Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 21  —  21. mál.




Frumvarp til laga



um fjárreiður stjórnmálasamtaka og frambjóðenda í kosningum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Bryndís Hlöðversdóttir,


Rannveig Guðmundsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Karl V. Matthíasson, Sverrir Hermannsson, Guðjón A. Kristjánsson.


I. KAFLI
Fjárframlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda í kosningum.
1. gr.

    Til stjórnmálasamtaka samkvæmt lögum þessum teljast samtök einstaklinga og félaga sem bjóða fram til Alþingis eða sveitarstjórnar. Skulu stjórnmálasamtök skráð hjá dómsmálaráðuneyti.
    Til frambjóðenda samkvæmt lögum þessum teljast einstaklingar sem eru í kjöri til Alþingis, sveitarstjórnar eða til embættis forseta Íslands.

2. gr.

    Stjórnmálasamtök eru bókhaldsskyld samkvæmt ákvæðum laga um bókhald og ber þeim að skila skattframtali.
    Árlega skulu reikningar stjórnmálasamtaka endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og lagðir fram til samþykktar á landsfundi eða öðrum sambærilegum vettvangi. Samþykktir reikningar skulu sendir dómsmálaráðuneyti, sem sér um að birta þá í B-deild Stjórnartíðinda eigi síðar en einum mánuði eftir samþykkt þeirra.

3. gr.


    Stjórnmálasamtökum er heimilt að taka við fjárframlagi eða ígildi þess frá einstökum aðilum, þ.e. einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða sjóðum, þó þannig að fari heildarframlög frá einstökum aðilum yfir 300.000 kr. á hverju reikningsári skal birta nafn styrktaraðila samhliða birtingu ársreikninga, sbr. 2. mgr. 2. gr.
    Með orðunum fjárframlagi eða ígildi þess er átt við peninga, vörur, þjónustu og önnur samsvarandi framlög og stuðning sem veittur er án gagngreiðslu, þó ekki venjubundið ókeypis vinnuframlag í kosningabaráttu og við kosningar.
    Stjórnmálasamtökum er óheimilt að taka við fjárframlagi eða ígildi þess skv. 1. mgr. ef um nafnlaust fjárframlag er að ræða eða að öðru leyti óljóst hver stendur að því. Berist stjórnmálasamtökum fjárframlag eða ígildi þess samkvæmt þessari málsgrein skal fela dómsmálaráðuneyti vörslu og skráningu þess.

4. gr.


    Frambjóðendur til Alþingis, sveitarstjórna eða til embættis forseta Íslands sem náð hafa kjöri skulu fyrir lok kosningaárs gera grein fyrir heildarútgjöldum kosningabaráttu og fjármögnun hennar og útbúa yfirlit yfir tekjur og gjöld framboðsins ásamt yfirlýsingu löggilts endurskoðanda um að reikningar framboðsins hafi verið endurskoðaðir í samræmi við góða reikningsskilavenju.
    Gera skal annars vegar grein fyrir eigin fjármunum frambjóðanda sem notaðir eru í kosningabaráttu og hins vegar utanaðkomandi fjárframlögum eða ígildi þeirra sem frambjóðandi veitir viðtöku. Jafnframt skal gera grein fyrir ef stuðningshópur, eða annar félagsskapur sem myndaður hefur verið til stuðnings frambjóðandanum, hefur veitt fjárframlögum viðtöku fyrir hans hönd. Sundurliða skal framlög eftir því hvort um er að ræða stuðning frá einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða sjóðum. Andvirði fjárframlags og nafn stuðningsaðila skal sérstaklega tekið fram ef heildarfjárframlag eða ígildi þess, sbr. 2. mgr. 3. gr., nemur meira en 150.000 kr.
    Frambjóðanda er óheimilt að taka við fjárframlagi eða ígildi þess ef um nafnlaust fjárframlag er að ræða eða að öðru leyti óljóst hver stendur að því. Berist frambjóðanda fjárframlag eða ígildi þess samkvæmt þessari málsgrein skal fela dómsmálaráðuneyti vörslu og skráningu þess.

