Ferill 50. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 50  —  50. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,
Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að hagsmuna Íslands verði best gætt með því að landið varðveiti sjálfstæði sitt og fullveldi og standi utan ríkjasambanda en hafi við þau sem besta samvinnu með sérsamningum án aðildar. Þannig verði sjálfstæð og óháð staða landsins nýtt til að treysta samskiptin við ríki, bandalög og markaði beggja vegna Atlantshafsins og við aðra heimshluta. Sérstök áhersla verði lögð á þátttöku í vest-norrænu og norrænu samstarfi og aðra svæðisbundna samvinnu í okkar heimshluta, þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna, starfi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og starfi Evrópuráðsins.
    Vegna EES-samningsins og annarra framtíðarsamskipta við Evrópusambandið verði af Íslands hálfu leitast við að þróa þau í átt til tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu.
    Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vinna með ríkisstjórninni að nánari útfærslu slíkrar stefnumótunar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á tveimur síðustu þingum, en varð í hvorugt skiptið útrædd. Hún er því endurflutt efnislega óbreytt að mestu leyti, en orðalag hefur verið gert skýrara og það alþjóðasamstarf tilgreint í sjálfri tillögugreininni sem leggja beri sérstaka áherslu á. Hér á eftir fylgir óbreytt greinargerð frá 126. þingi.
    Tillaga þessi var flutt á 125. þingi en varð þá eigi útrædd. Hún er nú endurflutt óbreytt, en með aukinni og endurbættri greinargerð þar sem tekið er mið af þróun mála frá því að tillagan var lögð fram á síðasta þingi. Má t.d. nefna skýrslu utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi sem lögð var fram og rædd eftir að tillagan var flutt. Einnig hefur verið rætt áfram um ýmsa þætti íslenskrar utanríkisstefnu.
    Flutningsmenn leggja ríka áherslu á að íslensk utanríkisstefna eigi að byggjast á góðum samskiptum til allra átta og að forðast beri að loka landið af innan hvers konar ríkjabandalaga. Það er eindregin skoðun flutningsmanna að skynsamlegast sé fyrir Íslendinga að halda óháðri stöðu sinni gagnvart efnahagsbandalögum og leita eftir hagstæðum samningum við slík bandalög í Evrópu, Norður-Ameríku, Austur-Asíu og víðar. Þannig gætu Íslendingar fært sér legu landsins í nyt og átt farsæl samskipti við marga heimshluta án þess að afsala sér sjálfsákvörðunarrétti sínum eða forræði yfir náttúruauðlindum. Slíkt er hins vegar óhjákvæmileg afleiðing aðildar að Evrópusambandinu.
    Hvað efnahagslífið snertir hefur Ísland alla burði til þess að farnast vel sem óháðu ríki í þjóðbraut milli meginlanda. Af sömu ástæðum yrði landið aldrei annað en jaðarsvæði í stórum efnahagsbandalögum á borð við Evrópusambandið. Náttúruauðlindir landsins eru miklar, bæði til lands og sjávar, og ef landsmönnum tekst að viðhalda yfirráðum yfir þeim og koma í veg fyrir mengun og ofnýtingu geta lífskjör hér á landi verið eins og þau gerast best í heiminum. Mörgum smærri þjóðum hefur tekist að nýta sér sérstöðu sína á grundvelli sjálfstæðis eða mikillar sjálfstjórnar. Þær gæta eigin hagsmuna á sjálfstæðum forsendum og gera smæð sína í hópi þjóðanna að styrkleika en ekki veikleika með sjálfstæðri rödd og sjálfstæðum vilja. Staðreyndin er sú að þessum þjóðum hefur vegnað mjög vel. Lífskjör eru til að mynda með því besta sem þekkist í flestum smáríkjum Evrópu og jafnvel Asíu.

Þróun alþjóðaviðskipta.
    Þróun alþjóðaviðskipta er í raun nokkuð mótsagnakennd þar sem hún einkennist samtímis af vaxandi blokkamyndun og viðleitni til fríverslunar. Þannig eru nú þrjár meginviðskiptablokkir í heiminum: Evrópusambandið, Fríverslunarsamtök Norður-Ameríku (NAFTA) og hópur landa í Suðaustur-Asíu (ASEAN). Jafnframt er unnið að stórum fríverslunarsamningum á heimsvísu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Eðli alþjóðavæðingarinnar er mál út af fyrir sig og fylgifiskar hennar mæta nú víða vaxandi gagnrýni og andstöðu. Umfjöllun um annmarka hennar og mögulegar hættur fellur hins vegar utan þessarar greinargerðar.
    Íslendingar þurfa að laga utanríkisviðskipti sín að framangreindri þróun alþjóðaviðskipta sem fyrst. Það væri óráð að loka sig af innan eins efnahagssvæðis vegna þess hversu smátt íslenska hagkerfið er og atvinnuvegirnir tiltölulega einhæfir. Innan Evrópusambandsins ráða ferðinni hagsmunir gamalgróinna iðnríkja Vestur-Evrópu og áhrif Íslands á þeim vettvangi yrðu hverfandi. Þar er sjávarútvegi, sem er stærsta atvinnugrein Íslendinga, fyrst og fremst stjórnað með hafta- og styrkjafyrirkomulagi sem á að vernda sjávarútveg aðildarríkjanna.

