Ferill 199. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 213  —  199. mál.
Tillaga til þingsályktunarum eflingu ferðaþjónustu á norðausturhorni Íslands.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Svanfríður Jónasdóttir,
Einar Már Sigurðarson, Kristján L. Möller.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta gera áætlun um að styðja og efla ferðaþjónustu á norðausturhorni landsins. Í áætluninni verði meðal annars skilgreind þau verkefni sem nauðsynlegt er að ráðast í svo að tilgangi tillögunnar verði náð, metinn kostnaður við einstaka liði átaksins og bent á fjármögnunarleiðir. Gerð áætlunarinnar verði lokið fyrir árslok 2003 og hún kynnt á almennum borgarafundi í héraði.

Greinargerð.


    Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem er í einna örustum vexti á Íslandi. Að frátöldum sjávarútvegi skapaði hún árið 2000 mestan erlendan gjaldeyri, örlitlu meiri en orkufrek stóriðja. Kostir ferðaþjónustu fyrir smáan atvinnurekstur eru margvíslegir. Hún getur skapað fjölda starfa án þess að krefjast mikils fjármagns. Ferðaþjónusta er einnig mikilvæg að því leyti að hún eykur fjölbreytni starfa sem konur í strjálbýli eiga kost á. Reynslan sýnir líka að oft er auðvelt með litlum tilkostnaði að hefja rekstur á sviði ferðaþjónustu með því að breyta fyrirliggjandi húsakosti í gistiaðstöðu, sem skapar störf og mikilvægar aukatekjur fyrir fjölda smárra rekstraraðila í strjálbýlinu. Það er því brýn nauðsyn að ýta undir ferðaþjónustu eins og kostur er, ekki síst á svæðum eins og norðausturhorni Íslands sem búa að rómaðri náttúrufegurð ásamt sérstakri sögu og mannlífi, og þar sem ný störf vantar.

Nýtum nágrennið.
    Hefðbundin ferðaþjónusta hefur staðið áratugum saman með miklum blóma á vesturjaðri norðausturhorns Íslands, þ.e. í Mývatnssveit, sem með gersemina Dimmuborgir er eitt af langmest sóttu svæðum landsins, og sömuleiðis í Ásbyrgi og þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum, sem fast að 100 þúsund manns heimsækja árlega. Húsavík siglir sömuleiðis hraðbyri í að verða einn af þekktustu ferðamannastöðum landsins í krafti annálaðs hvalasafns og hvalaskoðunarferða.
    Austan þessa svæðis tekur við norðausturhornið, viðfangsefni tillögunnar sem hér er lögð fram. Það nær yfir Melrakkasléttu, Öxarfjörð og Langanes, þar sem er að finna þrjá þéttbýlisstaði, Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn. Þrátt fyrir nándina við þessa miklu ferðamannastaði nýtur norðausturhornið í sorglega litlu gestafjöldans sem sækir þá heim. Fyrir vikið skipar ferðamennska of veigalítinn sess í atvinnulífi þar.
    Ástæða þess er fyrst og fremst sú að einstakar náttúruperlur norðausturhornsins og frábærir möguleikar til útivistar hafa ekki verið kynntir nægilega, og alls ekki í tengslum við áðurnefnd ferðamannasvæði. Á því er rík nauðsyn, þannig að norðurfarar, sem á annað borð koma til að skoða Dettifoss, Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur, eða Mývatn og Húsavík, líti á það sem sjálfsagt og eðlilegt framhald ferðarinnar að halda leið sinni áfram austur á bóginn, njóta alls þess sem norðausturhornið hefur upp á að bjóða, og létta helst ekki ferðinni fyrr en komið er á Skoruvíkurbjarg á Langanesi, eitt merkilegasta sjófuglabjarg veraldar. En þaðan er stutt að fara á Font og að Skálum. Flutningsmenn telja að hiklaust beri að stefna að því að Skoruvíkurbjarg verði hinum almenna ferðamanni, innlendum sem erlendum, jafneftirsóttur og eðlilegur viðkomustaður og Dettifoss eða Ásbyrgi. Rétt er að undirstrika að til að hægt sé að lyfta norðausturhorninu sem ferðamannasvæði er nauðsynlegt að tryggja góðar samgöngur og átak í þeim á næstu árum er liður í því að efla ferðaþjónustu á svæðinu.
    Tækist að tengja betur norðausturhornið og gersemar þess við hina hefðbundnu ferðamannastaði Norðurlands yrði það mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu austan Tjörness. En á Tjörnesi má skoða hin frægu Tjörneslög, sem gera kleift að lesa jarðsögu á heimsmælikvarða.

