Girðingarlög

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:51:50 (3388)

2001-12-14 15:51:50# 127. lþ. 56.12 fundur 180. mál: #A girðingarlög# (heildarlög) frv. 135/2001, KVM
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Nokkuð var rætt um þessi mál í landbn. og yfirleitt var sá andi í nefndinni, svo ekki gæti misskilnings, að það var frekar samúð með þeim sem höfðu búið lengi á jörðum. Hins vegar eru til mjög mörg frávik og margar myndir af þeim. Við getum hugsað okkur mann sem hefur búið á jörð í 30 ár og er ekki með neinar skepnur þar eða segjum að hann sé með hross þar. Síðan kemur annar og flytur nýr inn á jörð og er með kýr en þarf og vill girða hesta nágrannans frá, á hann þá einn að standa straum af girðingarkostnaðinum?

Það er hægt að setja upp alls konar myndir af deilum og þrasi um girðingar og landamerki sem eru náttúrlega frægustu deilumál þjóðarinnar og þess vegna voru ákvæði sett í lögin, herra forseti, um nefnd sem ætti að taka á ágreiningi ef til hans kæmi. Og það er skýrt frá því í 7. gr. laganna þar sem gert er ráð fyrir þremur mönnum, einum frá búnaðarsambandi, einum frá sveitarstjórn og einum frá sýslumanni, sem eiga líka m.a. að skera úr um kostnað verði ágreiningur um hann. Þess vegna treysti ég mér ekki, kæri bróðir í mörgum málum, hv. þm., að styðja þetta mál.