Ísland og Evrópusambandið.
    Allt frá mótun samningsins um Evrópskt efnahagssvæði (EES) á árunum um og eftir 1990 hefur framtíð samningsins þótt nokkuð óviss. Svokölluð EFTA-stoð hans varð fljótlega mun veikari en til stóð þar sem Svisslendingar höfnuðu aðild að samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu og bæði Svíar og Finnar gengu í Evrópusambandið. Norðmenn höfnuðu um sama leyti aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú lætur umræða um þriðju aðildarumsóknina, en sú umræða hefur að mestu legið í láginni síðan, aðeins á sér kræla á nýjan leik í Noregi. Enginn vafi er þó á því að úrslit atkvæðagreiðslunnar í Danmörku 28. september sl. munu hafa mikil áhrif. Afdráttarlaus meiri hluti dönsku þjóðarinnar hafnaði evrunni og aðild að myntbandalagi og sendi um leið skýr skilaboð til ráðamanna bæði heima fyrir og í Brussel. Þrátt fyrir að allar helstu valdastofnanir í dönsku samfélagi, þ.e. stærstu stjórnmálaflokkarnir, atvinnurekendur, verkalýðshreyfing, flestir fjölmiðlar o.s.frv., með algera yfirburði fjármagns á bak við sig að auki, reyndu að þvinga fram samþykki kaus danska þjóðin að stíga ekki þetta skref í evrópska samrunaferlinu. Þessi niðurstaða er, fyrir utan að vera stóráfall fyrir dönsku kratastjórnina, áfall fyrir stjórnmálamenn og stjórnmálaöfl hér á landi sem hafa viljað keyra af stað umræðu um nánari tengsl eða aðild okkar að Evrópusambandinu. Þess vegna er líklegt að rólegra verði í þessum efnum en ella hefði orðið og bæði Danir og nágrannar þeirra, eins og Svíar og Bretar, fari sér hægt á næstunni og hugsi sig vel um áður en þeir aðhafast frekar. Því er síður en svo ástæða til óðagots hér á landi eða í Noregi og hyggilegt væri fyrir ráðamenn þessara landa sem annarra að láta sér lexíuna frá Danmörku að kenningu verða.
    Vissulega er staða Íslands í samskiptum við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins langt frá því að vera eins og tillögumenn teldu heppilegasta. Við Íslendingar höfum hins vegar aðlagað okkur að þeim aðstæðum sem EES-samningurinn skapar um nokkurt árabil. Tollalækkanir samkvæmt samningnum hafa auðvitað verið til bóta, enda höfum við borgað fyrir með veiðiheimildum og greiðslum í þróunarsjóð sem voru framlengdar með þvingunum. Þá höfum við líka þurft að bera okkar hlut af rekstrarkostnaði þunglamalegs stofnanakerfis o.s.frv. Deilur um hið liðna þjóna hins vegar litlum tilgangi, enda engan samanburð hægt að gera við það sem ella hefði orðið, t.d. samskipti á grundvelli einfaldari viðskipta- og samstarfssamninga í stað EES. Þá getur það tæpast þjónað hagsmunum Íslands að við veikjum tiltrú á eða gröfum með málflutningi undan samskiptum okkar við Evrópusambandið hvað sem um EES-samninginn má segja sem slíkan. Hlýtur málflutningur núverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, að vekja furðu því að engu er líkara en að hann hafi tekið sér fyrir hendur að sannfæra alla sem málið varðar um bága og versnandi stöðu Íslands innan EES.

