Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:20:45 (3375)

2001-12-14 15:20:45# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:20]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki komið betur orðum að því en hv. þm. hvernig komið er fyrir byggðapólitík ríkisstjórnarinnar. Þetta er auðvitað minnisvarði um hana, þann vanda sem sum sveitarfélögin og fólkið í þeim sveitarfélögum er komið í eftir samfellda stjórn þessara flokka sl. sex ár. Hv. þm. lýsti því alveg bærilega að minni hyggju. Vandinn er auðvitað gríðarlegur. Ég hef sagt það hér margsinnis að á honum þarf að taka. En þetta er fumkennd leið til þess. Það er það sem ég er að gagnrýna. Ég er reiðubúinn að taka þátt í björgunarleiðangri í þessa veru. Af því ég og hv. þm. vorum báðir í sveitarstjórnarpólitík á árum áður vitum við, hygg ég og vona, eitt og annað um þessi mál.

En af því hann nefndi sérstaklega árin 1988--1990 --- ég held hann hafi þá enn verið vestur á Nesi --- þá er hann sennilega að tala um sjálfan sig, þegar hann ræðir um að menn hafi farið fram úr sjálfum sér og byggt hús sem enginn fékkst til að búa í. Ég veit það ekki. Ég var ekki sveitarstjóri úti á landi á þeim tíma. Ég var hins vegar hér á höfuðborgarsvæðinu og við byggðum fjöldann allan af félagslegum íbúðum af því að þörf var fyrir þær og af því við trúðum á það sem lausn í húsnæðismálum þjóðarinnar. En það hefur hins vegar breyst heldur betur, kæri herra forseti --- já, hann er mér kær hæstv. forsetinn --- á því hefur heldur betur orðið breyting. Nú er það orðið skammaryrði að ræða um félagslegar lausnir í húsnæðismálum þjóðarinnar. Það er enn einn minnisvarði þessarar ríkisstjórnar sem verður tekinn upp fyrir næstu kosningar.