í landinu og ná niður verðbólgu og skapa hér aftur traustari forsendur atvinnu- og efnahagslífs.

Það er hins vegar alveg ljóst, herra forseti, að þetta byggir á ýtrustu bjartsýni um að verðlagið náist hratt niður hér á allra næstu mánuðum. Til að þessar verðlagsforsendur náist í maímánuði má verðbólgan á næstu sex mánuðum ekki vera nema um þrír og hálfur af hundraði. Hún er núna um níu, milli átta og níu. Hvern mánuðinn á fætur öðrum eru verðlagshækkanir á bilinu 8--9% miðað við heilt ár. Ef skoðaðir eru síðustu fimm mánuðir eru það um 8,4%. Ef skoðaðir eru síðustu sjö mánuðir eru það rétt tæp 8%.

Eigi það að nást að verðbólgan, mæld frá desember/janúar til maí, sé ekki nema um þrír og hálfur af hundraði verður hún að lækka strax í byrjun næsta árs, í mánuðunum janúar og febrúar milli mánaða mælt, niður í u.þ.b. 4%. Varla verður hún nefnilega núll á síðari hluta tímabilsins.

Til að meðaltalið komist svona langt niður verður mikið að gerast og það hratt. Um leið og verðbólgan mælist 6% í janúar/febrúar er markmiðið hrunið. Nema hún mælist þá núll á síðari hluta tímabilsins. Svona mikla bjartsýni þarf til að trúa á að þetta geti tekist. Nú vonum við auðvitað öll að það gerist.

Yfirlýsingin eða samkomulagið í sjálfu sér er mikilvægt innlegg í það mál því það er viljayfirlýsing þessara aðila um að þeir vilja láta þetta takast. Og ég geri ekki lítið úr henni, sérstaklega sálrænu gildi hennar.

Hitt er svo annað mál að menn eru í raun og veru fyrst og fremst að treysta á að þetta gerist af sjálfu sér vegna þess að þær aðgerðir sem fólgnar eru í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins hafa sem slíkar ekki nein verðlagsáhrif, það er ljóst. Og þá kem ég að hinu sem er auðvitað enn þá merkilegra og það er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar --- í reynd er hún tóm. Í reynd er þetta ekki yfirlýsing. Í reynd er ríkisstjórnin ekki að lofa neinu nýju sem ekki hefur þegar legið fyrir og þá á ég fyrst og fremst við aðgerðir til að lækka verð á grænmeti sem voru í tilteknum farvegi. Þar voru komnar niðurstöður nefndar. Að hinu leytinu er þátttaka ríkisstjórnarinnar í þessum aðgerðum skilyrt því að verðlagsforsendurnar hafi komið inn aftur, og ekki verði sagt upp í maí. Það gildir um það fyrirheit að þá verði tryggingagjaldið e.t.v. lækkað, eða ekki hækkað eins mikið og ella stóð til. Þegar skoðaðar eru forsendur þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að hækka tryggingagjaldið var tilhlaup í því sem rúmar nokkurn veginn þennan afslátt af hækkuninni.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að höfundar þessarar yfirlýsingar eiga skilið hrós. Ég held að það sé að vísu búið að úthluta nóbelsverðlaunum fyrir bókmenntir í ár en það jaðrar við að hér væru kandídatar í þá samkeppni. Að setja saman þetta mikla yfirlýsingu í sex töluliðum um ekki neitt er auðvitað talsvert afrek.

Förum aðeins yfir þetta, herra forseti.

Í fyrsta töluliðnum er talað um stöðugleika í efnahagsmálum. Og hvað er sagt þar? Hver eru loforðin? Hverju er heitið?

Með leyfi forseta les ég upp úr Morgunblaðinu í dag:

,,Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sem meðal annars er lögð til grundvallar í fjárlögum ársins 2002`` --- sem búið er að afgreiða --- ,,miðar að því að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum, styrkja undirstöður atvinnulífsins og stuðla að bættum lífskjörum.`` --- Allt hljómar þetta vel. ,,Mikilvægt er að þessi sjónarmið séu einnig höfð að leiðarljósi við ákvarðanir í launa- og verðlagsmálum. Ríkisstjórnin lýsir stuðningi við þau markmið sem aðilar vinnumarkaðarins hafa náð samkomulagi um.`` Punktur. Endi.