Óvissa skaðleg íslenskum hagsmunum.
    Sú óvissa sem ríkir um það hvernig samskiptum Íslands við Evrópusambandið verði háttað í framtíðinni er óheppileg. Svo lengi sem vafi leikur á um hver framtíðarstefnan verður eru aðilar í hálfgerðri biðstöðu og Íslendingar geta ekki skipulagt samskipti sín við ýmsa aðila í löndum ESB eða einbeitt sér sem skyldi að samskiptum við aðra heimshluta. Það gildir jafnt um utanríkisþjónustuna, ráðuneyti og opinberar stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök. Því er nauðsynlegt að Alþingi taki af skarið og marki stefnuna í stórum dráttum svo að forsendur eða grundvöllur samskiptanna liggi fyrir. Þá verður hægt að byggja upp það fyrirkomulag sem best samrýmist hagsmunum Íslands til framtíðar litið. Við athugun þessara mála þarf þjóðin að líta til allra átta, óbundin af núverandi stöðu. Gera verður þá kröfu til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka að þeir reyni að tala skýrt í þessu afdrifaríka máli. Umræða um mikilsverð utanríkismál eins og framtíðarfyrirkomulag samskipta okkar við Evrópusambandið er mikilvæg og sjálfsögð og Vinstri hreyfingin – grænt framboð og þingmenn hennar eru hvar og hvenær sem er tilbúnir til slíkra umræðna. Einnig þurfum við sem þjóð, að sjálfsögðu hér eftir sem hingað til, að fylgjast með þróun mála í kringum okkur. Nauðsyn þessa er hins vegar ekki afsökun fyrir því að tala óljóst og dulbúa afstöðu, eða þá afstöðuleysi, í endalausum orðavaðli um að það þurfi að taka málið á dagskrá, ræða það og skoða, fylgjast með, tímarnir séu að breytast o.s.frv. Í öllum aðalatriðum liggur fyrir hvað fælist í aðild að Evrópusambandinu og skýrsla utanríkisráðherra frá sl. vori er gagnlegt innlegg í þá umræðu. Mönnum er því engin vorkunn að taka skýra afstöðu til mála í ljósi aðstæðna og þar sem ekki er líklegt að þær breytist í grundvallaratriðum í fyrirsjáanlegri framtíð ætti slík stefnumörkun að fá staðist.

Rök með og á móti aðild.
    Skipta má helstu rökum stuðningsmanna aðildar að Evrópusambandinu í tvennt. Annars vegar eru það nauðhyggjuröksemdir og hins vegar rök sem ganga út á nauðsyn aðildar til að hafa áhrif.
    Af fyrra taginu eru fullyrðingar eins og þær að EES-samningurinn sé á fallanda fæti, verði EES-samningurinn ónothæfur í núverandi mynd sé ekki um annað að ræða en að „stíga skrefið til fulls“, þ.e. að ganga í Evrópusambandið. Einnig er óspart látið að því liggja að Norðmenn kunni að ganga í Evrópusambandið einhvern tímann á komandi árum. Þá er sagt að allir aðrir séu að ganga í Evrópusambandið og er þá væntanlega verið að vísa til stækkunar þess til austurs og þannig mætti áfram telja. Í slíkum fullyrðingum eru ekki fólgnar efnislegar röksemdir heldur miklu fremur ákveðin tegund hræðsluáróðurs eða nauðhyggju eins og áður sagði. Hafa ber í huga að samskipti Íslands við aðrar þjóðir og heimshluta byggjast á tvíhliða samskiptum. Sá kostur er að sjálfsögðu einnig opinn að því er snertir samskipti við Evrópusambandið. Ekkert bendir til að við eigum ekki alla möguleika á að búa farsællega um samskipti okkar við Evrópusambandið án aðildar þó að samningurinn um EES breytist eða t.d. stofnanir hans hverfi. Slíkt gæti jafnvel einfaldað þau atriði sem mestu máli skipta, viðskiptaþættina, samstarf á sviði menntunar og rannsókna og, eftir atvikum, samræmingu löggjafar, sem við getum að sjálfsögðu framkvæmt að eigin frumkvæði, og fleira.
    Sú röksemd að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið til að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku sem þar fer fram virðist á yfirborðinu nokkuð gild, en dugir skammt þegar betur er að gáð. Fyrir það fyrsta verður að svara því hver líkleg áhrif smáríkis á borð við Ísland í stækkandi Evrópusambandi yrðu og hvaða verði yrðu þau „áhrif“ keypt? Hvað mundi það kosta smáríki eins og okkar að gæta hagsmuna okkar innan frá á öllum vígstöðvum þessa mikla bákns og hvað með okkar sérstöðu og áhrif annars staðar á alþjóðavettvangi? Færa má rök fyrir því að þessu með áhrifin sé einmitt öfugt varið því að með aðild missum við sjálfstæða rödd og sjálfstæða fulltrúa í öðrum alþjóðasamskiptum og færumst yfir í baksveitir sem minnsta þjóðin af 15 eða 25 á bak við fulltrúa framkvæmdastjórnar eða ráðherraráðs. Hefðu áhrif Íslands verið meiri eða minni, t.d. í hafréttarmálum, utan eða innan Evrópusambandsins sl. þrjátíu ár eða svo? Svarið liggur nokkuð í augum uppi. Það var vegna sjálfstæðis okkar og fullveldis að við gátum beitt okkur sem raun ber vitni, ekki síst í andstöðu við Evrópusambandsríkin.

