Leigubifreiðar

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 16:17:13 (3395)

2001-12-14 16:17:13# 127. lþ. 56.17 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[16:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að staðfesta það sem hæstv. samgrh. sagði, að leigubílamál, þ.e. stjórn þess málaflokks, hafa lengi verið býsna strembin viðfangs. Mínir ágætu fyrrum starfsbræður í bílstjórastétt eru náttúrlega allir kóngar eins og við fleiri Íslendingar og það ber að hafa í huga.

Ég er þeirrar skoðunar að vænlegast sé að reyna að hafa eitthvert skipulag á þessu. Hinn kosturinn, að sleppa þessu öllu lausu, hefur stóra galla í för með sér, bæði fyrir notendur og þá sem reyna að hafa þetta að starfi. Hins vegar ber mönnum að reyna að standa þannig að málum að öll góð sjónarmið um stjórnsýslu og atvinnuréttindi og annað séu höfð í heiðri eins og kostur er.

Reynslan af því að gefa þetta laust hefur verið mjög blendin þar sem það hefur verið gert. Við getum tekið sem dæmi Svíþjóð eða Stokkhólm, eins og ég hygg að ýmsir þekki, að menn gátu þar lent í þó nokkrum hremmingum hefðu þeir ekki fyrirhyggju í að semja fyrir fram um verð og annað á því tímabili sem ástandið þar var verst.

Varðandi þá tilhögun að færa þetta til Vegagerðarinnar --- ég ætla ekki að lasta þá ágætu stofnun og allt er rétt sem ráðherra sagði um það --- vaknar sú spurning hjá mér hvort í reynd sé verið að breyta Vegagerðinni smátt og smátt í einhvers konar samgöngustofnun á vegum stjórnvalda. Það er verið að tína til hennar svona verkefni sem eru komin svolítið í burtu frá vegalagningu og utanumhaldi vega í landinu. Fyrir nokkrum árum varð hún að hálfgerðri siglingamálastofnun með því að þangað færðust ferjur. Það má líta á það sem framlengingu vegakerfisins. En þegar kemur að stjórnsýslulegum þáttum sem lúta að skipulagningu leigubifreiðaaksturs er það komið nær samgöngumálaflokknum sem slíkum.

Ég vil þar af leiðandi spyrja hæstv. ráðherra: Er það að einhverjum hluta þannig í huga hæstv. ráðherra að Vegagerðin þróist jafnvel yfir í einhvers konar stjórnsýslustofnun á sviði samgöngumála?