Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:06:54 (3367)

2001-12-14 15:06:54# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður. Ég ætla ekki að lengja þann tíma sem við höfum gefið okkur til þess að funda fyrir jólin. En það er óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum um það frv. sem hér er til lokaafgreiðslu og hefur fengið satt að segja allt of litla umræðu, því ef menn trúa því og halda því fram að með þessu frv. sé verið að leysa það viðvarandi og vaxandi vandamál sem er hringinn í kringum landið og varðar fjárhagsstöðu sveitarfélaga annars vegar og í bland erfiða fjárhagsstöðu vegna þess að í félagslegar íbúðir fást ekki lengur íbúar sökum búferlaflutninga er mikill misskilningur að á þeim vanda sé tekið.

Hæstv. ráðherra svaraði því rétt áðan að samkvæmt laganna hljóðan falli tvö sveitarfélög í landinu, sem eru algerlega komin upp við vegg og geta sig hvergi hrært, undir þá skilgreiningu sem texti frv. gerir ráð fyrir. Vissulega er ekki útilokað að þeim muni því miður fjölga á næstu mánuðum og missirum. En við skulum ekki gleyma því að fjárhagsvanda margra sveitarfélaga úti á landi, raunar ekki eingöngu úti á landi, má beinlínis rekja til þess að þessi sömu sveitarfélög hafa annaðhvort offjárfest í félagslegum íbúðum til þess að halda uppi atvinnustigi á tilteknum tímum, ellegar að búferlaflutningar hafa orðið slíkir, þ.e. byggðastefna ríkisstjórnarinnar orsakað það að fólk er ekki lengur til staðar til að fylla þær íbúðir sem byggðar voru. Sá fjárhagsvandi er langt í frá leystur.

Ég kalla enn þá eftir því frá hæstv. félmrh. hvenær hann ætli að koma fram með heildstæðar lausnir á því vandamáli. Þröngar afskriftir Íbúðalánasjóðs hafa ekkert með það mál að gera. Að því leytinu til hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hárrétt fyrir sér, að þessi nálgun og túlkun félmrh. leysir ekki það viðfangsefni. Það er einfaldlega svo að þessi texti gerir ráð fyrir því að sveitarfélögin nánast lýsi sig því sem næst gjaldþrota, í fjárþröng, áður en til slíkra afskrifta geti komið.

Á hinn bóginn hef ég líka talsverðar efasemdir um þá leið sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur nefnt í þessu máli, þ.e. að á fyrri stigum verði hægt að grípa til þessara aðgerða, eingöngu vegna þess að hér er um svo sértækar og þröngar aðgerðir að ræða. Málið er langtum víðfeðmara en menn vilja hér vera láta.

Í þriðja lagi vil ég nefna það, herra forseti, sem ég gerði grein fyrir í örstuttri atkvæðaskýringu við 2. umr. þessa máls að ég ber ekki það traust til hæstv. félmrh. sem skipar síðan alfarið stjórn Íbúðalánasjóðs --- og við skulum rifja upp hvernig hún er skipuð af hæstv. ráðherra. Hún er einlit, blágræn. Og þá á ég ekki við Vinstri græna. (Gripið fram í: Það væri nú betra ef það væri.) Hún er einlit af ríkisstjórnarflokkunum. Þetta mál leikur því hér allt í höndum hæstv. félmrh. og hann skipar oddamann í eftirlitsnefndina. Ég hef ekki góða reynslu af því, herra forseti, að veita hér opnar heimildir, því þó að skilgreiningin sé hér þröng í orði kveðnu er ekkert ... Herra forseti. Ég óska eftir að fá næði til þess að halda ræðu mína.

(Forseti (HBl): Ég óska eftir því að hv. þm. gefi hljóð.)

Ég þakka fyrir, herra forseti. Ég get lokið þessari stuttu ræðu minni á örskotstíma fái ég til þess næði. Ég var að segja að ég kalla enn þá eftir því að hér komi fram heildarlausnir gagnvart fjárhagsvanda fjölmargra sveitarfélaga í landinu. Við ræddum það vítt og breitt fyrir ári síðan, en þá var það mál skilið enn og aftur eftir hvað varðar tekjustofna sveitarfélaga. Því miður eru menn enn að horfa framan í þann veruleika að sveitarfélög í landinu geti ekki látið enda ná saman, jafnvel stór sveitarfélög í nágrenni höfuðborgarinnar sem rekin eru af sama meiri hluta og er í þinginu. Sá vandi liggur því enn þá fyrir og þessi vandi sem hér er sérstaklega verið að vísa til, þ.e. sá vandi sem fylgir hinum félagslegu íbúðum sem standa auðar hringinn í kringum landið, minnisvarði um misheppnaða byggðapólitík þessarar ríkisstjórnar, og sú þrönga lausn og sú máttlausa tilraun sem hér er til staðar til að taka á þeim vanda, er langt í frá fullnægjandi. Ég tek ekki þátt í svona káki, svona fumi, svona fáti.