Ókostir aðildar.
    Ef farið er yfir helstu ókosti aðildar að Evrópusambandinu, kostnað og fórnir sem henni yrðu samfara, vegur eftirfarandi þyngst að mati flutningsmanna:

1. Afsal sjálfstæðis og fullveldis, glötuð sérstaða.
    Framsal á fullveldi Íslands er veigamesta ástæðan fyrir því að aðild að Evrópusambandinu er ekki fýsilegur kostur að mati tillögumanna. Þar með væru Íslendingar skuldbundnir til að innleiða alla lagasetningu Evrópusambandsins hér á landi og Evrópudómstóllinn yrði æðsti dómstóll Íslendinga. Breytingin frá því sem við búum við nú yrði umtalsverð vegna þess að íslenskir dómstólar skýra innlendar réttarreglur til samræmis við EES-samninginn á grundvelli íslenskra lögskýringarreglna. Landsdómstólar í aðildarríkjum ESB framselja hins vegar þetta vald til Evrópudómstólsins.
    Því er stundum haldið fram í umræðu um þessi mál að með aðild að ESB kæmu Íslendingar beint að lagasetningu ESB og gætu þannig haft mun meiri áhrif en nú. Einnig er sagt að þeir fengju neitunarvald í ráðherraráðinu sem mundi styrkja mjög stöðu Íslands á þessum vettvangi. Minnt skal á að það er engan veginn auðvelt að beita neitunarvaldi vegna fjölmargra samtengdra hagsmuna og samskipta. Jafnframt hafa leikreglur breyst hratt innan ESB með breytingum á stofnsamningi þar sem meirihlutaákvörðun gildir á æ fleiri sviðum. Á sinn hátt gildir svipað um þetta og „öryggisákvæðið“ í EES-samningnum sem ekki hefur verið beitt fram að þessu.
    Að öllu samanlögðu er það mat tillögumanna að langskynsamlegast sé að þróa samskipti Íslands við Evrópusambandið í átt til tvíhliða samninga um fríverslun, rannsóknir og vísindi og félagslegt og menningarlegt samstarf. Eðlilegt er að leita eftir slíkum samningum á grundvelli tiltekinna þátta í EES-samningnum og með hliðsjón af Lúxemborgaryfirlýsingunni frá 1984 en hún varðaði m.a. samstarf á sviði mennta- og menningarmála, umhverfismála og rannsókna- og þróunarstarfs.

2. Skertir möguleikar til sjálfstæðrar efnahagsstjórnar.
    Ljóst er að aðild að Evrópusambandinu mundi skerða mjög möguleika íslenskra stjórnvalda til sjálfstæðrar efnahagsstjórnar frá því sem nú er. Sveiflur í efnahagslífinu hér á landi eiga sér aðrar rætur en gengur og gerist á meginlandi Evrópu. Þar af leiðandi er afar varhugavert fyrir Íslendinga að vera bundnir af sameiginlegri efnahagsstefnu ESB, enda hefðu íslensk stjórnvöld þá enga möguleika á að bregðast sjálfstætt við, t.d. til að koma í veg fyrir stórfellt atvinnuleysi. Endastöð slíkrar bindingar væri aðild að myntbandalagi Evrópusambandsins (EMU) sem flestöll ríki ESB verða aðilar að innan tíðar. Þar með væri sjálfstæð gengisskráning úr sögunni sem er afar óheillavænleg staða fyrir land sem treystir jafnmikið á útflutning og raun ber vitni. Sveiflur efnahagslífsins á Íslandi mundu eðlilega ekki hafa nokkur minnstu áhrif á sameiginlega gengisskráningu í Evrópusambandinu sem hefur innan sinna vébanda mörg stór hagkerfi, þar á meðal fjögur af sjö helstu iðnríkjum heims. Tæpast þarf að fjölyrða um hversu alvarlegar afleiðingar aðild að efnahagsstefnu ESB, svo ekki sé talað um sameiginlegan gjaldmiðil, hefði haft fyrir íslenskt efnahagslíf við þær aðstæður sem hér hafa ríkt á allra síðustu árum.