II. KAFLI
Ríkisframlög til stjórnmálasamtaka og þingflokka.

5. gr.


    Stjórnmálasamtök sem bjóða fram til Alþingis skulu fá framlag úr ríkissjóði til starfsemi sinnar, þ.e. til almenns reksturs og útgáfumála. Framlagið skal ákvarðað í fjárlögum hvers árs.
    Framlag til einstakra stjórnmálasamtaka byggist á hlutfallslegri skiptingu þingsæta í undangengnum alþingiskosningum, þó þannig að stjórnmálasamtök sem hafa fengið a.m.k. 2,5% af greiddum atkvæðum í kosningunum á landinu öllu án þess að hafa náð þingsæti eiga rétt á framlagi sem svarar til eins þingsætis í eitt ár. Framlag samkvæmt þessari grein skal greitt í upphafi hvers árs.

6. gr.


    Greiða skal þingflokkum tiltekna lágmarksfjárhæð úr ríkissjóði og að auki ákveðna upphæð fyrir hvern þingmann til að kosta sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokkinn og þingmenn hans við þingstörf. Utanflokkaþingmaður fær sömu upphæð og greidd er á hvern þingmann þingflokks. Greiðslur til þingflokks skulu inntar af hendi ársfjórðungslega, þ.e. 1. febrúar, 1. maí o.s.frv., og skulu miðaðar við skipan Alþingis í byrjun ársfjórðungs, þ.e. 1. janúar, 1. apríl o.s.frv.
    Þingflokkur er samtök tveggja eða fleiri þingmanna, sem eru fulltrúar stjórnmálasamtaka, sem hafa komið á fót landssamtökum.

7. gr.


    Forseti Alþingis setur í samráði við formenn þingflokka reglur um skiptingu þess fjár sem veitt er hverju sinni til aðstoðar þingflokkum.

    8. gr.


    Formenn þingflokka skulu árlega senda forseta Alþingis greinargerð um ráðstöfun þess fjár sem þeir veita móttöku samkvæmt þessum kafla eftir nánari reglum sem forseti Alþingis setur. Sama gildir um þingmenn utan flokka.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
9. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum eða þyngri refsingu samkvæmt öðrum lögum eftir því sem við á.

10. gr.


    Dómsmálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

11. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 56/1971, um sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokka.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Dómsmálaráðherra skal skipa nefnd sem móti samræmdar reglur um óbeina styrki frá opinberum stofnunum og fyrirtækjum til stjórnmálasamtaka í tengslum við kosningar, svo sem afslátt af gjaldskrám og aukinn aðgang að þjónustu, t.d. kjörgögnum frá Hagstofu Íslands. Skal nefndin skila af sér tillögum eigi síðar en sex mánuðum eftir gildistöku laga þessara.

Greinargerð.