Er í þessu efnislegt innlegg af hálfu ríkisstjórnar? Er ríkisstjórnin að heita einhverju sem slíku? Nei. Með góðum vilja má kannski segja að hún sé að heita því að spilla ekki fyrir.

Töluliður 2 er um aðhald í ríkisfjármálum. Er þar um eitthvað nýtt að ræða? Er ríkisstjórnin að lofa einhverju nýju eða sérstöku í því? Hefst nú lesturinn, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin telur afar mikilvægt að áfram verði fylgt aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum. Í fjárlögum fyrir árið 2002 er gert ráð fyrir sama afgangi og ákveðinn var í fjárlagafrumvarpinu þrátt fyrir að staða efnahagsmála hafi heldur færst til verri vegar að undanförnu.`` Þetta er kannski einhver merkasta sjálfsgagnrýni sem komið hefur frá hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Það er þó viðurkennt að þetta hafi heldur færst til verri vegar að undanförnu. ,,Með þessari ákvörðun eru send afar skýr skilaboð til allra aðila um að meginmarkmið stjórnvalda í efnahagsmálum nái fram að ganga. Áform ríkisstjórnarinnar um sölu ríkisfyrirtækja, uppbyggingu stóriðju og fyrirhugaðar breytingar á skattalegu umhverfi einstaklinga og atvinnulífs styðja þessi markmið.``

Er eitthvað nýtt í þessu? Er eitthvert efnislegt innlegg í þessu? Nei. Þetta er tómt. Þetta er bara það sama og búið var að tala um hér undanfarnar vikur og í þessu er engin efnisbreyting fólgin á einn eða neinn hátt. Það er verið að lýsa þegar afgreiddum hlutum eins og fjárlögunum eða áformum sem hafa legið fyrir.

Töluliður 3. Lánamál ríkissjóðs. Er eitthvað nýtt í því? Lesum það:

,,Stefnan í lánamálum ríkissjóðs tekur einkum mið af almennri þróun efnahagsmála,`` --- nema hvað --- ,,og mun taka tillit til markmiða samkomulags aðila vinnumarkaðarins, og stöðunni á innlendum lánamarkaði.`` Svo kemur, og það er nokkur snilld: ,,Þetta getur falið í sér`` --- ég endurtek, forseti: ,,Þetta getur falið í sér breytingar á lánasamsetningu ríkissjóðs án þess að um aukningu heildarskulda verði að ræða. Ríkissjóður hefur á þessu ári aukið lántökur sínar á erlendum markaði í því skyni að styðja við gengi krónunnar og hamla gegn verðbólgu. Á innlendum lánamarkaði verður áfram stefnt að því að styrkja vaxtamyndun og auka skilvirkni markaðarins. Á árinu 2002 verður þannig horft jafnt til áhrifa lánamála ríkissjóðs á gengi krónunnar og langtímaáhrifa á innlenda eftirspurn og verðbólgu.``

Ég segi aftur: Nema hvað? Þetta eru allt saman eðlileg viðmið sem menn hljóta að hafa til skoðunar þegar lánamálum ríkissjóðs er skipað. Og það eina nýja, ef menn vilja reyna að túlka það, er þá þetta orðalag: ,,Þetta getur falið í sér breytingar ...`` o.s.frv. Þar er væntanlega verið að vísa til þess að mögulega verði að einhverju leyti breytt pólitík ríkissjóðs í sambandi við fjármögnun, lántökur, og þá eru þar á bak við væntanlega hugmyndirnar um einhverja erlenda lántöku til að setja hér inn í hagkerfið. En orðalagið er þetta.

Í reynd er þannig ekkert í þessu. Þetta er tómt. Þessi töluliður, 3. töluliðurinn, er þannig líka tómur.

4. töluliður. Lækkun á grænmetisverði og verðkannanir.