3. Hagsmunum sjávarútvegsins fórnað.
    Ljóst er að með inngöngu í Evrópusambandið mundu Íslendingar glata forræði yfir auðlindum hafsins við Ísland til framkvæmdastjórnar ESB. Að undanförnu hafa ýmsir haldið því fram að reglur Evrópusambandsins um stjórn fiskveiða mundu leiða til þess að Íslendingar sætu einir að veiðunum þar sem aðrar þjóðir hafi nánast enga veiðireynslu á Íslandsmiðum. Þar með er sú einkennilega staða komin upp að einhver mikilvægasti ávinningur sjálfstæðisbaráttunnar, útfærsla efnahagslögsögunnar og afleiðingar hennar, er notaður sem rök fyrir því að óhætt sé að afsala sér sjálfstæðinu í þessum efnum. Í þeim málflutningi er látið undir höfuð leggjast að fjalla um augljósar afleiðingar ESB-aðildar sem m.a. varða svokallað kvótahopp. Í því felst að fyrirtækjum í aðildarlöndum sambandsins væri í lófa lagið að skrá skip sín á Íslandi, fá veiðiheimildir hér en landa aflanum í heimalandinu. Þetta er vel þekkt innan ESB og hefur valdið mörgum sjávarbyggðum þar miklum vandræðum. Evrópudómstóllinn hefur svo ofan í kaupið dæmt í óhag ríkjum eins og Bretlandi, sem haft hafa uppi tilburði til að stöðva kvótahopp. Einnig er borðleggjandi að af hálfu þjóða eins og Spánverja yrði viðvarandi þrýstingur á að komast inn í íslensku landhelgina og gjarnan reynt að versla um slíka hluti í tengslum við lausn óskyldra deilumála eins og dæmin sanna. Slík hrossakaup eru venjulegur framgangsmáti innan Evrópusambandsins, eins og Íslendingar fengu meðal annars að kynnast í deilunum um áframhaldandi greiðslur í þróunarsjóðinn á grundvelli EES-samningsins.
    Engar líkur eru á að í þessum efnum standi Íslandi annað til boða en í mesta lagi tímabundin aðlögun að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Eftir slíkan aðlögunartíma mundu ýmis málefni sem snerta þessa mikilvægu atvinnugrein flytjast til framkvæmdastjórnarinnar í Brussel. Þar má nefna ákvörðun um heildarveiðiheimildir, stjórn veiða úr deilistofnum og samskipti við önnur ríki, t.d. óútkljáð deilumál um skiptingu veiðiheimilda úr flökkustofnum. Það yrði óumdeilanlega mikil afturför ef sjálfstæð rödd Íslands í hafréttarmálum á alþjóðavettvangi hljóðnaði.

4. Áfall fyrir íslenskan landbúnað.
    Eins og fram kemur í fyrrnefndri skýrslu utanríkisráðherra bendir allt til þess að aðild að Evrópusambandinu yrði áfall fyrir allar greinar landbúnaðarins hér á landi, nema helst sauðfjárræktina. Útkoma sauðfjárbænda yrði þó undir því komin að ná hingað sem mestu af þeim styrkjum sem Evrópusambandið veitir greininni á þeim forsendum að hún er algjör aukabúgrein í ESB.
    Oft er látið að því liggja að ESB-aðild mundi koma neytendum mjög til góða í formi lægra verðs á matvælum. Þessu var mjög haldið á loft í Finnlandi og Svíþjóð á sínum tíma og um það snúast einmitt einhver mestu vonbrigði almennings í þessum löndum eftir inngönguna í ESB. Matvælaverð hefur ekki lækkað eins og stuðningsmenn aðildar fullyrtu að mundi gerast en inngangan hefur jafnframt reynst landbúnaðinum í þessum löndum þung í skauti, einkanlega í Finnlandi.

5. Hagsmunir ferðaþjónustunnar.
    Mörg álitamál tengjast hagsmunum einnar helstu vaxtargreinar íslensks atvinnulífs um þessar mundir, þ.e. ferðaþjónustunnar, og mögulegri aðild að Evrópusambandinu. Flestir eru sammála um að óumflýjanleg aðild að tollsamstarfinu, og þar með afnám tollfrjálsrar verslunar, kæmi sér illa fyrir ferðaþjónustuna, fyrir rekstur flug- og ferjuhafna, fríhafnarverslana og skattfrjálsrar ferðamannaverslunar. Einnig óttast margir að verr gengi að tefla fram og kynna sérstöðu landsins og gera það spennandi að ferðast hingað ef landið væri orðið hluti af Evrópusambandinu. Möguleikar Íslands til að setja sérreglur, t.d. á sviði umhverfismála vegna mikilla og sérstakra hagsmuna ferðaþjónustunnar, minnkuðu og fleira mætti nefna.

