Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:02:03 (3362)

2001-12-14 15:02:03# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég skil þetta eiginlega ekki. Mér kemur bara eitt orð í hug sem ég veit að hæstv. félmrh. kann alveg full skil á af því hann er hestamaður og það er orðið kergja. Ég held að hér hafi hlaupið einhver kergja í félmrn. eða þá embættismenn sem sömdu þetta og hún gangi hér aftur í líki ráðherrans í ræðustól.

Það er algjörlega ljóst að ef þetta hefur efnisáhrif er það til hins verra, þá er það í þá áttina að binda þetta jafnframt skilyrðum í 75. gr. sveitarstjórnarlaganna sem ekki er ætlunin, og það var einn samfelldur málflutningur fyrir því hér áfram hjá hæstv. ráðherra. Þá eru bara tvær leiðir til, þ.e. að fella tilvísun í 75. gr. eða skipta út orðinu ,,og`` fyrir orðið ,,eða``. Út af fyrir sig mætti gjarnan standa í textanum: ,,... sbr. 74. eða 75. gr. sveitarstjórnarlaga.`` Þá vísar það til þess að það geti verið á grundvelli hvorrar greinarinnar fyrir sig, 74. gr. um hina almennu eftirlitsskyldu nefndarinnar eða 75. gr. vegna þess að sveitarfélag eigi í hlut sem þegar hafi tilkynnt um fjárþörf. Þá er enginn misskilningur í málinu. Ég teldi heppilegra að fella þetta niður. Til vara hefði mátt hugsa sér að skipta þarna út orðinu ,,og`` því það samkvæmt orðanna hljóðan tengir greinarnar saman, þ.e. 74. og 75. gr.

Ef hæstv. ráðherra fellst á hvorugt og heldur til streitu í anda þessarar kergju sem virðist hafa hlaupið í málið, að vilja ekki styðja breytingar á þessu mun ég frekar kalla þessa tillögu til baka en að láta fella hana, því það væru auðvitað mjög slæm skilaboð frá Alþingi að fella það að tilvísun í 75. gr. hyrfi út. Það er kannski óþarfi að gera úr þessu meira mál, herra forseti. En það er til alveg ósköp einföld lausn á því og það er að hæstv. ráðherra láti af þessari kergju.