Þar kemur kannski það eina sem er efnislegt, en það lá þegar fyrir. Það var þegar komin niðurstaða í nefnd sem hæstv. landbrh. hafði að störfum. Fyrir löngu síðan lágu fyrir fyrirheit um að reyna að lækka verð á grænmeti. Því hafði þegar verið lofað eins og menn vita og vegna þrýstings sem skall á mönnum hér fyrr á þessu ári. En þar er talað um að ríkisstjórnin muni í samræmi við tillögur nefndar fulltrúa stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og bænda beita sér fyrir því að tollar á grænmeti verði felldir niður á nokkrum mikilvægum afurðum og í öðrum tilvikum lækkaðir verulega. Í staðinn verða m.a. teknar upp beingreiðslur til framleiðenda o.s.frv.

[12:30]

Þarna er vitnað í tillögur sem m.a. hæstv. landbrh. var þegar búinn að lýsa sig jákvæðan gagnvart að yrði farið eftir. Hann hafði þá reyndar snúið við blaðinu frá því sem hann hafði sagt nokkrum vikum, eða einum, tveimur mánuðum áður, að hann teldi alls ekki koma til greina að fara þessa beingreiðsluleið.

Ég tel hins vegar skynsamlegt af hæstv. landbrh. að skipta um skoðun í þessu tilviki. Hann er ekki maður að minni fyrir það, enda hefur hann vonandi einhverja samstöðu á bak við sig þar sem um sameiginlega niðurstöðu þessarar nefndar var að ræða. En þetta er bara sett inn vegna þess að svo heppilega stóð á að frá þessu hafði verið gengið í nefndarstarfinu skömmu áður.

5. töluliður er um eflingu starfsfræðslu í atvinnulífinu. Það má reyna að lesa eitthvað efnislegt út úr honum. Því ber að sjálfsögðu að fagna ef þar stendur til að gera átak sem munar um. En hverju er heitið þar, hverju er lofað? Er það nýtt, er það efnislegt og áþreifanlegt? Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin mun í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins beita sér fyrir endurskipulagningu á starfsfræðslu í atvinnulífinu. Markmiðið er bæði að auka framboð á starfsfræðslu og tryggja starfsemina. Samhliða því verði þessum málum komið í fastari skorður með skilvirkari samvinnu þeirra aðila sem sinna þessum verkefnum.``

Ágætis markmið og hið besta mál, en er þetta efnislegt innlegg? Er þetta kvarðað með einhverjum hætti? Lofar ríkisstjórnin einhverjum tilteknum fjármunum eða öðru af þeim toga í þetta? Nei, þetta er að sjálfsögðu tómt og hefur ekki gildi nema sem jákvæð og ágæt viljayfirlýsing. Hún er vissulega góð sem slík. En það ætti í sjálfu sér ekki að þurfa neitt sérstakt til til að ríkisvald og aðilar vinnumarkaðarins hafi samstarf og taki höndum saman um þessi mál. Það er bara eðlilegasti hlutur í heimi. Í reynd er þetta eins og að taka fram sjálfsagða hluti.

Þá er eftir 6. töluliðurinn, um lækkun tryggingagjalds, og þá mundi maður halda að þar væri það stóra á ferðinni. Út af fyrir sig er það svo en þar tekur ríkisstjórnin enga áhættu. Hún bíður átekta. Það verður ekki fyrr en í maí þegar í ljós kemur hvort verðlagsforsendurnar halda, þessar afar bjartsýnu forsendur um að verðbólgan náist hér niður í 3,5% að meðaltali næstu sex mánuði og 3% innan ársins. Ríkisstjórnin slær pínulítið af fyrirhugaðri hækkun tryggingagjalds sem í reynd er ekki meiri en svo að það er svigrúm fyrir það í ákvörðuninni eins og hún lá fyrir. Miðað við þær upphæðir sem nefndar voru í forsendum málsins var þar tilhlaup m.a. vegna þess að ríkisvaldið er sjálft greiðandi tryggingagjalds sem vinnuveitandi.