6. Fjarlægt og miðstýrt Brusselvald, ólýðræðisleg ákvarðanataka.
    Miðstöð stjórnvalds í Evrópusambandinu er í Brussel. Þar situr framkvæmdastjórnin og Evrópudómstóllinn og Brussel er einn þriggja samkomustaða Evrópuþingsins. Sú skoðun er afar útbreidd í ESB-löndunum að stjórnkerfi sambandsins einkennist af óhóflegri miðstýringu og mikil fjarlægð sé á milli valdhafanna og þegnanna. Óhætt er að segja að þeir sem gagnrýna miðstýringuna hafi mikið til síns máls og má í því sambandi benda á að einstök ríki Bandaríkjanna hafa í sumum tilfellum mun meira sjálfstæði gagnvart alríkisstjórninni en ESB-ríki gagnvart æðstu stjórn Evrópusambandsins í Brussel.
    Um fjarlægðina á milli valdhafanna í ESB og almennings í aðildarlöndunum má nefna tvö dæmi, hvort frá sinni hlið. Annars vegar er kjörsókn í kosningum til Evrópuþingsins yfirleitt mjög slök og hróplega léleg í samanburði við aðrar kosningar í ESB-löndunum, svo sem til þings og sveitarstjórna. Úrslitin gefa iðulega til kynna að kjörsókn í Evrópuþingskosningum sé mun meiri meðal andstæðinga ESB-aðildar en fylgismanna. Almenningur virðist því ekki hafa mikla trú á Evrópuþinginu sem slíku og þarf það ekki að koma á óvart þar sem það er aðeins ráðgefandi fyrir framkvæmdastjórnina en hefur ekki eiginlegt löggjafarvald.
    Hins vegar má benda á hvernig samrunaferlið innan ESB hefur verið knúið áfram af valdhöfunum gagnvart almenningi í aðildarlöndunum. Skemmst er að minnast þess þegar Danir felldu Maastricht-samkomulagið í þjóðaratkvæðagreiðslu og stjórnvöld efndu til nýrra kosninga um málið eftir að hafa fengið undanþágur frá tilteknum ákvæðum samkomulagsins. Það hefur líka sýnt sig að þar sem á annað borð er efnt til kosninga um samrunaferlið er gríðarlegum fjármunum varið til að sannfæra almenning um ágæti þess. Nú síðast var þetta áberandi í þjóðaratkvæðagreiðslu Dana um þátttöku í myntbandalagi Evrópusambandsins og notkun evrunnar í stað dönsku krónunnar.
    Í raun og veru eiga aðildarríkin lítið val þegar kemur að breytingum á Rómarsáttmálanum, stofnsáttmála sambandsins, á borð við Maastricht- og Amsterdam-samkomulagið. Að hafna slíkum gerðum jafngildir úrsögn úr Evrópusambandinu og það er viðurkennt að í stofnsáttmálanum er einfaldlega ekki gert ráð fyrir því að ríki geti gengið úr Evrópusambandinu þegar þau eru einu sinni komin þangað inn.
    Þessu til viðbótar má nefna að langur vegur er frá því að lýðræðisleg vinnubrögð séu viðhöfð þegar ákvarðanir eru teknar af framkvæmdastjórn og ráðherraráði ESB. Ráðherrar einstakra ríkja geta beitt neitunarvaldi en til þess hefur enn ekki komið, enda væri sambandið þá í uppnámi. Af þeim sökum fer iðulega fram mikill kaupskapur til að tryggja stuðning fulltrúa allra ríkja við nýjar ákvarðanir. Þetta leiðir af sér óeðlilega mikið vægi sérhagsmuna við afgreiðslu margra mála enda þarf þá að launa einstökum fulltrúum fyrir stuðning við fyrri ákvarðanir.

7. Varhugaverðir tollmúrar.
    Íslendingar eiga afar mikið undir útflutningi, einkum á sjávarafurðum. Með inngöngu í Evrópusambandið yrðu Íslendingar að taka upp sömu tollastefnu og önnur lönd bandalagsins gagnvart ríkjum utan ESB. Þar með væri forræði landsins á sviði viðskiptasamninga úr sögunni og samningsumboðið á hendi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þetta mundi augljóslega hefta möguleika Íslendinga á að sækja fram og leita nýrra markaða í öðrum heimshlutum. Það kæmi sér sérstaklega illa ef markaðurinn í ESB-löndum brygðist af einhverjum ástæðum. Nauðsynlegur sveigjanleiki í þessum efnum er best tryggður með samningum við efnahagsbandalög og einstök ríki um fríverslun og félagsleg og menningarleg samskipti.
    Rétt er að benda á að tveir mikilvægustu útflutningsmarkaðir Íslendinga utan Evrópu, Norður-Ameríka og Suðaustur-Asía, hafa myndað viðskiptablokkir sem keppa við Evrópusambandið og standa í illdeilum við það á mörgum sviðum, m.a. varðandi tollamál og viðskiptakjör. Hagsmunir Íslands mundu af augljósum ástæðum ekki vega þungt í samskiptum ESB við þessar viðskiptablokkir og því er varhugavert fyrir Íslendinga að lenda innan tollmúra Evrópusambandsins.

