Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 12:48:45 (3340)

2001-12-14 12:48:45# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[12:48]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða bandorminn sem slíkan eða efni hans að neinu leyti við lok þessa máls vegna þess að, eins og ég hef áður sagt, er hann margræddur hér og ekkert er óljóst á milli manna þó að skoðanir séu enn þá skiptar. Ég hygg að umræður til lengri eða skemmri tíma muni ekki breyta því á hvorugan veginn, hvorki hjá stjórnarliðum né stjórnarandstöðu. Það er allt saman þekkt.

Hins vegar vil ég víkja aðeins að því sem hv. 3. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon ræddi áðan til hliðar við málið, en sjálfsagt er að ræða það undir þessum lið, þ.e. það samkomulag sem varð á milli aðila á vinnumarkaði með ákveðnum atbeina ríkisstjórnarinnar og vissri aðkomu Seðlabankans. Það má alveg staðfesta það sem fram kom í orðum hv. þm. að yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar eru ekki afgerandi loforð um stóraukin útgjöld á einhverjum sviðum. Það er svo sannarlega ekki. Það stóð aldrei til, enda í aðdraganda málsins, meðan á viðræðum stóð við aðila vinnumarkaðarins, var algjörlega ljóst að allir töldu nauðsynlegt að ríkissjóður yrði rekinn með afgangi, því markmiði mætti ekki breyta þannig að yfirlýsingar um stóraukin útgjöld ríkissjóðs sem stundum hafa komið til, eins og menn vita, við gerð kjarasamninga til að liðka til við gerð þeirra, áttu ekki við við þær aðstæður sem hérna voru á ferðinni. Þó segja megi og viðurkenna að sumt sem orðað er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sé á ríkisstjórnarlegu kansellímáli vita aðilar vinnumarkaðarins sem hafa tekið þátt í þessum viðræðum hvað í því felst og vita hvaða sjónarmið búa að baki hjá ríkisstjórninni og eru sáttir við þau sjónarmið. Það er ekkert launungarmál að aðilar vinnumarkaðarins lásu þennan texta vandlega yfir áður en hann var gefinn út. Þó að auðvitað beri ríkisstjórnin á honum ábyrgð lásu þeir hann vandlega yfir áður en hann var gefinn út til að hann væri í takt við það sem verið var að gera og jafnframt að menn teldu að sú yfirlýsing stuðlaði með öðru að þeirri niðurstöðu sem þarna varð.

Ég tek undir með hv. þm. að ég tel afar þýðingarmikið í sjálfu sér, eitt og sér, að tekin var ákvörðun um að fresta mælingunni frá 1. febrúar til 1. maí vegna þess að febrúarmælingin fór fram á tíma sem var áður en til nokkurra samninga var gengið, tíma sem samkvæmt verðlagsmælingum lá fyrir að það mundi verða erfitt. Hins vegar lá þegar fyrir, til að mynda í spá Seðlabankans, að tíminn í kringum 1. maí/júní var allt annar tími og þá væru miklu meiri líkur á að staðreyndir sem við höfðum verið að spá væru þá gengnar fram, á þeim tíma, og menn sæju þá svart á hvítu að um hefði verið að ræða verðbólguskot eins og við höfðum alltaf haldið fram, þ.e. að það tæki tíma til að ganga fram.

Hv. þm. nefndi verðbólguþróunina og fór reyndar annars vegar fimm mánuði, hygg ég, og hins vegar sjö mánuði fram í tímann. Ef hann hefði farið aðeins nær okkar í tímanum væri verðbólgan ekki sú sem hann er að nefna, þ.e. ekki á bilinu 8--9%. Ef menn horfa til síðasta mánaðar og síðustu mánaða eru menn á bilinu 5--6% staddir í tímanum í verðbólgunni. Það er alltaf varasamt að framreikna einn og einn mánuð og tvo og þrjá mánuði. Ég kannast við það. Engu að síður erum við stödd þar á tímanum.

Ég vil líka taka fram að auðvitað var ekki farið á bak við neinn varðandi viss atriði sem þegar eru þekkt eins og varðandi hækkun mjólkurinnar og eins varðandi 7% hækkun á afnotagjöldum Ríkisútvarpsins. Þessir þættir lágu fyrir og aðilar vinnumarkaðarins vissu að þeir mundu ganga yfir. 7% hækkun afnotagjalds Ríkisútvarpsins þýðir 0,05% hækkun á vísitölu. Ef menn skoða nákvæmlega þennan lið, hækkun á afnotagjöldum Ríkisútvarpsins um 7% sem gengur nánast yfir alla þjóðina --- hún vegur 0,05 --- sjá menn strax í hendi sér að talan 0,14 varðandi skólagjöldin upp á 100 millj. fær ekki staðist. Bara sá samanburður einn segir okkur það þannig að hugmyndir fjmrn. í þeim efnum, að hún muni þýða 0,05% en ekki um 0,14% eru augljóslega réttari en aðrar ágiskanir sem menn höfðu fengið um þetta fyrir fram.

Mjólkin mun auðvitað þýða töluverða hækkun þegar hún kemur sem eins skiptis hækkun um áramótin. Það hefur legið fyrir. En það var reyndar þannig að forráðamenn kúabænda gerðu sitt til að taka þátt í þessum efnum vegna þess að það hefði alveg mátt búast við því að sú hækkun gengi fyrr fram, til að mynda 1. nóvember en ekki 1. janúar. Menn eru því víðs vegar um völlinn að leitast við að stuðla að því að þessi þróun verði jákvæðari. Ég held að þessir samningar og þessi samstaða sem um þetta hefur náðst muni ein og sér hafa þau áhrif úti í þjóðfélaginu --- af því að menn eru að horfa á þessa tilteknu tölu --- að allir aðilar munu nú hugsa sinn gang mjög rækilega áður en þeir hleypa verðlagi glannalega fram eða kannski af meira umhyggjuleysi en þeir hefðu ella gert.

Ég tel því afar líklegt, eins og ég sagði í gær, að með þessum hætti muni þessi tala nást. Ég tel því afar líklegt. Það er ekki víst, en ég tel það afar líklegt.

Ég vil aðeins nefna annað vegna þess að hv. þm. orðaði það einhvern veginn svipað og fjölmiðlar, en þeir sögðu sem svo að augljóst væri að samningum yrði sagt upp. Þetta er örlítill misskilningur, þó að við hefðum ekki farið þá sátt að færa það til. 1. febrúar var orðið augljóst að þá yrðu forsendur til þess að menn hefðu rétt til að segja upp kjarasamningum. En það var ekki endilega ljóst að menn hefðu gert það. Það lá ekki fyrir. Það urðu menn að vega og meta, hvert félag fyrir sig og launþegahreyfingin sameiginlega, hvort það væri haldbesti kosturinn eða ekki, það væri ekki sjálfkrafa uppsögn. Reyndar er það svo að 1. maí-talan sem kemur til skoðunar þýðir ekki sjálfkrafa uppsögn. Það er misskilningur. Á hinn bóginn þýðir hún að menn hafa leyfi til þess, á þeim tíma, eins og þeir mundu ella hafa haft í febrúar, að segja samningunum upp. Þá verða þeir að vega og meta hvernig aðstaðan er, hvort nánast hafi engu munað að þetta héldist o.s.frv. hver framhaldsþróunin er líkleg til að vera o.s.frv. Ég vona að til slíkra vangaveltna þurfi alls ekki að koma af því að ég tel að mjög vaxandi líkur séu á því að vegna þróunar gengis, ekki síst, og vegna almennrar varfærni sem menn munu sýna, muni þessi tala halda.