Sterkir innviðir.
    Möguleikar norðausturhornsins til að verða útivistarstaður fyrir ferðaglaðar fjölskyldur helgast ekki síst af þeirri uppbyggingu sem framsýnir leiðtogar á sviði sveitarstjórna á svæðinu hafa beitt sér fyrir. Á Þórshöfn er eitt frábærasta íþróttahús landsbyggðarinnar, með aðstöðu til fullkominnar heilsuræktar, og einstakri sundlaug sem að ýmsu leyti tekur þeim í höfuðstaðnum fram.
    Á Raufarhöfn er nýtt hótel, prýðilega hannað, sem að innri gerð gefur í engu eftir bestu hótelum landsins. Útsýnið, sem nær yfir höfnina og yfir í norðurheimskautið, sem sker Hraunhafnartanga, nyrsta odda Melrakkasléttunnar, á hins vegar engan sinn líka. Sama er að segja um matseldina, þegar framreitt er af nægtaborði nágrennisins, sjóbleikja úr ósavötnum Sléttunnar eða hreindýr. Kópasker, einn af snyrtilegustu bæjum landsins, með öfluga heilsugæslu, sundlaug, sterka samkeppni í verslun, og sérstæðasta kaffihús landsins þar sem epli Iðunnar eru hent á lofti, eykur enn á fjölbreytnina og undirstrikar einstöðu norðausturhornsins.

Þjóðgarður á Langanesi.
    Á Hornströndum Vestfjarða hefur tekist að koma upp ótrúlega fjölsóttu göngulandi. Friðlýsing svæðisins, vel afmarkaðar gönguleiðir, örfárra daga langar upp í nokkurra vikna, ásamt frábærri kynningu, hefur leitt til þess að þúsundir innlendra og erlendra manna sækja Hornstrandir heim á hverju sumri. Flutningsmenn horfa til fordæmis Vestfirðinga varðandi Hornstrandir og telja að hægt sé að fara sömu leið við að byggja upp Langanes sem paradís göngumanna sem ekki stæði Hornströndum að baki. Þannig mætti í fyllingu tímans fá þúsundir nýrra ferðamanna til norðausturhornsins.
    Landslag, dýralíf og saga gera Langanesið einstakt jafnt í sögulegu sem náttúrufarslegu tilliti. Það hlýtur því að koma sterklega til greina að fara að dæmi Vestfirðinga og gera friðland á Langanesi. Flutningsmenn eru raunar þeirrar skoðunar að vel komi til greina að stíga skrefi lengra: Frá sjónarhóli sögu og mannlífs, að ógleymdri einstakri náttúru, er allt sem mælir með því að Langanes verði gert að fjórða þjóðgarði landsins. Norðausturhornið væri þá í reynd rammað inn af tveimur þjóðgörðum, Jökulsárgljúfrum að vestan og Langanesi að austan. Ekki þarf að fara í grafgötur með sameiginlegt aðdráttarafl þeirra fyrir norðausturhornið. Því telja flutningsmenn að hluti af því verkefni sem stjórnvöldum er falið með tillögunni sé að brjóta til mergjar kosti og galla þess að gera Langanes að þjóðgarði.
    Reynslan sýnir að þjóðgarður eða vel auglýst friðland hefur mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn jafnt sem innlenda, og þar með fyrir svæðið í heild. Ákvörðun af hálfu ríkisins um þjóðgarð á Langanesi gæti því orðið geysileg lyftistöng fyrir svæðið. Ríkið myndi þá ráða sérstakan þjóðgarðsvörð, leggja í kostnað við að gera gönguleiðir um friðlandið, koma upp hreinlætisaðstöðu og sinna öðrum brýnum framkvæmdum, og kynna svæðið á sinn kostnað. Ekki er að efa að þetta skapaði í senn nokkur dýrmæt ný störf, en yrði einnig í tímans rás líklegt til að laða mikinn fjölda fólks inn á svæðið. Fjöllin, einstakar rekafjörur, silungsár og iðandi fuglalíf, að ógleymdu Skoruvíkurbjargi og minjum um merkilegt mannlíf, eru sannkallaðir seglar sem munu laða að ferðafólk um leið og þessi einstöku undur yrðu kynnt.