8. Mikill kostnaður.
    Það liggur fyrir að aðild að Evrópusambandinu yrði Íslendingum dýr. Að óbreyttu er hún talin kosta í kringum 8 milljarða kr. en líklegt er að með stækkun sambandsins yrði þessi upphæð á bilinu 10–12 milljarðar. Í besta falli væri mögulegt að fá helming þeirra fjármuna til baka í formi styrkja. Rétt er þó að hafa í huga að slíkir styrkir koma sjaldnast fyrirhafnarlaust. Því fylgir mikil vinna að krækja í þá, oftar en ekki er krafa um mótframlag af hálfu heimalandsins og upphæðinni að endingu skipt milli fleiri aðila. Þess vegna gætir oft þess misskilnings í umfjöllun um styrkupphæðir og sameiginleg verkefni að heildarfjárhæðin renni til viðkomandi aðila sem nettóframlag frá Evrópusambandinu, sem sjaldnast er tilfellið. Allir slíkir útreikningar eru auðvitað háðir mörgum óvissuþáttum, enda eiga þeir ekki að vera neitt aðalatriði í málinu. Ísland er vissulega eitt af ríkustu löndum heims og mætti gjarnan leggja meira af mörkum til aðstoðar þeim löndum sem verr standa. Það geta Íslendingar hins vegar hæglega gert á eigin forsendum ef viljinn er fyrir hendi og ráðstafað þeim fjármunum eins og þeir sjálfir telja skynsamlegast. Ekki má heldur gleyma því að það er dýrt að halda uppi velferðarsamfélagi í fámennu og strjálbýlu landi. Engin trygging er fyrir því að þær sérstöku aðstæður, sem við búum við á Íslandi, mundu alltaf mæta skilningi hjá framkvæmdarvaldinu í Brussel.
    Loks er rétt að taka fram að flutningsmenn hafa allan fyrirvara á gagnvart þeirri hugmyndafræði sem mestu ræður bak við tjöldin um þróun mála hjá Evrópusambandinu. Hagsmunir fjármagnseigenda og stórfyrirtækja hafa verið drifkrafturinn á bak við markaðsvæðingu og afnám allra hindrana í vegi fjármagnsflutninga, fjárfestinga milli landa o.s.frv. Almenningur aðildarlandanna gerir sér æ betur grein fyrir því að þrátt fyrir tal um Evrópu fólksins og ýmis ágæt markmið og reglur á sviði t.d. félagsmála og umhverfismála er það samt fyrst og fremst Evrópusamband fjármagnsins og Evrópusamband stórfyrirtækjanna sem verið er að skapa. Þetta er án efa ein skýringin á þeirri miklu og breikkandi gjá sem hefur verið að skapast á milli almennings og þeirra sem ráða ferðinni og reka Evrópusamrunann áfram.

Samningar Svisslendinga.
    Á síðasta ári gerðu Svisslendingar tvíhliða samning við Evrópusambandið um samskipti á sjö sviðum. Þau eru afnám tæknilegra viðskiptahindrana, frjálsar ferðir fólks, rannsóknir, opinber innkaup, samgöngur á landi, farþegaflug og viðskipti með landbúnaðarafurðir. Gert er ráð fyrir að samningurinn gangi í gildi árið 2001 og verði þá hluti af löggjöf beggja samningsaðila. Samningurinn felur ekki að neinu leyti í sér framsal löggjafarvalds til yfirþjóðlegra stofnana. Meiri hluti samningsákvæðanna felur í sér gagnkvæma viðurkenningu á löggjöf beggja samningsaðila. Hins vegar er kveðið á um upplýsingaskyldu og sérstakt viðræðuferli ef annar samningsaðili hyggst breyta sinni löggjöf á sviðum samningsins. Ekki er vafi á því að vænlegt gæti verið fyrir Íslendinga að fylgja fordæmi Svisslendinga í þessum efnum og leita eftir tvíhliða samningum um samskipti við Evrópusambandið á afmörkuðum sviðum.

Aðrir heimshlutar.
    Eðlilegt er að líta á vaxandi samskipti við Norður-Ameríku sem rök fyrir því að halda óháðri stöðu gagnvart efnahagsbandalögum á borð við Evrópusambandið. Ísland hefur um langt skeið átt mikil samskipti við Bandaríkin, m.a. á sviði viðskipta og mennta- og menningarmála. Þessi samskipti munu áfram hafa mikla þýðingu fyrir Íslendinga en aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi fljótlega hafa veruleg áhrif á þróun þeirra. Þarf raunar ekki beina aðild til, eins og glöggt má sjá af Schengen-samningnum sem nú er að verða að veruleika. Undanfarin ár hafa samskipti Íslands og Kanada einnig aukist verulega, ekki síst í tengslum við afmæli landafunda norrænna manna í Vesturheimi og vaxandi áhuga Íslendinga og Kanadamanna af íslenskum ættum á sögu íslensku vesturfaranna. Á síðasta ári var opnuð aðalræðisskrifstofa í Winnipeg og Ísland hefur ákveðið að opna sendiráð í Kanada þegar á næsta ári.
    Fleira bendir til vaxandi samskipta og viðskipta við Norður-Ameríku í náinni framtíð. Gert er ráð fyrir að viðræðum EFTA-ríkjanna og Kanada um fríverslunarsamning ljúki innan tíðar og að hann verði undirritaður áður en langt um líður. Þetta er stærsti fríverslunarsamningur sem EFTA-ríkin hafa gert frá því að EES-samningurinn var undirritaður. Með honum verður útflytjendum í EFTA-löndunum tryggður tollfrjáls aðgangur að Kanadamarkaði og jafngóð útflutningsskilyrði og útflytjendur búa við í hinum NAFTA-ríkjunum, Bandaríkjunum og Mexíkó. Samningurinn gerir samkeppnisaðstöðu EFTA-landanna betri en ESB-landa hvað snertir vöruútflutning til Kanada. Landfræðilega markar samningurinn ákveðin tímamót því að hingað til hefur EFTA einkum beint sjónum sínum að Mið-Evrópu og löndum við Miðjarðarhaf. Þá eru samningaviðræður EFTA og Mexíkós um fríverslun hafnar og ráðgerðar eru viðræður við Chile.
    Þótt afturkippur hafi komið í efnahagslíf margra Asíulanda fyrir nokkru og þess gæti enn að nokkru leyti í utanríkisviðskiptum þeirra er eftir sem áður vænlegur markaður þar. Vissar afurðir hafa fyrst og fremst farið héðan til Asíu, einkum Japans sem er efnahagslegt stórveldi og stendur utan ASEAN-hópsins. Mögulegt er að viðskiptin verði ekki síður mikil við Kína í framtíðinni en margir telja að þar sé álitlegur markaður fyrir sjávarafurðir. Slík viðskipti gætu haft í för með sér stóraukna vinnslu á uppsjávarfiski til manneldis. Loks má nefna að Íslendingar hyggjast opna sendiráð í Japan árið 2001 og japönsk stjórnvöld hafa lýst yfir að þau muni opna sendiráð hér á landi sama ár.

