Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 13:33:40 (3346)

2001-12-14 13:33:40# 127. lþ. 55.14 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það frv. ríkisstjórnarinnar sem við ræðum nú fjallar um lítils háttar breytingar á stöðu eins bátaflokks, krókaaflamarksbáta, þar sem aukategundir voru kvótasettar hjá í janúar 1999 með lögum. Kvótasetningin, herra forseti, er þannig löngu ákveðin, hún hefur legið fyrir í næstum þrjú ár en kom til framkvæmda, eins og ég sagði, í haust.

Það er ekki vonum seinna að fyrir jól er þingið farið að takast á við leiðréttingar og lagfæringar. Þetta er því miður allt of dæmigert fyrir það hvernig tekið er á þessum málum. Menn setja lög, lagfæra, breyta, taka upp aftur. Það er sá vani sem hv. alþingismenn hafa orðið að temja sér hvað varðar umgengnina um starfsumhverfi þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Og það er ekki allt búið enn, herra forseti, því að meiri hlutinn lofar frv. um lagfæringar á stöðu svokallaðra dagabáta fyrir 1. febrúar og svo auðvitað við heildarendurskoðunina einnig, sem ef marka má orð sjútvrh. verður komin í þingmál og á borð alþingismanna eftir jólahlé. Í öllu falli verður ekkert lát á breytingunum nú frekar en endranær.

Þetta er vítahringur, herra forseti, vegna þess að í endalausri samanburðarfræðinni þarf einlægt að laga til hjá hinum þegar aðgerð hjá einum hópnum er lokið. Alltaf verða einhverjir illa úti, einstaklingar, útgerðir eða byggðarlög. Og á meðan kerfið er skömmtunarkerfi stjórnmálamanna rennur þeim sem eru í hlutverki kaupfélagsstjóranna blóðið til skyldunnar að reyna að laga til eftir sig aftur og aftur.

Þó að sjávarútvegurinn sé undirstöðuatvinnugrein vill meiri hlutinn fremur hafa það svona og halda þannig kerfinu alltaf opnu, stundum er það kallað að reyna að róa fyrir hverja vík. En ekki má leyfa markaðnum að ráða þannig að atgervi manna eða nálægð við miðin fái notið sín. Það gera tillögur okkar jafnaðarmanna í sjávarútvegsmálum, og þær munu, herra forseti, vinna á, tillögur um að fyrna veiðiréttinn á tilteknu tímabili, bjóða síðan veiðiheimildir upp eins og var meginniðurstaða auðlindanefndar. Það mun verða, herra forseti, þegar menn þola, eða á ég kannski að segja þora, að horfa framan í þá staðreynd að fiskstofnarnir eru takmörkuð auðlind. Það komast ekki allir að sem vilja, ekki er hægt að vera góður við alla, það er ekki nægur kvóti handa öllum skipum, ekki er nægur afli handa öllum fiskvinnslum. Tæknin hefur auk þess í raun útrýmt fjölda starfa í sjávarútvegi á undanförnum árum og sú þróun er ekkert að stöðvast núna. Möguleikarnir fyrir landsbyggðina felast líka í því að þessar staðreyndir séu viðurkenndar og brugðist við í takt við það og hlúð betur að því sem horfir líka til framtíðar.

Herra forseti. Versta umbunin í frv. ríkisstjórnarinnar hvað varðar krókaaflamarksbátana er í 3. gr. þar sem lagt er upp með þriðju tilraun byggðakvóta og nú er það sértækur krókaaflamarksbyggðakvóti fyrir sérstaka krókaaflamarksbáta sem koma frá sérstökum byggðum. Það er spá mín, herra forseti, að sú úthlutun sem nú bíður hæstv. sjútvrh. á grundvelli þessarar lagagreinar muni hvorki auka orðstír hans né traust á því lagaumhverfi sem greinin býr við.

