Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:13:58 (3371)

2001-12-14 15:13:58# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég bið hv. þm. afsökunar á því. Ég ætlaðist ekki til að hann skildi þessi orð mín svo að ég væri að lítilsvirða hann sem einstakling. Ég hélt hins vegar að eftir setu hans á Alþingi um sex ára skeið eða svo væri hann farinn að átta sig á gangverkinu. Ef það væri nú svo, herra forseti, að við í stjórnarandstöðunni settum hér saman skynsamlegan texta og legðum hann fram sem frv. og á því væri tekið málefnalega og það samþykkt sem til framfara þætti horfa og hinu ýtt til hliðar, þá væri nú gaman að lifa. Þannig er það bara ekki. Hv. þm. veit betur. Nánast öll frv. stjórnarandstöðunnar fara í glatkistuna. Þeim er bara vísað frá og út í hafsauga nánast orðalaust á stundum. Guð láti gott á vita þannig að þetta lagist í næstu framtíð. En veruleikinn er auðvitað allt annar.

Það er hins vegar alveg hárrétt hjá hv. þm. að í allt of ríkum mæli lendir hann í því fúafeni með þingmeirihlutanum hér að láta framkvæmdarvaldið semja lagatextann fyrir sig og hoppa síðan á græna takkann þannig að margur heldur mig sig.