Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:31:06 (3380)

2001-12-14 15:31:06# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:31]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi samanburður er ógerlegur því hæstv. ráðherra hefur leyst það verk af hendi á valdatíma sínum að eyðileggja félagslega íbúðakerfið, hvorki meira né minna. Það er ekki lengur til. Það er ekki hægt að bera saman epli og appelsínu. Það er ekki hægt að bera saman við viðbótarlán úr Íbúðalánasjóði. Félagslega íbúðakerfinu eins og það var hefur verið rústað í tíð þessa hæstv. ráðherra. Allur samanburður, öll tölfræði er því ómarktæk.

Herra forseti. Verkin sýna merkin. Við skulum bíða og sjá. Við þekkjum það í hvaða úrræði fátækt fólk, ungt námsfólk, getur leitað núna á síðari tímum. Það endar oftar en ekki í öngstræti. Ég segi því enn og aftur, herra forseti: Félagslegt hvað?