Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 13:52:57 (3348)

2001-12-14 13:52:57# 127. lþ. 55.14 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, Frsm. 1. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Hvað er að gerast í stærsta deilumáli íslensku þjóðarinnar? Alþingi Íslendinga er að ræða málið. Hvað er verið að ræða um? Það er verið að ræða um smábáta. Þannig hafa menn staðið í sölum Alþingis í gegnum tíðina í þessu mikla deilumáli um stjórn fiskveiða og oft á tíðum eytt mestum tíma í að ræða um smábáta og lagfæringar á fiskveiðistjórnarkerfinu vegna smábáta. Hvers vegna hafa menn verið að þessu? Það er vegna þess að menn hafa viljað draga úr áhrifum eignarhaldsfyrirkomulagsins í sjávarútvegi á byggðirnar í landinu og gefa tækifæri til þess að menn geti áfram lifað af útgerð í sjávarplássum umhverfis landið. Það er ástæðan fyrir þessum endalausu umfjöllunum um smábáta.

Alþingi Íslendinga ákvað 1990 að loka kvótakerfinu. Hefðu þau lög staðið áfram væri engin smátaútgerð á Íslandi, það segir sagan. Þeir smábátar sem fóru inn í aflamarkskerfið þá hafa langflestir horfið úr útgerð og eru ekki gerðir út lengur.

Það var nefnt hér áðan að fyrir síðustu kosningar var lofað sátt. Tveir þjóðhöfðingjar á Íslandi lofuðu þessari sátt í aðdraganda kosninganna. Hvar eru þeir staddir með þessa sátt til þjóðarinnar? Það er ástæða til þess að velta því fyrir sér. Hvar eru friðflytjendurnir með olíuviðargreinarnar? Er langt í að þeir mæti til Alþingis með eitthvað sem hægt væri að kalla sátt um stjórn fiskveiða? Mér finnast umræðurnar um þetta mál í vetur benda til að býsna langt sé í það.

Þegar stjórnvöld ákváðu að láta þá tilraun sem fólst í að stofna til þess nefndarsamstarfs, sem menn hafa kallað sáttanefnd um stjórn fiskveiða, fara út um þúfur varð auðvitað ljóst að hverju stefndi. Þar með var sannað og virtist greinilegt það sem margir töldu líklegt í upphafi, þ.e. að strax eftir kosningarnar og kannski fyrir þær --- hver veit hvenær --- hafi foringjarnir, Halldór Ásgrímsson, hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl., og hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, formaður Sjálfstfl., sest niður til að finna út hvaða sátt þeir væru að leita að og við hverja ætti að sættast.

Niðurstaðan var ekki sú að sáttin ætti að vera við íslensku þjóðina. Líklega er til einhver þjóð í þessu landi sem mætti kenna við LÍÚ eða útvegsmenn, útvegsbændur. Það er greinilegt að bændur hafa enn mikil áhrif hér á hv. Alþingi. Áður voru það þeir sem stunduðu landbúnað. Nú eru það þeir sem stunda sjávarútveg. Þeir hafa tekið við að ráða hverju fram fer í sölum Alþingis. Sáttin, sem ráðherrarnir tveir virðast hafa stefnt að er við þá en ekki þjóðina.

Þeir hafa a.m.k. ekki verið önnum kafnir við að hlýða á þjóðina eða þá aðila sem hafa gagnrýnt kerfið sem er í gildi eða óska eftir samráði um hverju ætti að breyta. Hugmyndir þeirra um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu liggja fyrir, nákvæmlega þær að viðhalda kerfinu óbreyttu hvað varðar eignarhald á fiskinum í sjónum og setja á eitthvað sem þeir ætla sér að kalla ,,hóflegt veiðigjald``. Á móti á síðan að taka út önnur gjöld á sjávarútveginn. Vitaskuld hefur þetta ekkert með þá sátt að gera sem þjóðinni var lofað.

Þau stjórnvöld sem nú sitja hafa talið það aðalhlutverk sitt að gæta þess gullfótar sem útgerðin telur það rekstri sínum í þessu landi að fá að eiga fiskinn í sjónum og selja aðgang að auðlindinni þeim sem vilja taka þátt í þeim atvinnurekstri. Það sem hér á að staðfesta er ekkert annað en að fleiri, þ.e. þeir sem eftir voru í smábátunum, fái sömu tækifæri til að selja aðganginn að auðlindinni eins og hinir sem eru í aflamarkskerfinu. Nú skulu menn mega selja dagana sem má fara á sjó. Það var ekki hægt áður en verður nú hægt. Allt skal verða framseljanlegt.

Með þessari aðgerð er í raun lokað síðustu smugunni og eyðibyggðastefnunni leyft að hefja innreið sína án þess að hægt sé að grípa til viðbótarráðstafana af því tagi sem hér hefur verið talað um. Ég er svo sem ekkert að mæla með þeim aðgerðum. Ég hef alltaf talið að endurskoða þyrfti þetta kerfi í heild og fyrst og fremst út frá þeirri staðreynd að aðgangurinn að þessum atvinnurekstri eigi að vera almennur og undir almennum reglum en ekki að vera úthlutanir til einhverra útvalinna (Gripið fram í: Jú, jú.) sem eign og arfsréttur sem menn geti síðan selt og farið með að vild sinni. Um þetta hafa verið og eru logandi illdeilur.

