Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 14:34:33 (3352)

2001-12-14 14:34:33# 127. lþ. 55.13 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í þessu frv. er nánast ekkert sem hægt er að styðja. Það er ein grein sem má segja að sé ekki óeðlileg miðað við allar aðstæður og það er sú sem heimilar hækkun á veiðieftirlitsgjaldi þannig að sá gjaldstofn standi undir þeim kostnaði sem þar fellur til. En að öllu öðru leyti er hér um að ræða íþyngjandi breytingar sem hæstv. ríkisstjórn leggur á herðar þeim sem síst mega við auknum álögum, eins og sjúklingar, námsmenn og fleiri. Þetta mál sýnir í hnotskurn og betur en margt annað hverjar áherslur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar eru, hverjir eru gæludýr þessarar ríkisstjórnar, hátekjufólk og fjármagnseigendur, og hverjir eiga að bera byrðarnar, það eru aldraðir og öryrkjar, sjúklingar og námsmenn. Þetta er, herra forseti, heldur hörmuleg jólagjöf sem ríkisstjórnin er með þessum bandormi, þessu óféti, að senda þjóðinni.