Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 14:57:15 (3361)

2001-12-14 14:57:15# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[14:57]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er enginn ágreiningur hjá mér og hv. 3. þm. Norðurl. e. um hvernig þessi lög eiga að virka, þ.e. ekki þurfi að vera svo langt gengið í þrengingum sveitarfélagsins að það sé búið að úrskurða það í fjárþröng, en hins vegar þarf sá möguleiki einnig að vera opinn náttúrlega til þess að taka á málinu ef um fjárþröng er að ræða.

Lagt er til að skilyrði til afskrifta sé að beiðni hafi borist frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um niðurfellingu skuldar. Samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og 14. og 15. gr. reglugerðar nr. 374/2001, hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga það hlutverk að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga.

Nefndin skal árlega athuga reikningsskil sveitarfélaga samkvæmt ákveðnum viðmiðunarreglum sem nefndin hefur sett. Komist nefndin að þeirri niðurstöðu að fjárhagsstaða sveitarfélags sé það slæm að það hafi ekki burði til að leysa vandann án utanaðkomandi hjálpar er nefndinni heimilt að gera samning við sveitarfélag um aðgerðir, eftirlit og eftirfylgni er leitt gætu til lausnar á fjárhagsvanda þess og því er gert ráð fyrir að fjármál viðkomandi sveitarfélags séu til meðferðar hjá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

Það er ekki nauðsynlegt að sveitarfélagið hafi tilkynnt um fjárþröng. Það er nægilegt að eftirlitsnefndin hafi tekið mál sveitarfélagsins til meðferðar að eigin frumkvæði, sbr. 3. og 4. mgr. 75. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og 14. og 15. gr. reglugerðar nr. 374/2001.

Herra forseti. Ég vitna í 14. gr. reglugerðar, með leyfi forseta. Þar segir í lokamálsgrein:

,,Telji nefndin það nauðsynlegt getur hún gert samning við sveitarstjórn, sbr. 17. gr., um aðgerðir til lausnar á fjárhagsvanda sveitarfélagsins ásamt áætlun um með hvaða hætti þeim verði fylgt eftir.``

Og 15. gr., með leyfi forseta:

,,Beri aðgerðir sveitarstjórnar til lausnar á fjárhagsvanda sveitarfélags, sbr. 2. mgr. 14. gr., ekki tilætlaðan árangur eða fjárhagsstaða þess er það slæm að mati eftirlitsnefndar, sbr. 13. gr., að sveitarfélagið hafi ekki burði til að leysa vandann án utanaðkomandi fjárhagslegrar aðstoðar, er nefndinni heimilt að kanna möguleika á fjölþættum fjárhags- og stjórnunarlegum aðgerðum til lausnar fjárhagsvanda sveitarfélagsins með þátttöku ríkisvalds, sveitarfélags, Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, Lánasjóðs sveitarfélaga og annarra lánardrottna.

Leiði könnun skv. 1. mgr. til þess, að mati nefndarinnar, að möguleikar séu á raunhæfum aðgerðum til lausnar á fjárhagsvanda sveitarfélagsins skal nefndin gefa sveitarstjórn kost á samningi um aðgerðir, eftirlit og eftirfylgni.``

Í þskj. 509, sem hér liggur fyrir til umræðu, segir í athugasemdum við lagagreinina:

,,Lagt er til að skilyrði afskriftar sé að beiðni hafi borist frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um niðurfellingu skulda. Samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og reglugerðar nr. 374/2001.``

Ég lít svo á að það sé alveg skýrt að það sé ekki skilyrði að sveitarfélagið hafi lýst yfir að það sé í fjárþröng. Það megi taka á málunum áður en sveitarfélagið kemst í fjárþröngina, en jafnframt verður þessi möguleiki auðvitað að vera opinn fyrir sveitarfélög sem komist hafa í fjárþröng. Þess vegna tel ég að þessi brtt. sé óþörf og það eigi ekki að þurfa að valda misskilningi eða ágreiningi.