    Frumvarp um starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka hefur verið flutt á sex síðustu þingum en ekki hlotið afgreiðslu. Á síðasta þingi voru gerðar á því nokkrar breytingar en það er nú endurflutt óbreytt. Frumvarp um fjárreiður stjórnmálasamtaka er því nú lagt fram í sjöunda skipti í röð á Alþingi. Við samningu frumvarps þessa hefur víða verið leitað fanga og reynt að nýta það sem þótt hefur vænlegt til eftirbreytni, en það á sér enga beina fyrirmynd, hvorki innlenda né erlenda. Í frumvarpinu er ekki fjallað um starfsemi stjórnmálasamtaka en ítarlega er fjallað um fjárreiður stjórnmálasamtaka og jafnframt um fjárreiður frambjóðenda í kosningum til Alþingis, sveitarstjórna eða til embættis forseta Íslands.
    Á Íslandi hefur lengi tíðkast að einstaklingar og fyrirtæki styrki fjárhagslega þau stjórnmálasamtök sem þeir styðja. Það getur skapað tortryggni að leynd hvíli yfir háum styrkjum frá einstaklingum eða fyrirtækjum, enda er það óeðlilegt. Einnig getur verið hætta á hagsmunaárekstrum.
    Almennt er lítið vitað um fjármál stjórnmálasamtaka hér á landi, enda eru þau hvorki framtalsskyld né skattskyld. Þó er greinilegt að mikið fjármagn fer oft og tíðum í gegnum fjárhirslur þeirra, ekki hvað síst í kosningabaráttunni. Markmið þessa frumvarps er að gera fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda opin og sýnileg, enda er leynd einungis til þess fallin að auka tortryggni almennings í garð stjórnmálasamtaka og einstakra frambjóðenda. Í umsögn ríkisskattstjóra um frumvarp um starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka frá fyrri þingum kom fram að ríkisskattstjóri teldi það mjög til bóta að settar yrðu réttarreglur um fjárreiður stjórnmálasamtaka.
    Stjórnmálasamtök eru bókhaldsskyld en hér er lagt til að þau verði einnig framtalsskyld og að þau leggi árlega fram endurskoðaða reikninga í dómsmálaráðuneytinu. Jafnframt er lagt til að fari fjárframlag eða ígildi þess frá einstökum aðilum, þ.e. einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða sjóðum, yfir 300 þúsund krónur skuli birta nafn styrktaraðila samhliða birtingu ársreikninga. Víða í vestrænum löndum hafa verið lögfestar strangar reglur í þessu sambandi og iðulega miðað við, eins og hér er gert, að birta nöfn styrktaraðila opinberlega fari framlög yfir tiltekna fjárhæð. Má t.d. nefna að nýlega voru lögfestar í Noregi og Finnlandi reglur þar að lútandi og taka ákvæði þessa frumvarps mið af þeim. Jafnframt má geta þess að í Bretlandi hafa verið settar mjög ítarlegar reglur um takmarkanir á fjárstuðningi við stjórnmálasamtök og tilkynningar um fjárstuðning. Í frumvarpinu þykir ekki ástæða til að ganga jafnlangt og þar en þess í stað er stuðst við framangreindar norrænar fyrirmyndir.
    Í frumvarpinu eru þau nýmæli að frambjóðendur til Alþingis, sveitarstjórna eða til embættis forseta Íslands, sem náð hafa kjöri, skulu fyrir lok kosningaárs gera grein fyrir heildarútgjöldum kosningabaráttunnar og fjármögnun hennar. Þessi ákvæði frumvarpsins styðjast við finnsk lög frá 12. maí 2000, um tilkynningu fjármögnunar frambjóðenda í kosningum. Til að komast hjá hagsmunaárekstrum og óeðlilegum fyrirgreiðslum er mikilvægt, líkt og lagt er til um framlög til stjórnmálasamtaka, að uppi á borðum sé hverjir styrki frambjóðendur með verulegum fjárframlögum. Í Finnlandi er miðað við 10.000 finnsk mörk til frambjóðenda og 20.000 finnsk mörk í framlögum til stjórnmálasamtaka. Fjárhæðir í þessu frumvarpi eru svipaðar eða 150.000 króna framlag til einstaklinga og 300.000 króna framlag til stjórnmálasamtaka. Ef til vill væri ástæða til að skoða hvort framlög til frambjóðenda í kosningabaráttu skyldu vera frádráttarbær frá skatti líkt og nú gildir um framlög til stjórnmálasamtaka.
