Girðingarlög

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:55:22 (3391)

2001-12-14 15:55:22# 127. lþ. 56.12 fundur 180. mál: #A girðingarlög# (heildarlög) frv. 135/2001, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér finnst það ekki hafa komið nógu skýrt fram í þessari umræðu að samkvæmt gildandi lögum á sá sem óskar girðingar á landamerkjum og hefur átt, a.m.k. svo lengi sem ég man eftir, rétt til þess að fá greiddan hálfan kostnað við uppsetningu girðingarinnar. Núna er bara verið að skýra prósessinn, hvað þurfi að gerast, og orða nákvæmar hvaða skilyrði þurfi að uppfyllast. Þessi skylda hefur líklega verið frá aldamótum eða nálægt því, sennilega er þetta hundrað ára gamalt ákvæði.

Varðandi dæmi sem hv. þm., flm. brtt., nefndi getur það sjálfsagt verið eins og hann leggur þetta upp en það getur líka verið þannig að ef kaupstaðarbúi kaupir jörð og fyllir hana af hrossum geti það verið hagur nágrannanna að geta girt hana af fremur en að þola áganginn. Og venjulega er það svo að sá sem óskar girðingar er að forða ágangi frá öðrum.