Leigubifreiðar

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 16:11:47 (3394)

2001-12-14 16:11:47# 127. lþ. 56.17 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[16:11]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það má með sanni segja í umræðu um þetta mál að allt hefur sinn tíma. Það var út af fyrir sig mjög fróðlegt fyrir okkur hv. þm. í nótt að fá upprifjun á upphafi þeirrar löggjafar sem hér er verið að gera breytingar á.

En hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að það hefði að sjálfsögðu verið mjög æskilegt ef um það hefði getað orðið samstaða í þinginu í góðu samstarfi við leigubílstjóra í landinu að hafa ekki niðurnjörvaðar reglur um hverjir megi og eigi að reka leigubíla. Ég get viðurkennt það hér í þinginu, svo sannarlega, að ég hefði vissulega getað óskað mér þess að vera laus við það að þurfa að standa fyrir takmörkunum hvað þetta varðar. Að því leyti get ég tekið undir orð hv. þm.

Hins vegar liggur það fyrir að þessu kerfi hefur verið komið upp hér þar sem eru takmörkunarsvæði og það hefur í fortíðinni náðst samkomulag um að það sé ekki ótakmarkaður aðgangur að því að gera út leigubíl á tilteknum takmörkunarsvæðum. Þetta er hinn kaldi veruleiki.

Þetta mál hefur verið í samgrn. Ýmsir hv. þm. þekkja þetta kerfi allvel. Í minni tíð í ráðuneytinu var farið yfir þetta mál vegna þess að á því hafa verið ýmsir hnökrar í framkvæmdinni og m.a. gerð breyting á reglugerð sem hv. þm. vitnaði mjög til, en hún var sett árið 1995, fyrst í þeirri meginmynd sem hún er í en var síðan breytt 1999, vegna þess að þá var talið eðlilegt að öll bílstjórafélögin kæmu að þessu skipulagi og það var í fyllsta máta eðlilegt, ekki síst eftir að tilteknir dómar höfðu gengið.

Hvað um það. Farið var yfir þetta mál. Það var kannað hvort ekki væri eðlilegt að sveitarfélögin tækju þetta að sér. Farið var í viðræður við forsvarsmenn sveitarfélaganna í landinu og þeir óskuðu ekki eftir því sérstaklega og í rauninni lögðust algerlega gegn því að sveitarfélögunum væri með lögum fært það verkefni að sjá um skipulag á leigubílamálum.

Þá var gripið til þess ráðs í nafni góðrar stjórnsýslu að koma á því skipulagi sem við erum að fjalla um að fela einni af okkar allra bestu stofnunum, Vegagerðinni, að sjá um framkvæmd málsins og um það erum við að fjalla hér í dag.

Við gerum hins vegar ráð fyrir því að ef um ágreining verði að ræða megi skjóta honum til æðra stjórnvalds og það eru góðir stjórnsýsluhættir og ættu að vera, eins og ég hef nú áður vikið orði að við hv. þm., að hann sem löglærður maður, með þau réttindi, þótt hann geri ekki mikið úr réttindum þeim sem leigubílstjórar þurfa að hafa, ætti að hafa góðan skilning á því að það er mjög góð stjórnsýsla sem við erum að efna hér til. Í það minnsta tel ég að hún ætti að geta orðið traust, sérstaklega í þágu þeirra sem sækjast eftir því að fá réttindi til þess að aka leigubílum.

Þetta er, herra forseti, í meginatriðum það sem ég vildi segja hér við þessa umræðu.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur haft afskaplega gott og í raun langvarandi tækifæri til þess að hafa góð áhrif á þetta mál. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það kemur fyrir þingið og hv. þm. hefur setið í samgn. og haft drjúg áhrif á þær breytingar sem hafa orðið á þessu máli. Og ég á ekki von á öðru en þegar allt er samanlagt muni þingmaðurinn sjá að þær breytingar sem við erum að gera eru til bóta og ég vænti góðs stuðnings í lokin frá hv. þm. við þetta merka mál.