    Þess ber að geta að skv. 7. gr. laga nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun, hvílir á stofnuninni sérstök eftirlitsskylda með samtökum sem fá fé eða ábyrgðir frá ríkinu. Þannig getur Ríkisendurskoðun krafist reikningsskila af samtökum, þar á meðal stjórnmálasamtökum, sem fá framlög eða styrki úr ríkissjóði í því skyni að rannsaka hvernig ríkisframlögum er varið. Gera verður ráð fyrir að Ríkisendurskoðun beiti þessari heimild sinni telji hún ástæðu til.
    Árið 1993 voru gerðar breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem fjárframlög til stjórnmálasamtaka voru gerð frádráttarbær hjá rekstraraðilum. Í framhaldi af því var gerð breyting á reglugerð, sbr. 15.–18. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Þetta frumvarp fjallar ekki um slík fjárframlög þannig að framkvæmd skattyfirvalda á fyrrnefndu reglugerðarákvæði breytist ekki verði frumvarpið að lögum.
    Auk frjálsra framlaga eru íslensk stjórnmálasamtök fjármögnuð af ríkissjóði. Þetta er gert til þess öðrum þræði að jafna aðstöðu flokkanna. Það samræmist ekki hugmyndum manna um lýðræði ef aðeins fjárhagslega sterk samtök geta boðið fram til Alþingis. Í annan stað sporna ríkisstyrkir við þeirri tegund af fyrirgreiðslupólitík þegar stjórnmálasamtök verða óeðlilega háð styrktaraðilum. Í flestum OECD-löndunum hefur opinber fjárstuðningur við stjórnmálasamtök aukist á undanförnum árum. Í lýðræðisþjóðfélögum gegna stjórnmálasamtök veigamiklu hlutverki. Fjárhagsstuðningur hins opinbera er mikilvægur til að samtök geti sinnt nauðsynlegri stjórnmálastarfsemi og til að nokkurt jafnræði geti ríkt milli stjórnmálasamtaka. Auk þess er það grundvallaratriði að stjórnmálasamtök verði ekki fjárhagslega háð neinum styrktaraðila.
    Samkvæmt upplýsingum stjórnmálafræðinga við Háskóla Íslands er upplýsingaskylda stjórnvalda um fjárreiður undantekningalítið fyrir hendi í nágrannalöndum okkar. Innan stjórnmálafræðinnar er talið nauðsynlegt að stjórnmálasamtök geri grein fyrir fjárreiðum sínum, hvort sem um er að ræða ráðstöfun opinberra fjármuna eða framlaga frá fyrirtækjum og einstaklingum. Lagasetning í anda þess sem frumvarpið gerir ráð fyrir er nauðsynleg til að eyða tortryggni og auka tiltrú almennings á stjórnmálaflokkum og lýðræðislegum stjórnarháttum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að mótaðar verði lögbundnar reglur um ríkisframlög sem öll stjórnmálasamtök geti gengið að. Enn fremur þykir rétt að hafa sérstök lagaákvæði um sérfræðiaðstoð fyrir þingflokka, enda eru greiðslur fyrir slíka aðstoð eingöngu ætlaðar til aðstoðar þingflokkum eins og nafnið bendir til. Með því að fella lög nr. 56/1971, um sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokka, inn í frumvarpið verður sjónarmiðum um lagasamræmi náð og krafan um eftirlit með ráðstöfun styrkjanna verður virkari.