Þannig, herra forseti, er þetta mikil snilld, að tölusetja þetta hér í sex liðum, þar af eru fjórir liðir í raun og veru tómir, sá fimmti inniheldur atriði sem búið var að ganga frá áður og sá sjötti hljóðar upp á að bíða átekta og sjá til og ef allt gengur upp þá skal ríkisstjórnin koma að málinu og slá örlítið af hækkun tryggingagjaldsins. Svona er þetta.

Hvað hefur þá gerst hér í reynd, herra forseti? Jú, það má segja að það sé mikil snilld hjá ríkisstjórninni að fá að vera ókeypis með í þessu máli. Hún fær að vera áhorfandi að málinu og lofar því helst að spilla ekki fyrir. Að öðru leyti er þetta einhliða ákvörðun aðila vinnumarkaðarins og henni ber að fagna. Þeir hefðu svo sem alveg getað sleppt því að hafa ríkisstjórnina með. Hún lofar ekki nokkrum sköpuðum hlut. Ekki neinu. En sjálfsagt hafa menn talið það sálrænt sterkara að leyfa ríkisstjórninni að vera með, að vera áhorfanda að þessu máli. Út af fyrir sig býst ég við að það sé heldur léttara fyrir aðila vinnumarkaðarins að selja umbjóðendum sínum niðurstöðu málsins með því að ríkisstjórnin fái að vera þar áhorfandi, standa til hliðar og horfa á hvernig málin gangi fram í maí og koma mögulega að borðinu ef vel tekst til.

Svona er þetta, herra forseti, þegar farið er yfir þetta efnislega. Eftir stendur fyrst og fremst að sem slík er þessi niðurstaða málsins jákvæð vegna hinna sálrænu áhrifa sem hún hefur. Það er að sjálfsögðu innlegg í ástandið hér á næstu mánuðum að kjarasamningar losna ekki í febrúar. Ég geri að sjálfsögðu ekki lítið úr því. Í því er í raun fólgið hið eiginlega inntak þessa máls. Ekkert annað hefur gerst en það að menn hafa ákveðið að bíða fram í maí og segja ekki samningunum upp núna í febrúar, sem borðleggjandi er að verðlagsforsendur hefðu ella mælt með.

Í öðru lagi, herra forseti, aðeins um ástandið í þjóðfélaginu á þessum tímamótum, þegar við erum að ljúka störfum Alþingis á því herrans ári 2001 og menn fara að huga að jólabakstrinum. Hvernig er það? Það var afar athyglisvert að í morgun birtir hið merka blað, Morgunblaðið, leiðara sem að hluta fjallar um þetta mál. Í tvískiptum leiðara Morgunblaðsins í dag er neðri hlutinn undir fyrirsögninni ,,Fátækt í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar``. Reyndar er efri hluti leiðarans líka merkilegur. Þar er fjallað um áhættusama uppsögn ABM-sáttmálans. Og það merkilega gerist að þar vottar fyrir þó nokkurri gagnrýni hjá Morgunblaðinu á ákvörðun bandarískra stjórnvalda í því efni. Í neðri hluta leiðarans má auðvitað líka segja að votti fyrir ákveðinni gagnrýni á íslensk stjórnvöld, á ríkisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar. Það er ekki á hverjum degi sem sjálft Morgunblaðið gagnrýnir þessar tvær máttarstoðir Vesturlanda, Bandaríkjastjórn og Davíð Oddsson. En það gerist í dag. Þetta er auðvitað merkur dagur í sögu stjórnmálanna, að Mogginn skuli gerast svona djarfur að leyfa sér að gagnrýna báðar máttarstoðirnar.