Það eina sem skiptir máli til framtíðar í frv., herra forseti, og það eina sem jafnaðarmenn vilja bera ábyrgð á við þessa lagasetningu er það ákvæði sem nú er orðið bráðabirgðaákvæði um meðaflann. Þórólfur Matthíasson, dósent í hagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að verðmæti brott\-kast\-aðs botnfisksafla, væri hann fluttur í land, gæti numið á bilinu 1,5--4,5 milljörðum kr. Hann styðst þá við þær tölur sem koma út úr könnun Gallups meðal sjómanna á umfangi brottkasts og tölum svokallaðrar brottkastsnefndar sjútvrn. en þær tölur voru á bilinu 18--36 þús. tonn hjá Gallup en hjá brottkastsnefndinni 4.500 tonn af ýsu og 4--16 þús. tonn af þorski hjá brottkastsnefndinni. Tap þjóðarbúsins vegna brottkastaðs botnfisksafla gæti því samkvæmt þessu numið 1,5--6 milljörðum kr. á ári, eða um 0,2--0,85% af þjóðarframleiðslu.

Leiði sú breyting sem hér hefur orðið samkomulag um að gera til þess að sá afli komi að landi að stórum hluta sem ella hefði verið varpað fyrir borð, er hér á ferðinni stóraðgerð til styrkingar fiskmörkuðum og síðan fiskvinnslunni í landinu, ekki síst þeirrar vinnslu sem framsæknust hefur verið varðandi þróun og markaðsmál. Þar eiga margir vinningsmöguleika sem nýtast munu allri þjóðinni.

Herra forseti. Sjávarútvegurinn er mikilvægur atvinnuvegur og það er mikilvægt fyrir okkur að við aukum útflutning. Vonandi gerist það í kjölfar þessa, en Þórólfur Matthíasson, sem áður var vitnað til, tekur til samanburðar, og það er athyglisvert, að virkjana- og álversframkvæmdir á Austurlandi séu taldar auka þjóðarframleiðsluna um 0,4--1,3% til langframa. Ég nefni þetta nú vegna þess að þar þykjast menn sjá framkvæmdir sem eiga að bjarga býsna miklu ef marka má þá sem mestan fara, en hér erum við hins vegar að líkindum, ef vel tekst til, að samþykkja breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða sem gæti orðið hálfdrættingur á við hinar miklu framkvæmdir þar eystra. Hér er því ekkert smámál á ferðinni, herra forseti, og ekkert smámál að vel takist til. Vel heppnað átak til að koma í veg fyrir brottkast gæti því haft mikil langtímaáhrif á þjóðartekjur, jafnvel svipuð áhrif og menn eru að tala um vegna virkjana og álversframkvæmda. Við bindum vonir við að það sem verið er að gera hér með öðru því sem gert er, að um vel heppnað átak verði að ræða.

Herra forseti. Þessi lagasetning verður eitt síðustu verkanna hér á Alþingi fyrir jól. Það verður líka eitt fyrstu verkanna eftir jól að takast á við frumvörp ríkisstjórnarinnar þar sem enn verður haldið áfram, hringekjan mun ekki stöðvast, enn munu finnast víkur til að róa fyrir. Einhverjir munu segja: Það er ekki skrýtið þó svo mikilvægur atvinnuvegur eins og sjávarútvegurinn komi nokkrum sinnum við á Alþingi á þingvetri. En ég segi, herra forseti: Ef menn bæru virðingu fyrir mikilvægi atvinnuvegarins þætti þeim það eftirsóknarverðara og ynnu þá væntanlega að því að starfsumhverfið væri stöðugra og leikreglur almennari. Ef Alþingi gengi þannig frá málum væri atvinnugreininni sýndur sá sómi sem við flest teljum að hún eigi skilið. Vonandi kemur sú tíð, herra forseti, fyrr en síðar.

Aðeins rétt hér að lokum: Auðlindanefndin var kosin af Alþingi undir vor 1998 en ekki 1999 eins og fram kom hjá hv. þm. Sverri Hermannssyni. Aðrar útleggingar hans á niðurstöðum nefndarinnar eða einstakra nefndarmanna eru svona álíka nákvæmar.