Niðurstaða.
    Það er sannfæring flutningsmanna þessarar tillögu að Íslendingar geti skapað sér sterka stöðu utan stórra efnahags- og ríkjasambanda og nýtt með því þá kosti sem felast í legu landsins. Treysta á möguleika á alhliða samskiptum við umheiminn en forðast að lokast af innan einstakra viðskiptablokka eða ríkjasambanda. Stefnumörkun í þessum efnum varðar miklu um framtíð lands og þjóðar. Það er staðreynd sem ekki verður hrakin að Íslendingum hefur vegnað vel sem sjálfstæðri þjóð og aldrei betur en síðustu fimmtíu ár. Á þeim tíma höfum við nær alfarið haft forræði eigin mála. Á grundvelli fullveldis gátum við stigið mikilvægustu skrefin til að tryggja afkomu og velferð þjóðarinnar. Nærtækasta og skýrasta dæmið er útfærsla landhelginnar og þau áhrif sem Íslendingar, sem fullvalda þjóð með sjálfstæða rödd á alþjóðavettvangi, höfðu á þróun hafréttarins. Sama gildir um sjálfstæða stöðu okkar í samningum um fiskveiðiréttindi og skylda hluti. Við höfum sjálf getað gætt auðlinda okkar og nýtt þær eða virkjað í eigin þágu og í samræmi við eigin hagsmuni. Sjálfstæðið hefur sem slíkt reynst okkur verðmæt auðlind. Tillagan sem hér er flutt snýst um að marka grundvallarstefnu og meginlínur í alþjóðasamskiptum Íslendinga. Vegna mikilvægis málsins og þess hversu gæfuríkt það væri ef landsmönnum tækist að sameinast um megináherslur í þessu afdrifaríka máli er lagt til að skipuð verði þverpólitísk nefnd allra stjórnmálaflokka til að vinna að því með stjórnvöldum. Á það má minna að á árunum 1988–90 starfaði nefnd níu alþingismanna, svonefnd Evrópustefnunefnd, um stefnu Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu kosin hlutbundinni kosningu á Alþingi og því skipuð fulltrúum allra þingflokka.



Fylgiskjal.


Kafli úr stefnuyfirlýsingu stofnfundar
Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs.

Sjálfstæð utanríkisstefna.

    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu. Hreyfingin vill binda enda á aðild Íslands að hernaðarbandalögum og veru erlends hers í landinu. Brýnt er að friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorkuvopnum og banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafnar aðild Íslands að Evrópusambandinu þar eð slík aðild mundi skerða fullveldi Íslands og forræði þjóðarinnar yfir auðlindum lands og sjávar. Í stað hægfara innlimunar í Evrópusambandið ber að þróa samskiptin í átt til einfaldari tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill efla samstarf allra þjóða heims á grundvelli jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar fyrir ólíkum skoðunum og menningu. Við vörum við aðgerðum sem beint er gegn velferð þjóða og þjóðarbrota. Nauðsynlegt er að leggja hömlur á spákaupmennsku með fjármagn heimshorna á milli með sérstakri skattlagningu eða alþjóðlegum reglum.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill efla þátttöku Íslands í stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar sem öll ríki eiga aðild, svo og í svæðisbundnum samtökum, svo sem Norðurlandaráði, Evrópuráði og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Við viljum efla starfsemi Sameinuðu þjóðanna og styrkja lýðræðislega starfshætti á vettvangi þeirra. Treysta ber stoðir þjóðaréttar í þágu friðar og mannréttinda og stuðla að aukinni þátttöku almennra félagasamtaka í stefnumörkun alþjóðamála.
    Ísland á að styðja eindregið markmið Sameinuðu þjóðanna og ákvæði mannréttindayfirlýsingarinnar með því að leggja sitt af mörkum til útrýmingar fátæktar, hungurs, félagslegs ranglætis, misskiptingar auðs, kynþáttamismununar, mannréttindabrota og hernaðarhyggju.