Morgunblaðið segir ágætlega frá því að örtröðin hafi aukist hjá Mæðrastyrksnefnd. Þar er vitnað í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær, þ.e. fimmtudag, og er unnin af einum blaðamanni Morgunblaðsins, Sunnu Ósk Logadóttur. Sú ágæta blaðakona gekk til liðs við starfsfólk Mæðrastyrksnefndar einn dag í vikunni sem leið og kynntist af eigin raun því sem sú nefnd sinnir. Þar er lýst fátækt sem Morgunblaðið telur ótrúlegt að finnist í velferðarríkinu Íslandi í uppahfi 21. aldar. Með leyfi forseta, er kannski rétt að lesa þetta upp. Það á alveg erindi hér inn í þingtíðindin:

,,,,Örtröðin eykst hjá Mæðrastyrksnefnd fyrir hátíðarnar þar sem konur og karlar vinna í sjálfboðavinnu starf í þágu fátækra á Íslandi.``

Þetta eru upphafsorð greinar sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Eflaust hefur mörgum brugðið í brún við að lesa lýsingar blaðamannsins, Sunnu Óskar Logadóttur, sem gekk til liðs við starfsfólk Mæðrastyrksnefndar einn dag í vikunni.

Að fátækt sem lýst er í greininni skuli finnast í velferðarríkinu Íslandi í upphafi 21. aldar er ótrúlegt og engum til sóma. Íslendingar þekkja úr sögu landsins að allt frá landnámi barðist hluti þjóðarinnar við sult og seyru fram á tuttugustu öldina. Þó svo aðstæður séu aðrar í dag er sárt til þess að hugsa að enn í dag þurfi talsverður hópur að leita á náðir hjálparsamtaka til þess að geta fætt og klætt sig og sína.

Það starf sem starfsfólk Mæðrastyrksnefndar sem og annarra hjálparsamtaka vinnur í sjálfboðavinnu er aðdáunarvert og ánægjulegt að vita af einstaklingum sem láta sig velferð annarra varða. Ósjálfrátt eykur það trú á manninn að sjá slíkt starf unnið af jafnmikilli óeigingirni og raun ber vitni.

En til þess að hjálparsamtök geti veitt þá aðstoð sem greinilega er þörf á þurfa landsmenn að leggja sitt af mörkum til að þeir sem minna megi sín geti notið jólahátíðarinnar líkt og flestum þykir sjálfsagt. Mörg fyrirtæki og einstaklingar veita hjálparsamtökum liðsinni með ýmsum hætti og er það af hinu góða en jafnframt á það að vera íslensku þjóðinni metnaðarmál að tryggja að enginn landsmaður þurfi að leita á náðir hjálparsamtaka vegna fátæktar.`` --- Heyr fyrir þessu.

,,Því eins og verslunareigandi í miðbænum sem hefur aðstoðað í Mæðrastyrksnefnd fyrir jólin undanfarin ár segir í Morgunblaðinu í gær: ,,Það eru þung skrefin fyrir þessar konur hingað inn.````

Ég tek undir þessi orð Morgunblaðsins. Það eina sem mér finnst þarna upp á vanta er að kveðið sé skýrar að orði um sameiginlega ábyrgð okkar á því að útrýma fátækt úr þjóðfélaginu. Hvernig gerum við það, herra forseti? Við gerum það með öflugu samábyrgu velferðarkerfi. Það er til þess. Ég tel auðvitað að Morgunblaðið sé óbeint, án þess að segja það, að skírskota til þess. Slíkt verður aldrei hægt að leggja eingöngu á herðar hjálparsamtaka eða einstaklinga í samfélaginu. Það fyrirkomulag er ekki gott. Það er þekkt í ákveðnum löndum og ég held að flestir séu sammála um, a.m.k. þeir sem á Norðurlöndunum búa, að við viljum ekki skipti á okkar samábyrga opinbera velferðarkerfi, öryggisnetinu okkar í samfélaginu, og hinu þar sem kirkjan eða aðrar hjálparstofnanir halda fátæklingum lifandi með súpugjöfum. Það er ekki fyrirkomulagið sem við höfum valið okkur og vonandi viljum við ekki slíkt fyrirkomulag.