[14:00]

Mér finnst nokkuð augljóst af orðum sem hæstv. sjútvrh. hefur látið falla hér að meira að segja séu ekki einu sinni líkur á því orðið að þessi svokallaða ,,endurskoðun`` sem er fólgin í því að þeir náðu samkomulagi, ráðherrarnir sem ég nefndi áðan og LÍÚ, um hvernig ætti að vera, kemur líklega ekki einu sinni hér til afgreiðslu á þessum þingvetri því að meiri hluti sjútvn. telur ástæðu til þess að taka það alveg sérstaklega fram að hann ætli nú að beita sér fyrir vissum aðgerðum og að frv. verði lagt fram um það fyrir byrjun febrúar ef boðað frv. ríkisstjórnarinnar verður ekki komið fram.

Hvenær tóku meiri hlutar nefnda á vegum ríkisstjórnarinnar upp á því að senda slíkar aðvaranir og hótanir? Ég hef ekki séð það fyrr. Ég tel að ástæðan fyrir því hljóti að vera sú að þeir séu meira en lítið óttaslegnir um að engin endurskoðun verði og að þeir þurfi á því að halda að flytja annað frv. í vetur til að klára það sem þeir töldu ástæðu til að gera í sambandi við smábátana. Þannig liggur það nú.

Ég tel að við höfum rætt það mál sem hér er á dagskránni svo mikið að ekki sé ástæða til þess að bæta löngu máli við það. En mér finnst ástæða til þess að draga athygli hv. þingmanna að því hvernig málum er komið og hvað ég tel a.m.k. vera líklegt í þessu. Það er mín skoðun að þeir sem vilja sameinast um að vinna gegn þeim ókjörum sem hér eru hvað varðar aðgang að auðlindinni og þá bjargföstu fyrirætlan foringja þeirra flokka sem eru við völd í landinu að gera Íslandsmið að einkaeign þeirra sem eru í útgerð núna, fari að hugsa sér til hreyfings til lengri tíma til þess að taka á málum í aðdraganda næstu kosninga því auðséð er að ekki er orð að marka það sem sagt var fyrir síðustu kosningar um að menn ætluðu að leita einhverra sátta þannig að í þjóðfélaginu væri hægt að finna betri sátt um það hvernig menn komast að því að nýta þessa auðlind og leysa sjávarútveginn úr þeim fjötrum sem hann er í.

Mér finnst bera vel í veiði þegar hæstv. ráðherra, varaformaður Framsfl., gengur í salinn. Ég ætla að vona að þegar hann hefst til meiri valda í þeim flokki hrindi hann af flokknum þeim ósköpum sem núverandi formaður hefur komið þar fyrir með því að bera ábyrgð mest af öllum á því að hafa komið á því fyrirkomulagi sem er í sjávarútvegi og þeim einkaeignarrétti sem er á því að stunda sjó á Íslandi.

Samfylkingin hefur sett fram sína stefnu í þessu máli og hún hefur verið margrædd hér. Ég ætla ekki að fara yfir hana að öðru leyti en því að í henni er fólgin leið til þess að heimta Íslandsmið úr tröllahöndum. Ég tel að það sé að myndast samstaða um hvernig eigi að standa að slíku. Auðvitað verða menn að hafa aðdraganda að því. Það er ekki gert með því að leggja í rúst þau fyrirtæki sem nú eru í sjávarútvegi. Það á að gera með aðlögun sem dugar til þess að sjávarútvegurinn lendi ekki í miklum vanda þess vegna. En það þarf ekki langan tíma til að gera þetta. Um þetta á auðvitað að ræða en það á ekki að láta sjávarútveginn eða LÍÚ segja sér hvernig á að fara að þessu. Á því eiga alþingismenn að bera ábyrgð eins og menn og standa í lappirnar en ekki, eins og hefur verið hér í gegnum alla tíð, að láta LÍÚ-forustuna og aðra áhrifamenn í sjávarútvegi senda ráðin inn á Alþingi og að svo skuli menn rétta hér upp hendur með því sem samið hefur verið um í bakherbergjum þeirra sem hafa ráðið þessari stefnu undanfarin ár.

Hæstv. forseti. Ég tel að ýmislegt í þessu smábátafrv. sé svo sem vel hugsað til þeirra sem starfa við smábáta og útgerð á smábátum til að reyna að bjarga fólki og byggðum frá þeim hremmingum sem fylgja einkaeignarhaldinu á aðganginum að fiskinum í sjónum. Það er ekkert í sjálfu sér við það að athuga að menn reyni fyrir sér með slíkt. Hin stóra gagnrýni beinist auðvitað að því að menn sem alla daga stritast við að reyna að finna út einhverjar slíkar leiðir leiði hugann að því hvernig megi leysa málin til lengri framtíðar og horfi fram í tímann. Þá hljóta þeir að sjá að með ríkjandi fyrirkomulagi muni byggðirnar og fólkið í byggðarlögunum sífellt lenda í sömu vandræðunum sem þeir eru að glíma við í dag. Þetta verður ekki leyst með öðru en því að gera heildaruppskurð á þessu fyrirkomulagi, koma aðaldeilumálinu fyrir kattarnef, þ.e. eignarhaldinu og aðganginum að auðlindinni, og snúa sér svo að því að hafa reglurnar eins og best sátt getur orðið um.

En til þess þarf grunnurinn að verða réttur og um hann sátt. Ég ætla að hafa þetta mín lokaorð, hæstv. forseti.