Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 151  —  151. mál.
Tillaga til þingsályktunarum persónuafslátt barna.

Flm.: Ármann Höskuldsson.    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd til þess að undirbúa breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þannig að foreldrar njóti 50% persónuafsláttar fyrir hvert barna sinna.

Greinargerð.


    Þjóðinni er mikilvægt að halda jöfnum og jákvæðum vexti svo að jafnvægi aldurssamsetningarinnar raskist ekki. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að ríkisvaldið taki af skarið og byggi upp skattkerfið þannig að það taki tillit til barnmargra fjölskyldna. Öllum má vera ljóst að barnafjölskyldur verða fyrir hlutfallslega meiri útgjöldum en einstaklingar og barnlausir sambýlingar. Tekjutenging barnabóta er enn óeðlilega mikil. Fyrirvinnur barnmargra fjölskyldna þurfa að vinna meira til að metta munnana og brjóta því skjótt launamúrinn sem notaður er til viðmiðunar barnabóta. Þannig hefur kerfið í raun snúist upp í andstöðu gagnvart fjölskyldum í landinu, smáum sem stórum. Hagstætt skattaumhverfi til handa barnafjölskyldum er engu þýðingarminna fyrir þjóðarhag en hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja. Framtíð þjóðarinnar byggist ekki hvað síst á eðlilegri fjölgun þegnanna.