Hví er ég að gera þetta að umtalsefni hér, herra forseti? Jú, vegna þess að við fjárlagaafgreiðsluna, í þessum bandormi um ríkisfjármál, erum við í og með að takast á um þessa hluti. Ég tel að hæstv. ríkisstjórn ætti að líta í eigin barm og m.a. spyrja sig: Bíddu, er ekki eitthvað að? Af hverju er ástandið þannig að sívaxandi fjöldi fátæklinga leitar á náðir Mæðrastyrksnefndar eða annarra hjálparsamtaka til þess að geta haldið jólin? Eru þá ekki einhvers staðar göt í því tryggingakerfi sem við héldum að við hefðum til að fyrirbyggja slíka hluti? Staðreyndin er að þannig er það.

Við vitum hverjir það eru upp til hópa sem þurfa að stíga þessi þungu spor. Það eru einstæðar mæður. Það eru heimilislausir. Það eru húsnæðislausir öryrkjar og aðrir slíkir. Þetta liggur fyrir í könnunum. Það er til sundurgreining á því hverjir þetta eru, hverjir þurfa að leita aðstoðar félagsstofnana sveitarfélaga. Hverjir eru heimilislausir svo tugum ef ekki hundruðum skiptir hér í Reykjavík? Það eru m.a. geðfatlaðir sem eiga í engin hús að venda. Það er ljóst að 2/3, jafnvel 3/4 einstæðra mæðra í Reykjavík þurfa á einhvern hátt á aðstoð að halda fyrir utan það sem hið opinbera velferðarkerfi býður upp á. Þær leita til Félagsstofnunar eða hjálparsamtaka.

Þetta eigum við að láta okkur að kenningu verða. Það er dapurlegt, herra forseti, til þess að vita að á sama tíma og almenn velmegun hefur yfirleitt farið vaxandi, t.d. á Norðurlöndunum, gerist það líka á hinum endanum að fátækt vex. Þetta sýna kannanir. Það er að vísu svokölluð relatíf eða hlutfallsleg fátækt og það er erfitt að mæla þetta öðruvísi en að bera stöðu þeirra lakast settu saman við meðaltalið í samfélaginu. Þar með er hún um leið borin saman við framfærslukostnaðinn í viðkomandi landi. Það kemur í ljós, hæstv. forsrh., að sérstaklega á Íslandi og í Noregi, þessum tveimur ríkustu Norðurlandanna, er þetta að gerast. Aðstöðumunurinn vex hratt í samfélaginu. Almenn velmegun hefur vaxið, sérstaklega hafa kjör þeirra sem mest hafa batnað, en fátæktin vex líka á hinum endanum. (Gripið fram í.) Þessi hlutfallslega fátækt.

Herra forseti. Það er bara þannig að þetta er raunveruleg fátækt. Lífskjör manna og aðstæður verður að setja í samhengi við það þjóðfélag sem þeir búa í. Það er ekki hægt að fara í þetta á hinn veginn, að segja: Já, en þetta fólk er ekki fátækt ef við berum það saman við þá sem búa í Afríku eða einhvers staðar annars staðar vegna þess að þetta fólk býr á Íslandi. Það á ekki annan kost en að greiða húsnæðiskostnað og matvælaverð sem er hér en ekki einhvers staðar annars staðar. Þetta er raunveruleg fátækt, hæstv. forsrh. Það er það sem Morgunblaðið er að segja okkur með heimsókn sinni til Mæðrastyrksnefndar. (Forsrh.: Ekki þessa reikningsaðferð.) Og það á að vera okkur öllum, herra forseti, mikið áhyggjuefni. Það eiga að vera okkur mikil vonbrigði og við eigum að reyna að taka höndum saman um að bæta úr þessu ástandi. Það gerum við með því að ríða betur öryggisnetið sem á að vera til staðar í hinu samábyrga, opinbera velferðarkerfi fyrir þá sem verða fyrir áföllum í lífinu og þurfa á aðstoð og stuðningi að halda.

[12:45]

Herra forseti. Það er dapurlegt að þegar sjálf ljósahátíðin nálgast skuli einn höfuðfjölmiðill landsins --- ábyggilega ekki að ástæðulausu. Morgunblaðið birtir þennan leiðara örugglega ekki í hugsunarleysi --- senda okkur mjög mikilvæga aðvörun, mikilvæg skilaboð til okkar allra og auðvitað ekki síst ráðamannanna sem fara með völdin í landinu þessa dagana.

