Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:29:05 (3378)

2001-12-14 15:29:05# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það mátti skilja á fyrri hluta ræðu hæstv. ráðherra að hann hefði nánast samviskubit yfir að hafa staðið að hinni myndarlegu uppbyggingu félagslega íbúðakerfisins á Íslandi sem átti sér stað hjá vinstri stjórninni 1988--1991. Hann talaði um að þá hefðu verið byggðar hinar auðu íbúðir. Þær voru auðvitað ekki auðar á þeim tíma en þær hafa tæmst í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Herra forseti. Ég held að hæstv. ráðherra ætti þvert á móti að vera stoltur af verkum þeirrar stjórnar nema hann hafi alveg gjörsamlega tapað áttum og misst sjónar á öllu því sem félagslegt er.

Lokaorð hans hér, herra forseti, í þá veru að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafi tími hinna félagslegu úrræða runnið upp á þessum vettvangi eru slík öfugmæli að maður verður satt að segja orðlaus. Það gerist ekki oft en nú er ég orðlaus.