    Oft hefur komið upp umræða á Alþingi og víðar um nauðsyn þess að setja lög um starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka án þess að úr því hafi orðið. Á 97. löggjafarþingi (1975–76) lagði Benedikt Gröndal fram frumvarp til laga um stjórnmálasamtök sem ekki náði fram að ganga. Þar var að finna ítarleg ákvæði um starfsemi stjórnmálasamtaka, svo og reglur um fjárframlög til þeirra. Frumvarpið náði aðeins til stjórnmálasamtaka sem bjóða fram til Alþingis. Frá árinu 1995 hefur á hverju ári verið flutt frumvarp til laga um að lögfesta ákvæði um fjárreiður stjórnmálasamtaka.
    Forsætisráðherra skipaði nefnd árið 1995 til að fjalla um og undirbúa frumvarp til laga um fjárhagslegan stuðning við stjórnmálasamtök og þá þætti sem slíkum stuðningi tengjast. Þessi nefnd var skipuð fulltrúum stjórnmálasamtakanna. Hún starfaði í mörg ár, eða allt fram á árið 1999.
    Niðurstaða nefndarinnar var að gera ekki neitt nema lögfesta gildandi framkvæmd á fjárhagsstuðningi ríkisins við stjórnmálasamtök og að leggja til fjárframlög úr ríkissjóði til forsetaframbjóðenda, ásamt því að slík framlög væru undanþegin lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki náðist samstaða í nefndinni um að skylda flokkana til að birta upplýsingar um fjárhagsmálefni sín eða að birta nöfn þeirra styrktaraðila sem gefa framlög yfir tiltekinni fjárhæð. Vekur furðu að eftir fimm ára starf nefndar forsætisráðherra skuli ekki einu sinni hafa náðst samstaða um að stjórnmálasamtök birti ársreikninga sína opinberlega. Rökin fyrir þeirri niðurstöðu eru líka fráleit.
    Í skýrslu nefndarinnar þar sem hún gerir grein fyrir niðurstöðu sinni kemur fram að nefndin telur að hið nýja félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar frá 1995 innihaldi frekari löghelgun og vernd fyrir stofnun og starfsemi stjórnmálasamtaka en áður gilti og fortakslausa vernd innri málefna þeirra, sem ekki verði hróflað við af Alþingi. Fram kemur einnig orðrétt: „Með breytingunni var þessi skilningur staðfestur, en telja verður þó að Alþingi verði eftir breytinguna að gæta meiri varfærni í hugsanlegri lagasetningu er tengist starfsemi stjórnmálaflokka en áður. Stafar það af því, að nú er komin afdráttarlaus löghelgun á stjórnmálaflokkum í stjórnarskránni og afskipti af starfsemi stjórnmálaflokka verði því ekki undirorpin teygjanlegri lagatúlkun eða lagasetningu á sama hátt og áður hefði e.t.v. verið hugsanlegt.“
    Svona rökleysa og kattarþvottur er til þess fallinn að magna enn frekar tortryggni gagnvart fjármálum stjórnmálasamtaka. Stjórnmálasamtök eru orðin langt á eftir í þeirri þróun sem orðið hefur með kröfum um opnari stjórnsýslu, en leynd og pukur með fjármál stjórnmálasamtaka er ógn við lýðræði og heilbrigða stjórnarhætti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er sett fram skilgreining á stjórnmálasamtökum til að afmarka hvaða samtök falla undir frumvarpið. Skilyrði fyrir því að samtök teljist stjórnmálasamtök samkvæmt frumvarpinu er að þau bjóði fram fulltrúa við kosningu til sveitarstjórna eða Alþingis. Jafnframt er kveðið á um að stjórnmálasamtök skuli skráð hjá dómsmálaráðuneytinu. Einnig er í þessari grein skilgreining á frambjóðendum samkvæmt frumvarpinu, en það eru þeir sem eru í kjöri til Alþingis, sveitarstjórnar eða til embættis forseta Íslands.