Náttúruparadís.
    Langanesið eitt og náttúra þess verðskuldar að hefja norðausturhornið til vegs fyrir ferðamenn. Aðrir möguleikar þess eru þó margir og fjölbreyttir, og einkennilegt að stjórnvöld skuli ekki fyrr hafa sett á þá kastljós.
    Melrakkaslétta og Öxarfjörður, með fjölmörgum vötnum og lónum sem tengjast hafi, eru paradís fuglaskoðara. Óvíða á landinu er jafnfjölbreytt fuglalíf, ekki síst andamergð, sem erlendum áhugamönnum um fugla þætti mikill fengur í. Þess má geta að sveitarstjórnin á Raufarhöfn hefur gert sér grein fyrir þessu sóknarfæri eins og speglast í sérstökum upplýsingabæklingi sem hún hefur gefið út á nokkrum tungumálum, þar sem gósenlandi fuglaáhugamanna á Melrakkasléttu er lýst. Víðs vegar um heiminn er fuglaskoðun veruleg lyftistöng fyrir ferðaþjónustu, þar sem byggð eru upp sérstök svæði með skoðunarskýlum sem áhugamenn berjast um, ef því er að skipta. Til marks um þá ástríðu sem heltekur áhugamenn um fugla má nefna að í nýafstaðinni baráttu um formennsku í breska Íhaldsflokknum tók annað formannsefnanna, Kenneth Clarke, sig upp í miðri baráttunni og hélt yfir hálfan hnöttinn til að skoða fuglinn kookaburru sem þá var hægt að sjá á sérstöku griðlandi fugla í Tasmaníu. Þetta undirstrikar þá sérkennilegu ástríðu fuglaáhugamanna sem leggja allt undir og horfa aldrei í aurinn ef þeim býðst að heimsækja einstök fuglasvæði, eins og á Melrakkasléttu eða Tasmaníu.
    Undan norðausturhorninu eru einhver auðugasta hvalavist í Íslandshöfum. Á Húsavík er sprottinn upp mikilvægur ferðaþjónustukimi sem byggist einvörðungu á hvölum. Skip flytja ferðamenn til að skoða hvali nokkrum sinnum á dag, og nýtt og frábært hvalasafn hefur vaxandi aðdráttarafl. Hvalaskoðun ætti allt eins að geta dafnað í öllum byggðarlögum norðausturhornsins. Auðvelt væri að tengja hana sjóferðum að Skoruvíkurbjargi til að gefa ferðamönnum kost á að líta augum hina ótrúlegu mergð fugla í bjarginu. Úr þessum náttúruundrum, til dæmis hvölum og bjargfugli, og sérstæðu landslagi er hægðarleikur að spinna svo einstæða upplifun í einni sjóferð að með góðri kynningu ætti það eitt að duga til að laða fjölda innlendra og erlendra ferðamanna á norðausturhornið.

