Ferill 140. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 140  —  140. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987.

Flm.: Hjálmar Árnason, Vilhjálmur Egilsson.



1. gr.


    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Ökumanni sem hyggst beygja til hægri við gatnamót á umferðarljósum er heimilt að beygja á móti rauðu ljósi nema sérstaklega sé tekið fram að það sé óheimilt. Hann skal þó ætíð stöðva eins og við stöðvunarskyldu og veita umferð sem kemur úr öðrum áttum forgang.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillögur um heimild til hægri beygju á móti rauðu ljósi voru fluttar á 121. og 122. löggjafarþingi en náðu ekki fram að ganga. Að þessu sinni er málið flutt sem frumvarp til breytinga á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987.
    Markmið frumvarpsins er að taka upp þá meginreglu að bifreiðastjórum verði heimilt að beygja til hægri á umferðarljósum á móti rauðu ljósi. Að öðru leyti skulu almenn umferðarlög gilda, svo sem um stöðvunarskyldu og forgang umferðar úr öðrum áttum. Þessi regla hefur um langt bil verið gildandi í Bandaríkjunum og Kanada og gefið góða raun. Oft neyðist bifreiðastjóri, sem hyggst taka hægri beygju, til að bíða á móti rauðu ljósi þótt engin umferð sé í þá akstursstefnu. Mikið hagræði væri af því að bifreiðastjórinn gæti haldið för sinni áfram án þess að bíða eftir grænu ljósi. Það stytti biðtíma margra bílstjóra, losaði um umferðarteppu á álagstímum og greiddi almennt fyrir umferð. Þá er ónefndur sá þáttur að slík heimild drægi úr kostnaði við lagningu afreina í sumum tilvikum.
    Áhersla er lögð á að bifreiðastjóra ber að meta aðstæður og virða almennar umferðarreglur þegar ákvörðun um hægri beygju móti rauðu ljósi er tekin. Í raun er um svipaða ábyrgð og ákvörðun að ræða og þegar bifreiðastjóri tekur ákvörðun um að aka úr aðrein inn á aðalbraut.
Í einhverjum tilvikum getur verið óheppilegt að leyfa hægri beygju móti rauðu ljósi og skal þá tekið sérstaklega fram með þar til gerðum merkingum að slík beygja sé óheimil. Meginreglan á að vera sú að hægri beygja móti rauðu ljósi sé heimil nema annað sé tekið fram sérstaklega.