Um 2. gr.


    Í 2. gr. er gert ráð fyrir að öll stjórnmálasamtök sem falla undir skilgreiningu 1. gr. séu bókhaldsskyld. Er það í samræmi við gildandi rétt. Samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt eru stjórnmálasamtök undanþegin framtals- og skattskyldu. Eftirlit skattyfirvalda með stjórnmálasamtökum er því mjög lítið. Til að tryggja nauðsynlegt aðhald gerir frumvarpið ráð fyrir að stjórnmálasamtökum verði gert að skila skattframtali og að reikningar þeirra verði árlega endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum og þeir lagðir fram til samþykktar á landsfundi eða á öðrum sambærilegum vettvangi. Jafnframt er kveðið á um að ársreikningar stjórnmálasamtaka skuli sendir dómsmálaráðuneyti sem hlutast til um birtingu þeirra í B-deild Stjórnartíðinda eigi síðar en einum mánuði eftir samþykkt þeirra.

Um 3. gr.


    Með ákvæði þessu er reynt að stemma stigu við óeðlilegum hagsmunatengslum stjórnmálasamtaka við einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök og sjóði. Reynt er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra með því að gera kröfu um opinbera birtingu á nöfnum þeirra einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka eða sjóða sem veita stjórnmálasamtökum háa styrki. Í 2. mgr. er, að fyrirmynd úr finnskum lögum frá 12. maí 2000, um tilkynningu fjármögnunar frambjóðenda í kosningum, skilgreint hvað felst í fjárframlagi eða ígildi þess. Átt er við gjafafé, vörur, þjónustu og önnur samsvarandi framlög og stuðning sem hægt er að meta til fjár án þess að gagngreiðsla sé veitt. Víða í vestrænum löndum hafa verið lögfestar strangar reglur í þessu sambandi. Undanskilið er þó venjubundið ókeypis vinnuframlag í kosningabaráttu og við kosningar. Í 3. mgr. er enn fremur lagt bann við því að stjórnmálasamtök taki við fjárframlagi eða ígildi þess ef ekki er ljóst hver stendur að baki því. Telja verður þá reglu eðlilega þar sem að öðrum kosti væri auðvelt að komast hjá þeim mörkum sem tiltekin eru í 1. mgr. Ef stjórnmálasamtökum berst nafnlaust fjárframlag ber að fela það dómsmálaráðuneytinu til vörslu og skráningar.

Um 4. gr.


    Í ákvæðinu er að finnskri fyrirmynd, sbr. lög frá 12. maí 2000, um tilkynningu fjármögnunar frambjóðenda í kosningum, kveðið á um að frambjóðendur til Alþingis, sveitarstjórnar eða til embættis forseta Íslands, sem hafa náð kjöri, skuli fyrir lok kosningaárs gera grein fyrir heildarútgjöldum kosningabaráttu og hvernig hún var fjármögnuð og skulu þeir birta yfirlit yfir tekjur og gjöld framboðsins ásamt yfirlýsingu löggilts endurskoðanda um endurskoðun reikninga framboðsins. Með heildarútgjöldum er átt við allan kostnað sem hlýst af kosningabaráttu frambjóðanda, þ.m.t. kostnað sem hlýst af þátttöku í undanfarandi prófkjöri eða annan kostnað í aðdraganda framboðs, svo sem við uppröðun á lista flokks. Jafnframt skal annars vegar gerð grein fyrir eigin fjármunum frambjóðanda sem notaðir eru í kosningabaráttu og hins vegar utanaðkomandi fjárframlögum. Skulu slík fjárframlög sundurliðuð eftir því hvort þau berast frá einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða sjóðum. Til að koma í veg fyrir hættu á hagsmunaárekstrum og óeðlilegum fyrirgreiðslum er mikilvægt að það sé uppi á borðum hverjir styrki frambjóðendur með verulegum framlögum. Því er kveðið á um að tiltaka skuli sérstaklega andvirði fjárframlags eða ígildis þess og hver standi að því ef það nemur meira en 150.000 kr. Með sömu rökum og í 3. gr. er lagt bann við því að frambjóðendur taki við nafnlausum framlögum.

Um 5. gr.


    Til þess að vega upp á móti hertum reglum um styrki frá einstaklingum og fyrirtækjum gerir frumvarpið ráð fyrir að framlög úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka verði lögbundin og verði framlag til stjórnmálasamtaka sérstakur liður í fjárlögum. Slíkt framlag skal í engu skerða rétt þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi samkvæmt gildandi lögum um sérfræðiaðstoð við þingflokka.

Um 6.–8. gr.


    Ákvæði laga um sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokka, nr. 56/1971, eru hér tekin efnislega óbreytt í frumvarpið þar sem eðlilegra þykir að hafa öll lagaákvæði sem snúa að stjórnmálasamtökum á einum stað.

Um 9. gr.


    Gert er ráð fyrir að brot gegn ákvæðum laganna varði sektum. Komi hins vegar til brota á öðrum lögum, svo sem bókhaldslögum, geta legið við þyngri refsingar.

Um 10.–11. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Engar samræmdar reglur gilda um afslætti og ýmiss konar ókeypis þjónustu sem stjórnmálasamtökum er látin í té í tengslum við kosningar, svo sem hjá Hagstofu Íslands eða undirstofnunum ráðuneyta. Stjórnmálasamtök hafa t.d. iðulega fengið afslátt af gjöldum Pósts og síma, en þó hefur þurft að sækja um það í hvert tiltekið skipti og ekki er ljóst hvort hið sama á við um alla í því efni. Eðlilegt er að settar verði skýrar samræmdar reglur um þetta sem stjórnmálasamtök geta gengið að vísum.