Einstök veiðivon.
    Fyrir veiðimenn ætti að vera unnt að flétta saman margvísleg ævintýri á sviði veiða víðs vegar um norðausturhornið. Eitt besta rjúpnaland Íslands er að finna á Öxarfjarðarheiði, og fyrir skotveiðimenn er gæsafjöld að hausti sérstakt aðdráttarafl. Sjófugl á hafi veitir ekki síðri möguleika. Ónefndur er þá minkurinn, vargurinn í véum íslenskrar náttúru, sem sannarlega ætti að leyfa veiðimönnum, innlendum og erlendum, að spreyta sig á að koma fyrir kattarnef. Lax er í ám á svæðinu. Nægir að nefna Sandá, en þar gekk löngum sérstakur stofn, öðru vísi en allir stofnar á landinu, og auðþekktur af grænleitum blæ á þykku höfði. Fyrir vikið hefur Sandá verið eftirsótt til laxveiða af þokkasælum fyrirmönnum, eins og forsetum Alþingis og tannlæknum. Það sem sker þó norðausturhornið frá í augum stangaveiðimanna er ekki laxinn, heldur gnótt sjóbleikju og sjóbirtinga. Enginn fiskur sækir eins á meðal stangaveiðimanna um þessar mundir og sjóbleikja. Kvikur fiskur, sprettharður á stöngina, ekki ýkja stórvaxinn að jafnaði en frábær til matar, og einstaklega fágætur utan heimskautasvæða.
    Sjóbleikja er því óvíða jafnaðgengileg og á Íslandi. Hvergi er hana líklega að finna í jafnmiklum mæli og í ósavötum norðausturhornsins, og litlum straumvötnum sem þar falla til sjávar. Breskir veiðimenn á ofanverðri 19. öld töldu hámarki veiðiíþróttarinnar náð þegar þeir veiddu sjóbirting í tunglskini en í byrjun 21. aldar má með góðum rökum halda fram að enginn hafi náð æðsta skilningi stangaveiðinnar nema hafa veitt sjóbleikju í Sauðanesósnum á Langanesi á hausti úthallanda.
    Myljandi veiði á sjóbirtingi er sömuleiðis að hafa á norðausturhorni Íslands. Ekki einvörðungu í ósavötnunum, þar sem sjóbirtingurinn á sér kjörlendi og þarf aldrei að sækja í úthafið, heldur er þar að finna draumaá sjóbirtingsunnandans, Litluá í Kelduhverfi. Einstakar aðstæður, einkum vatnsmiklar volgrur, sem falla í ána, ala af sér gríðarstóra sjóbirtinga sem eiga sér helst ekki jafningja nema í ám Skaftafellssýslna og straumvötnum á suðvesturodda Írlands, en á öllum þessum stöðum sprikla náskyldir æringjar sem vaka í draumi sérhvers veiðimanns.
    Ekki er að efa að hægt væri að markaðssetja norðausturhornið á alþjóðlega vísu á grundvelli veiðivonarinnar sem tengist sjóbirtingi og sjóbleikju, sem óvíða er annars staðar að hafa í sama mæli og Íslandi, ekki síst norðausturhorninu. Ótaldir eru þá mikir möguleikar veiðimanna til að stunda aðra íþrótt, sem er veiði á sjóstöng.

Jákvæð byggðastefna.
    Samfylkingin hefur lagt sig í framkróka um að finna – og benda á – leiðir til að styrkja byggð í landinu. Þessi tillaga til þingsályktunar er hluti af þeirri vinnu. Eins og lýst er í greinargerð tillögunnar eru sérstaða svæðisins óumdeild, og með samstilltu átaki ætti því að vera kleift að þróa öfluga ferðaþjónustu á svæðinu. Til þess þarf atbeina stjórnvalda í fyrstu, og því er tillagan flutt. Hún er hluti af ábyrgri stefnumótun Samfylkingarinnar um uppbyggingu byggðar í landinu. Í henni felst jafnframt yfirlýsing um aðgerðir, sem flokkurinn mun beita sér fyrir þegar hann verður næst þátttakandi í landstjórninni.