Um þennan bandorm, herra forseti, hefur síðan eins og ég sagði í upphafi máls míns verið fjallað svo rækilega að ég sé ekki ástæðu til að fara þar ofan í einstök efnisatriði heldur vísa til þess sem áður hefur verið sagt og áður hefur komið fram. Ég vil bara að lokum aftur nefna það sem hér bar á góma í orðaskiptum fyrr í umræðunni milli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. menntmrh. og reyndar einnig hv. þm. Stefaníu Óskarsdóttur sem talaði áðan. Þar fannst mér í raun og veru, svo maður tali af fullri alvöru um það grafalvarlega mál, vera komið út á ákaflegan hálan ís í röksemdafærslu. Það var ótrúlegt að heyra hæstv. menntmrh., með stuðningi frá hv. þm. Sjálfstfl., staffírugan halda því hér fram að í raun væri þetta allt af hinu góða, að hækka innritunargjöldin og hækka efniskostnaðinn því það mundi efla skólastarfið. Við áttum eiginlega að trúa því líka, ef ég tók rétt eftir, að þetta væri gott fyrir námsmennina, þeir hefðu alveg sérstaklega gott af því að borga þarna 50 þús. kr. Þetta væri bara gott fyrir alla.

Hvar lenda menn með þessum hugsunarhætti? Hvenær verða skólagjöldin orðin nógu há? Auðvitað er algjörlega ljóst, herra forseti, hvað þarna er að gerast. Sjálfstfl. vinnur að því baki brotnu að koma á skólagjöldum og einkavæða skólakerfið. Hann tekur það í áföngum, gerir tilraunir hér og þar, í Hafnarfirði í dag, einhvers staðar annars staðar á morgun. Svona er þetta. Og dekur ríkisstjórnarinnar við einkaskólana er ljósasta dæmið um hvað er á ferðinni. Það bítur náttúrlega höfuðið af skömminni að samkvæmt reikniverkinu sem hæstv. menntmrh. hefur búið sér til, sem bitnar sérstaklega harkalega á opinberu skólunum og skólunum á landsbyggðinni, refsar þessi hækkun í reynd opinberu skólunum en einkaskólarnir hafa allt sitt á þurru. Þeir fá sömu framlög og í reynd hærri en opinberu skólarnir, t.d. opinberu háskólarnir, og taka svo til viðbótar hundruð þúsunda í skólagjöld. Þetta er óþolandi, herra forseti. Engin þjóð nema Íslendingar undir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og hæstv. menntmrh. Björns Bjarnasonar lætur sér detta í hug að hafa þetta svona. Alls staðar annars staðar í löndunum í kringum okkur er þetta gert öðruvísi þannig að framlög til einkaskóla sem taka há skólagjöld eru þá dregin niður að sama skapi frá hinu opinbera þannig að aðstöðunni milli þeirra er ekki raskað og þetta er haft sem hlutlausast í þessum efnum. Enda er það algjörlega augljóst að ef menn gera það ekki eru þeir við smátt og smátt að leggja hið opinbera skólakerfi niður eða gera það annars flokks og ætla að veðja á einkaskólana alfarið í framtíðinni. Þessari stefnu, herra forseti, mótmæli ég mjög harðlega og það er mál til komið að þjóðin átti sig á því hvað ríkisstjórnin er að gera í þessum efnum undir forustu Björns Bjarnasonar. Svo eru menn að vorkenna framsóknarmönnum eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Það var það eina sem ég gagnrýni í annars ágætri ræðu hv. þm. Það er engin ástæða til að vorkenna framsóknarmönnum. Þeir vita vel hvað þeir eru að gera. Þeir hafa látið troða því ofan í kokið á sér að hækka skólagjöldin umfram það sem þeir þóttust vera tilbúnir til samanber yfirlýsingar þingflokksformanns þeirra og þeir eiga ekkert annað en skömm skilda fyrir það.